Kvöldgestir Jónasar og nýr útvarpsþulur

Tvö síðast liðin föstudagskvöld hefur Ragnheiður Ásta Pétursdóttir sem nú er fyrrum útvarpsþulur verið gestur Jónasar Jónassonar. Ég verð að láta í ljós þá skoðun að skemmtilegri þætti og áhrifameiri hef ég varla heyrt frá Jónasi í langan tíma.
Jónas fór gjörsamlega á kostum í spjalli við Ragnheiði og mátti vart á milli heyra á köflum hvort ræddi við hvort, Jónas eða Ragnheiður. Jónas rakti ýmsar skemmtilegar minningar sínar úr Útvarpinu og Ragnheiður fléttaði svo skemmtilega inn í. Hún talaði opinskátt um líf sitt og sinna og sagði frá þeim veikindum sem urðu til þess að hún varð að hætta sem útvarpsþulur.
Mig rámar fyrst í Ragnheiði þegar ég var tæpra 10 ára illa haldinn af flensu hér í henni Reykjavík. Var svo veikur að móðir mín blessunin sem verður 100 ára á morgun, kom suður frá vestmanaeyjum til þess að vitja um mig og bróður minn. Þá voru tvær stelpur að reyna sig í Útvarpinu og önnur þeirra, Ragnheiður Ásta varð langlífari þar í rúm 44 ár.
En nú er komin ný kvenrödd sem þulur í útvarpið. Það er rödd Önnu Einarsdóttur leikkonu. Anna er ein besta kvenrödd sem komið hefur að þularhljóðnema í áratugi. Hún er mikill happafengur fyrir Ríkisútvarpið ásamt Sigríði Guðmundsdóttur sem allt of sjaldan heyrist í. Það mætti gera meira af því að þulir persónugerðu Rás 1 en nú er. T. d. kynna sig oftar en nú er gert. Þá myndi gamla vináttutilfinningin koma aftur einsog á tímum Ragnheiðar Ástu, Jóhannesar Arasonar, Jóns Múla, Péturs Péturssonar, Gerðar G. Bjarklind sem enn er að og fleiri.

Um nýjar hljóðbækur og gæðakröfur

Upp á síðkastið hefur verið fjörug umræða um hljóðbækur. Morgunblaðið birti á miðvikudaginn var, 25. júní ágæta fréttaskýringu um útgáfu hljóðbóka hér á landi og hafi blaðamaðurinn bestu þakkir fyrir. Þar kom m. a. fram að Hljóðbók.is hefur keypt allan hljóðbókalager Blindrafélagsins og frumrit þeirra hljóðbóka sem Hljóðbókaklúbburinn gaf út. Fullyrða má að Blindrafélagið hafi verið frumkvöðull útgáfu hljóðbóka hér á landi á almennum markaði. Megnið af þessum hljóðbókum er enn á snældum en unnið verður að því af fullum krafti að færa þær yfir á stafrænt form svo að hægt verði að gefa þær út á diskum eða hafa þær til sölu á netinu. En þetta er háð samningum við höfunda og útgefendur í nokkrum tilvikum.
Nú þegar er búið að ákveða nokkrar útgáfur: Ný hljóðbók er á leiðinni.
það er Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur. Vala Þórsdóttir leikskáld og leikkona les. Aska gerist í Vestmannaeyjum og afar spennandi glæpasaga sem spannar allt frá árinu 1973 þegar eldgosið í Heimaey byrjaði og til dagsins í dag. Þá er að koma út bókin Engin spor eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem er ásamt Yrsu og fleirum frábær glæpasagnahöfundur. Tveir valinkunnir leikarar, Viðar Eggertsson og Róbert Arnfinnsson lesa. Bókin kom fyrst út á snældum fyrir nokkrum árum og hefur nú verið sett á disk. Fleiri bókum verður sagt frá á næstunni.
Í umræðuna um hljóðbækur hefur Blindrabókasafn Íslands blandast enda hefur verið framleiddar þar mikill fjöldi góðra hljóðbóka til útláns.
Tæknilega standast þær hljóðbækur því miður ekki kröfur á almennum markaði. Það stafar af því að um árabil hefur enginn fylgst með innlestri hljóðbókanna og eru lesarar látnir stjórna sér sjálfir. Það gefur augaleið að með slíkum hætti slæðast oft inn leiðinlegar málvillur og allt of oft heyrist þegar lesarar leiðrétta mistök sín.
það er athyglisvert að forstöðumaður Blindrabókasafnsins skuli ekki horfast í augu við þessa staðreynd og reyna að bæta úr þessu. Kannski er viljinn fyrir hendi en fjármagnið eða eitthvað annað skortir.
Þá er athyglisvert að í Morgunblaðinu á fimmtudaginn var 26. júní telur hún upp nokkra ágætis lesara sem séu fastir lesarar Blindrabókasafnsins. Enn merkilegra er að sumir þessara lesara hafa ekki lesið inn hljóðbækur fyrir Blindrabókasafnið í nokkur ár. En Blindrabókasafnið er þörf stofnun og á allt gott skilið. Óskandi er að það sinni skyldum sínum hvað hljóðbækur til útláns varðar með auknum krafti og meiri gæðum hvað hljóðupptöku varðar.

eru mannorðsþjófar orðnir hvalavinir?

Þegar ég fletti mbl-vefnum í morgun rakst ég á frétt þess efnis að fólk í hvalaskoðunarbátnum Eldingunni hefði hindrað hvalveiðar í gær.
Tekið var fram að um borð í Eldingunni hafi verið fólk frá Alþjóða dýraverndunarsjóðnum sem sagðist ætla að ná mynd af hvalveiðunum og var Sigursteinn Másson þar í forsvari.
Líklega er Sigursteinn þessi fyrrum formaður Geðhjálpar og síðar Öryrkjabandalags Íslands.
Það er mörgum í fersku minni hvernig Sigursteinn kom fram við þáverandi framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins þegar hann hrakti hann fyrirvaralaust úr starfi og gerði það með þeim hætti að mannorði hans var stefnt í voða og í rauninni má segja að um drög að mannorðsmorði hafi verið að ræða.
Svo hraktist Sigursteinn frá Öryrkjabandalaginu og það var athyglisvert að á þeim tveimur aðalfundum sem hann stýrði náði hann engum málum fram. Slíkt var vantraustið á honum innan Öryrkjabandalagsins.
Nú virðist Sigursteinn hafa fundið sér nýjan vettvang sem friðarspillirog má í því sambandi minnast orða Skúla Magnússonar landfógeta sem bjó í Viðey og lét byggja þar kirkju og reisa hina glæsilegu Viðeyjarstofu:
Allt verður Íslands óhamingju að vopni

Messoforte í Hljómskálagarðinum stórkostleg skemmtan. Minnti á útihátíð á hinum Norðurlöndunum og minningar frá Bjarkargötu 8

Í gær daginn fyrir fæðingardag Jóns heitins Sigurðssonar fórum við fjölskyldan í Hljómskálagarðinn að hlusta á hljómsveitina Mezzoforte leika af fingrum fram.
Það verður að segja sem er að þetta var óborganleg skemmtun. Þarna var rúmt um alla og flestir virtust njóta sín til fulls. Strákurinn minn velti eitthvað vöngum yfir hegðan kríunnar, en að minnsta kosti var hún ekki í neinum árásarham og lét gesti Hljómskálagarðsins í friði, en vaggaði sér á tjörninni og blakaði vængjunum.
ég játa að ekki get ég gert upp á milli hljóðfæraleikara Mezzoforte, en mikið svakalega var trompetleikarinn, Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Eyþór og Jói Ásmunds flottir ásamt öllum hinum. Þá fór Gulli Briem gjörsamlega á kostum í nokkrum trommusólóum.
Það væri óskandi að Hljómskálagarðurinn yrði nýttur meira til svona tónleikahalds og þá skiptir engu hvort styttan af Jónasi Hallgrímssyni verði berstrípuð eða klædd í einhhvern viðhafnargbúning sem hæfir tilefninu.
Á eftir fórum við frú Herdís svo í garðveizlu í húsi STEFS við Laufásveg þar sem Jakob Frímann Magnússon núverandi formaður FTT og þar að auki miðborgarstjóri stjórnaði af röggsemi festu og vissum kærileysislegum virðuleik sem myndi vel sæma borgarstjóra allra reykvíkinga og sérstaklega næsta forseta lýðveldisins.
Tónleikar Mezzoforte voru m. a. í tilefni 25 ára afmælis FTT, Félags tónskálda og textahöfunda.
Fyrr um dagin var haldin garðveizla að Bjarkargötu 8, þar sem formaður FTT Jakob Frímann býr ásamt fleira fólki. Því miður komst ég ekki þangað vegna annríkis, en þaðan af Bjarkargötunni á ég margar ljúfsárar minningar þegar ég ásamt Arnþóri bróður mínum stundaði nám við Blindraskólann sem var þar til húsa fyrir hart nær hálfri öld og eitthvað fram á áttunda áratug liðinnar aldar.
Þarna í húsinu við Bjarkargötu 8 bjó all nokkur hópur aldraðs fólks sem var blint eða sjónskert og sumt vægast sagt mjög sérstakt. húsið er stórt og mikið og þar eru mörg skúmaskot þar sem við eyjapeyjar ásamt fleirum lékum okkur.
Ég var á þeim árum eitthvað byrjaður á að leika á blokkflautu.
Fyrsta veturinn þegar ég kom með flautuna suður var ég 10 ára. Þarna á Bjarkargötunni var piltur frá Akureyri samtíða okkur. Stundum rifumst við einsog hundar og var ekki alltaf víst hvor hefði betur.
Einu sinni fannst mér ég þurfa að nota barefli á norðanmanninn og greip sópranblokkflautuna og keyrði hana af alefli í hausinn á pilti sem rak upp skaðræðis öskur svo að þaut í trjánum í Hljómskálagarðinum. Flautan var tekin af mér í viku og þegar ég fékk hana aftur stór sá á hljóðfærinu svo að ég ákvað að þegar ég yrði stærri skyldi ég eignast blokkflautu úr málmi eða harðviði.
ÞArrna á blindraheimilinu að Bjarkargötu var meðal annarra gamall kennari að austan. Hann var alveg blindur. Ofbauð stundum hávaðinn í okkur strákum, einum af norðan, öðrum af Skaganum og okkur tveimur úr Eyjum og svo enn einum sem var úr Reykjavík.
Gamli kennarinn sat alltaf við enda matborðsins og sagði okkur ýmist að þegja eða hafa hægt um okkur.
Einu sinni þegar við peyjar vorum í hróka samræðum og hann náði ekki að fylgjast með fréttunum í útvarpinu sagði hann í blíðurómi:
Reynir minn. Kondu hérna karlinn. Ég ætla að berja þig.
Maturinn þarna var yfirleitt góður, fiskur 5 til 6 sinnum í viku og oft siginn og vondur.
þarna vandist ég af að eta siginn fisk.
Oft var grautur í eftirrétt. Hrísgrjóna, sakóvellingur eða hrísmjölsgrautur. Einu sinni fékk gamli kennarinn ásamt okkur öllum hinum graut á eftir fiskinum. Gamli kennarinn að austan smakkaði á grautnum, kjamsaði og segir svo stundarhátt.og stamaði:
Það það er hu hundaskýtsbragð af grautnum.
Ráðskonunni á staðnum sem var yndisleg manneskja og gekk okkur strákum hálfgert í móðurstað varð orðfall. En hún breytti í engu framkomu sinni við gamla manninn.
Sá sem bygði Bjarkargötu 8 var Jón Þorláksson fyrrum forsætisráðherra. Ætli húsið hafi ekki verið reyst einhvern tíman á þriðja áratug liðinnar aldar.
Í kjallaranum bjó gamall maður sem var búinn að vera blindur í mörg ár. Á þeim árum kom fullorðin kona heim til landsins en hún hafði búið erlendis í mörg ár. KOnan ætlaði að athuga hvort hún ætti að eiða ævikvöldinu á Fróni eða erlendis. Þegar konan fékk inni á Bjarkargötu 8 fékk hún herbergi á annarri hæð hússins. Það var rúmgott og bjart. Þá fóru íbúar hússins að taka eftir umgangi á næturnar og skildu ekkert af hverju hann stafaði. Gamli maðurinn í kjallaranum sagði með sinni nefmæltu rödd enda tók hann óspart í nefið:
Þetta er bara hann Jón Þolláksson að athuga hvort ekki sé í lagi hérna.
Og umgangurinn hélt áfram og ráðskonan og maðurinn hennar létu kyrrt liggja. Þangað til eina nóttina að þá heyrist umgangurinn aftur og mikið brölt uppi á lofti. Og síðan sárir kveinstafir og það var hrópað á hjálp. Það var mið nótt og íbúar fóru á stjá til þess að athuga hverju þessi fyrirgangur sætti. Hljóðin bárust úr herbergi áðurnefndrar konu á annarri hæð og þegar þangað kom lá hún í rúmi sínu. Kjallarabúinn var aðeins meira en við hliðina á henni og fengið svo heiftarlegt þursabit að hann gat hvergi hrært sig undan eða ofanaf konunni.
Þegar allt þetta komst upp og skýring var fengin á umganginum hafði gammli maðurinn engar vöflur á, heldur bað konunnar og þau giftu sig og urðu hamingjusöm hjón í ellinni.
Frúin var alltaf heima fyrir hádegi en maðurinn vann á vinnustofu Blindravinafélags Íslands að Ingólfsstræti 16. En Blindravinafélagið átti Bjarkargötu 8 á þessum árum. Gamla konan sinti okkur strákum stundum og þegar ég fór í Menntaskólann í Reykjavík leigði ég þarna fyrsta veturinn minn. Þá átti ég aldeilis hauk í horni þar sem frúin bjó þarna enn. hún sagði mér ágætlega til í dönsku.
Þau gömlu hjónin tóku sér alltaf gönguferð um Bjarkargötuna eftir hádegismatinn og gengu þar fram og aftur. En einu sinni brugðu þau út af leið og tóku sér gönguferð í Hljómskálagarðinum.
Konan sá lítið sem ekkert en maðurinn var alblindur.
Svo ganga þau yfir grasflöt og konan segir:
það er pollur hér framundan, stór pollur.
Gamli maðurinn svarar:
Það er allt í lagi, við bara hoppum yfir.
Og svo tekur hann undir sig stökk.
Maðurinn hátt á áttræðis aldrinum og frúin á svipuðu reki en mjög þung á sér sleppti ekki eginmanninum sem hafnaði úti í tjörn en hún lá nær ósjálfbjarga á tjarnarbakkanum. Gamli maðurinn svamlaði um og vissi ekki í hvaða átt var landfestu að ná. Einhver góðhjartaður vegfarandi aðstoðaði þau og vísaði þeim á rétta leið heim. Eftir þetta héldu gömlu hjónin sig á Bjarkargötunni þegar þau tóku sér gönguferð.
Miklu fleiri sögur gæti ég sagt, en læt staðarnumið að sinni.
Þó skal sagt frá því að áður en Blindravinafélag Íslands keypti Bjarkargötu 8 bjó margt af þessu gamla fólki í húsi félagsins við Ingólfsstræti þar sem það vann einnig.
Þangað hafði komið mjög sjóndapur karl að vestan. Hann var mjög sérstakur og fékk herbergi uppi í risi.
Eins og gekk og gerðist var hann með næturgagnið sitt undir rúminu.
Einu sinni þegar næturgagnið var orðið fleytifullt af vökva ákvað sá gamli að vestan að tæma það. Beinasta leiðin var glugginn.
Sá gamli opnar gluggann og skvettir úr næturgagninu.
Svo vildi til að formaður Blindravinafélagsins var akkúrat í þessu að ganga út um dyr hússins í fína frakkanum sínum. Hann fékk gusuna yfir sig og frakkann. Hann gerði ekkert mikið úr þessu fyrr en að frakkinn var settur í hreinsun og dæmdur ónýtur.

Nýi íslenski talgervillinn gjörsamlega mislukkaður. Opinbert fé út um gluggann

Í fyrra var því slegið upp í blöðum að kominn væri á markaðinn nýr íslenskur talgervill sem kallaðist Ragga. Talgervillinn nýtir rödd Ragnheiðar Clausen sem mig minnir að hafi verið sjónvarpsþulur og hafi ljúfþýða rödd.
Þegar Ragga talgervill var settur á markaðinn fékk ég hana til prufu. Eftir miklar væntingar urðu vonbrigðin mjög mikil. Hún Ragga talgervill hljómaði einsog grátklökk gömul kona sem virtist vonsvikin og bitur.
Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir til Hex hugbúnáðarhúss sem sá að miklu leiti um gerð talgervils eða hönnun og til þeirra, sem sáu um tungutækniverkefni menntamálaráðuneytisins fengust engin svör hvort gerðar yrðu úrbætur á talgervlinum.
Nú er tungutækniverkefninu lokið. Höskuldur Þráinsson prófessor sem var í þessu verki og hefur sýnt íslenskum talgervlum mikinn áhuga virtist vonsvikinn yfir nýja talgervlinum.
Einn þeirra sem stóðu framarlega í þróun talgervilsins reif kjaft við mig og sagði að notendur hefðu ekkert endilega mest vit á hlutunum.
Nú er það svo að talgervlar nýtast ekki einungis þeim sem sjá ekki til þess að lesa á tölvur, heldur einnig þeim sem vegna ýmissa annarra orsaka eiga erfitt um vik með lestur.
Steininn tók úr í mars síðast liðnum þegar talgervillinn Ragga þagnaði hjá þeim sem hann var settur upp hjá á tölvur, þar á meðal mér. Ég hélt fyrst að um bilun væri að ræða í vélinni minni en fyrir nokkru komst ég að hinu sanna: Ragga er sum sé "dáin" eða flogin burt á vit ókunnra rafrænna sviða. Nú hlýtur að vera keppikefli margra að fá góðan íslenskan talgervil. Hver ber ábirð á þessu með nýja talgervilinn og ætla menn eitthvað að bæta úr? Verður þeim sem fengu talgervilinn nýja bættur skaðinn?
Fyrir um 18 árum var tekinn í notkun íslenskur talgervill. Röddin er ekkert sérstök, en hann hefur dugað fram á þennan dag. Svo fyrir réttum áratug var tekinn í notkun annar talgervill sem er nefndur eftir Snorra Sturlusyni stórbónda í Reykholti í Borgarfirði og skáldi. Sá talgervill er um margt ágætur en dulítið blæstur á máli. Fyrrum menntamálaráðherra Björn Bjarnason lagði sig fram um samskipti á netinu og hefur haft forystu á því sviði. En núverandi menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist ekki hafa mikinn áhuga á þessum málum. Vonandi eykst sá áhugi og vonandi verður komið í veg fyrir það að opinberum fjármunum verði fleygt út um gluggann þegar um svona mislukkuð verkefni einsog t. d. talgervilinn Röggu varðar, hjálpartæki sem gætu skipt sköpum fyrir þúsundir íslendinga.
Það er undarlegt að ekkert heyrist frá samtökum einsog t. d. Öryrkjabandalagi Íslands, Blindrafélaginu, Félagi lesblindra á Íslandi og fleirum um þetta mál.

Sumt er varðveitt óvart í fórum Ríkisútvarpsins einsog t. d. kvöldsagan

Áður en ég kem mér að efninu langar mig að þakka þeim sem hafa sett sig í samband við mig og leiðbeint mér með þessa síðu. Það slæðast af og til inn ritvillur. Ég reyni að leiðrétta þær eftir föngum og bið ykkur að virða viljann fyrir verkið.
Um nokkurra ára skeið hefur verið flutt kvöldsaga í Ríkisútvarpið að sumarlagi. Hér fyrrum voru fluttar margar sögur á dag.
það var morgunsaga barnanna, miðdegissaga þegar sól rís hæst, útvarpssagan var á kvöldin og svo var það kvöldsagan sem var á svipuðum tíma og núverandi kvöldsaga.
Núna er verið að flytja Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Einhverja sérstæðustu sakamálasögu sem mér finnst hafa verið samin á hérlenda tungu. Og það er höfundurinn sem les. Gunnar var ekkert sérstakur lesari að mínu mati en það gefur sögunni óneytanlega sérstakan blæ að heyra hann lesa.
Einn tæknimaður hjá útvarpinu sem sá m. a. um að hljóðrita þessa sögu sagði mér að Gunnar hefði lesið söguna beint og bannað hljóðritun. En þeir tæknimenn á útsendingarvaktinni stálust til þess að hljóðrita lestur höfundarins og björguðu þannig menningarverðmætum. Tæknimenn voru kallaðir á þeim dögum magnaraverðir.
Þegar lestur útvarpssagna ber á góma í mín eyru minnast fjölmargir á þýðingu Helga Hjörvars og lestur hans á Bör Börson eftir Johan Falkberget. Lestur Helga þótti svo mikil snilld að götur tæmdust, fundum var frestað, beðið var með bíósýningar og kýrnar héldu í sér á meðan bændur og búalið hlustuðu á Helga. Því miður hefur sá lestur ekki varðveist en í óskalagaþætti Sjómanna frá árinu 1955 las Helgi brot úr sögunni um Bör og sú hljóðritun er til.
Fyrir 30 árum hljóðritaði ég söguna fyrir forvera Blindrabókasafnsins, en þá unnu Borgarbókasafn Reykjavíkur og Blindrafélagið sameiginlega að hljóðbókaútgáfu til útláns. Borgin stóð aðallega undir öllum kostnaði en Blindrafélagið lagði til hljóðverin og starfsmann. Þá las Kristinn Gíslason fyrrum kennari, bróðir Hjálmars Gíslasonar sem var þekktur skemmtikraftur og vann hjá skattinum söguna um Bör. Kristinn náði þessari makalausu hæðni sem er í bókinni að hrein unun var á að hlusta.
Svo var það fyrir 17 árum að ég hljóðritaði lestur Péturs Péturssonar á fyrrihluta bókarinnar um Bör. Rolf Johannsen kostaði upptökuna fyrir Aðalstöðina, en flutningur á lestri Péturs var bannaður.
Í fyrra stóð til að gefa út lestur valinkunns leikara á Bör. En því miður fékkst ekki leyfi til þess.
Því miður hafa margir útvarpslestrar farið í glatkistuna.
Mér er minnisstæður lestur Lárusar Pálssonar leikara á heljarslóðarorustu eftir Benedikt Gröndal sem er afskaplega fyndin og skemmtileg stríðsádeila. Lestur Lárusar sem fluttur var árið 1967 ef ég man rétt var þvílík snilld að það hálfa hefði verið nóg. Það er hugsanlegt að lesturinn sé til á gömlu segulbandi sem við Arnþór bróðir minn áttum en er nú í fórum Ríkisútvarpsins.
Ein af þeim perlum sem lesin hefur verið í útvarpið er Góði dátinn Svejk. Gísli Halldórsson las bókina af svo mikilli innlifun og snilld að fólk þreytist aldrei á að hlusta á hann aftur og aftur. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir að sá lestur yrði eyðilagður.
Reyndar las Gísli sögu eftir Gunnar Gunnarsson líklega í byrjun áttunda áratugarins sem heitir Vikivaki og byggir á þjóðtrú landsmanna um líf eftir dauðann. Ef sá lestur er til hjá útvarpinu mætti gjarnan endurtaka hann. En afrit er til hjá Blindrabókasafninu.
Annars hefur Ríkisútvarpinu verið legið á hálsi fyrir að eyða mörgu efni sem flutt hefur verið. Hér hefur líklega fyrrum ríkt það viðhorf að endurnýta segulböndin af því að fjármagnsskortur háði útvarpinu og sennilegaa hefur starfsmönnum verið uppálagt að spara að ósekju, en svo var smekkur sumra þannig að þeir geymdu aðeins það sem þeim þótti gott. Vonandi verður breyting á þessum viðhorfum eftir því sem tækni við geymslu fleygir fram. Fyrir nokkru heyrði ég viðtal við samlanda minn Pál Magnússon útvarpsstjóra. Hann sagði frá þeim draumi sínum um að gera allt efni segulbandasafn Ríkisútvarpsins aðgengilegt almenningi, bæði hljóð og myndefni. Þá mun renna upp gósentíð fyrir okkur grúskara, sem gætum þá valið úr þeim dýrmætu perlum sem í fórum Ríkisútvarpsins leynast.

öryggi gangenda í henni Reykjavík

Fyrir einu eða tveimur árum var mér boðið á fund hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Ég veit ekki af hverju en tilefni fundarins var að kynna búnað fyrir gangbrautar og unferðarljós sem auðvelda átti fólki með skerta sjón að ganga um götur borgarinnar.
Sá sem sýndi þennan búnað var sænskur og virtist þaulhugsað hvernig svona búnaður væri sem best nýtanlegur.
Ég hef af og til spurst fyrir um hvað líði því að setja upp hljóðvita á umferðarljós borgarinnar en fremur dræm svör fengið.
Nú er það svo að umferðarljós og gangbrautarljós eru víða um borgina. Sum hljóðmerkt, sérstaklega gangbrautarljós, en umferðarljósin eru teljandi sem eru með slíka hljóðvita.
Fyrir mörgum árum voru hljóðvitar á umferðarljósum algengir en líklega hafa þeir gengið úr sér og lítið verið haldið við.
Þegar dregur nær gamla miðbænum eru umferðarljós til hreinnar fyrirmyndar hvað varðar það hversu ljósin sjást vel. Hljóðvitar eru nær engir nema kannski hjá Tryggingastofnun á horni Laugavegar og Snorrabrautar. En þegar gengið er svo að dæmi sé tekið, um austurhluta borgarinnar, t. d. Háaleitishverfið er mörgum ljósum þannig háttað að við viss birtuskilyrði sjást þau varla. Þetta skapar mikið óöryggi gangenda í umferðinni og það er fyrst og fremst að þakka mörgum þeim sem eru fyrirmyndar ökumenn að ekki skuli hljótast fleyri slys af en raun ber vitni.
Þegar ég geng yfir horn Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar sem er eitt svakalegasta horn bæjarins að mínu mati velti ég fyrir mér hvort ég muni lifa af gönguferðina yfir þessar götur.
Annað rosalegt horn er aðeins sunnar. Það eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það horn er nokkuð vel hljóðmerkt, enda hús Blindrafélagsins skammt undan og um að gera að hafa allt í toppstandi þar svo að fólk álykti að allt sé í góðu lagi hvað þessi mál varðar annars staðar í borginni.
Þegar sólin er lágt á lofti eða þegar hún rís í austri og morgungyðjan þeysist um á gullvagni sínum eru birtuskilyrðin þannig að maður tekur hreinlega sjensinn á gatnamótum einsog t. d. Háaleitisbrautar og Mringlumýarbrautar eða Nóatúns og Laugavegar þótt Fíladelfíusöfnuðurinn sé skammt undan með aðalstöðvar sínar. .
Nú hefur minnihluti meirihlutans sem er við völd í borginni stært sig af því að hafa hag fatlaðra í fyrirrúmi. Hann hefur svo sannarlega gert það á margan hátt og boðað t. d. ókeypis í strætó, en samt mega hundar ekki fara í strætó af því að hann sjálfur sem er borgarstjóri fer aldrei í strætó og veit ekki hvað það er að fara í strætó. Það væri verðugt verkefni að koma hljóðvitum á öll umferðar og göngubrautarljós í borginni og gera slíkan búnað að staðalbúnaði slíkra ljósa. þetta myndi hvetja marga til þess að nýta sér að ganga eða ferðast um á annan hátt en bíl og nýta sér gangstéttir borgarinnar.
Þá væri full þörf að taka hart á þeim umferðarsóðum sem eru því miður all margir í borginni, en þeir leggja bílum sínum þvers og kruss á gangstjéttum þannig að gangendur þurfa stundum að smokra sér út á götu til þess að ganga ekki í gegnum bílana. þetta væri verðugt verkefni væntanlegs nýs borgarstjóra ef sá sem er nú í því embætti skyldi ekki koma því í verk.
Það skal minnt á í lokin að allt sem fólki með fötlun er gert til góða kemur samfélaginu í heild vel.

Pílagrímsferð á bítlaslóðir

Um síðustu helgi var ég svo heppinn að slást í för með 100 íslendingum. Flogið var til Manchester og þaðan ekið í rútum til Liverpool.
Tilgangur ferðarinnar var að fara á slóðir bítlanna, fara á tónleika í Kavernklúbbnum með Hljómum sem urðu lokahljómleikar þeirra.
Hápunktur ferðarinnar voru tónleikar með Paul McCartney, en þeir voru haldnir á Manfield road leikvanginum í Liverpool.
Ég ætla ekki að lýsa þessari ferð, en segja aðeins að hún var einstök upplifun. Jakob Frímann Magnússon var fararstjóri en FTT, Félag tónskálda og textahöfunda stóð fyrir þessari ferð. Þarna í för voru ýmsir fjölmiðlamenn. Þar á meðal Ólafur Páll Gunnarsson frá Rás 2. Hann gerði ferðinni góð skil í Rokklandinu sínu í dag. Þátturinn er vafalaust á síðu Ríkisútvarpsins og hvet ég alla bítlaaðdáendur til þess að hlusta á þennan stórgóða þátt og upplifa stemninnguna sem var ógleymanleg og einhver sú mesta upplifun sem ég og fleiri urðum vitni að. Þátturinnn verður á síðu útvarpsins næstu tvær vikurnar.
Þegar við ferðalangar flugum heim að kvöldi þess 2. júní sl. var tilkynnt að Hljómar hefðu slegið lokahljóm svinn í Kavernklúbbnum. Það setti óneitanlega mikinn trega að fólki. Allir þeir fjórmenningarnir, Eggert, Erlingur, Gunni og Rúni voru hetjur kvöldsins 31. maí í Kavernklúbbnum. Það verður að segja sem er að Gunni Þórðar gaf frá sér einhvern þann magnaðasta kraft sem ég hef orðið vitni að. Hann gaus einsog eldfjall og smitaði alla í kringum sig. Hljómatónleikarnir voru einstök upplifun ásamt tónleikum Pauls. Þarna hrönnuðust upp alls kyns minningar æskunnar og þeirra daga sem lifaðir hafa verið hér á Jörðu á ýmsan hátt. Ef það verður efnt til svona bítlaferðar aftur ætla ég að reyna að komast með og upplifa bítlaborgina í þriðja sinn.

Höskuldur Kárason minning

Þegar ég fletti Morgunblaðinu í dag rakst ég á minningargreinar um Höskuld Kárason. Mann ættaðan að norðan, en bjó í Vestmannaeyjum í rúma þrjá áratugi. Ég játa að mér brá mjög.
Við Höskuldur kynntumst vel um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar, en þá var hann sjúkraliði á Dvalarheimili Sjálfsbjargar að Hátúni 12 í Reykjavík. Þar var ég nokkuð tíður gestur á þeim árum. Þegar ég hitti Höskuld fyrst heilsaði hann mér eins og við hefðum þekkst alla ævi og hefðum síðast hisst í gær. Ég tók fljótt eftir því hvað hann var mikill vinur þeirra sem hann umgekkst og gerði allt sem hann gat til þess að leysa úr vanda fólks. Þá var maðurinn með afbrigðum lífsglaður, einstaklega hlýr og gefandi og smitaði út frá sér kátínunni og góðvildinni.
Leikar fóru svo að við Höskuldur urðum góðir vinir og brölluðum margt sem er geymt og alls ekki gleymt. Má t. d. nefna að við fórum ekki ófáar ferðir með Sjálfsbjargarfélögum hingað og þangað og þar lá Höskuldur aldrei á liði sínu ef hann þurfti að aðstoða einhvern.
Það hefur verið líklega árið 1975 sem ég var beðinn um að gera þátt fyrir Ríkisútvarpið sem skyldi fjalla um málefni fatlaðra. Þátturinn var gerður í tilefni alþjóðadags fatlaðra og fluttur ef ég man rétt í september þetta ár. Ég bað Höskuld um að gera þennan þátt með mér og þeir sem til þekktu, forsvarsmenn Sjálfsbjargar í Reykjavík og Sjálfsbjargar landsambands fatlaðra lögðu blessun sína yfir verkið ásamt fleirum.
Við Höskuldur vorum fljótir að átta okkur á efnistökum. Tókum hús á mörgum, ræddum við fjölda fólks og skoðuðum margt. Tókum m. a. út nokkrar byggingar með tilliti til þess hvernig þær hentuðu fötluðu fólki.
Ein þeirra bygginga sem við skoðuðum var stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Á þeim árum höfðu forseti Íslands og forsætisráðherra aðsetur sitt þar. Við gengum upp að stjórnarráðinu og Höskuldur lýsti tröppuganginum við húsið. Svo stóðum við fyrir framan dyrnar að stjórnarráðinu og komumst að því að þær væru svo mjóar að manneskja í hjólastól eða fötluð á einhvern annan hátt gæti ekki orðið forseti lýðveldisins. Eitthvað spurðist þetta tiltæki okkar út og það varð allt vitlaust og menn tóku að sverja af sér þáttinn og ábirgð sína á honum. En við gáfum okkur hvergi og þátturinn var fluttur.
Við vinirnir glöddumst svo innilega yfir öllum símhringingunum sem dundu á okkur og hlógum okkur máttlausa yfir þeim sem skömmuðu okkur.
Fljótlega veitti ég því athygli að Höskuldur var farinn að tala mikið um Vestmannaeyjar. Það dróst svo upp úr honum að hann hafði kynnst henni Leifu sem var þaðan. Leikar fóru svo að árið eftir þennan þátt eða sama ár áttum við leið á Þjóðhátíð og það urðu miklir fagnaðarfundir á Umferðarmiðstöðinni. Ég hafði byrjað eitthvert forskot á Þjóðhátíðina og við Höskuldur nálguðumst hátíðina af hæfilegum krafti. Þegar svo til Þorlákshafnar kom og í borð í Herjólf leið sjóferðin óvenju fljótt og við fréttum síðar að all flestir hefðu verið sjóveikir nema við. En eftir þetta fór Höskuldur varla úr Eyjum enda giftist hann elskunni sinni, eignaðist með henni börn og buru og tók mikinn þátt í félagslífinu þar.
Fráfall Höskuldar bar skyndilega að á laugardaginn 31. maí. Þá var ég staddur á bítlaslóðum í Liverpool og hugsaði til hans og annarrra vina minna. Með Höskuldi Kárasyni er genginn góður drengur og einstakur. Væru slíkir fleiri til þyrftu t. d. fatlaðir ekki að þurfa að heija stöðuga baráttu fyrir jafnrétti og tilverurétti í þjóðfélagi samtímans. Ég sendi Sigurleifu og afkomendum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þess góða drengs Höskuldar Kárasonar.

Um útgáfu hljóðbóka fyrir jólin

Nú eru að verða all nokkur ár síðan hljóðbókaútgáfa fyrir almennan markað hófst hér á landi. Hún hefur gengið upp og ofan, en stöðugt eru fleiri bækur gefnar út á hljóðbókum. Nú virðist all nokkur sókn í þessari útgáfu. Við hjá Hljóðbók.is verðum með all nokkra titla auk þess sem við erum í samvinnu við aðra aðila um hljóðbókaútgáfu.
Þá hefur Dimma, bókaforlag staðið sig með eindæmum vel í útgáfu hljóðbóka. Hörpuútgáfan var nokkuð öflug á þessu sviði en nú hefur þeirri útgáfu verið hætt, eða hún sameinuð öðru forlagi.
Þá kom Ormstunga skemmtilega inn í þessa útgáfu á þessu ári, en Stefán Sigurkarlsson lyfjafræðingur hefur sent frá sér nokkrar stórgóðar bækur. Má þar nefna Handan við regnbogann, uppvaxtarsögu manns í Reykjavík, sem var uppi á seinni stríðsárunum. Þessa bók las Stefán sjálfur auk bókar, sem heitir Hólmanespistlar og geymir safn smásagna og pistla sem gætu gerst hvar sem er.
Þá hyggst Hið íslenska bókmenntafélag fara út í útgáfu hljóðbóka og alla vega veit ég um tvær bækur. SZadig eftir Woltari er komin út í lestri Hjalta Rögnvaldssonar og von er á Birtingi í þýðingu Halldórs Laxness. Það er skemmtilegt þegar hljóðbókum á almennum markaði fjölgar. Þá verður úrvalið meira og fólk nýtur bókanna á annan hátt en að lesa þær.
Hjá okkur í Hljóðbók.is nefni ég nokkrar bækur.
Auk tveggja útvarpsleikrita, Mæju spæju og Skugga-Sveins kemur Aldingarðurinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson út í snilldar lestri Hallmars Sigurðssonar.
Þá er að koma út bók Jóns Kalmanns Stefánssonar Sumarljós og svo kemur nóttin. Þá bók les Hjalti Rögnvaldsson leikari.
Þá hefur JPV útgáfan hafið útgáfu hljóðbóka og nýtir sér aðstöðu Blindrabókasafns Íslands, þannig að eiginlega má tala um ríkisútgáfu hljóðbóka, séu þessar stofnanir í samvinnu við gerð þeirra. Allt er þetta vel. En það væri full ástæða til þess að hvetja útgefendur til þess að gefa út hljóðbækur samtímis prentuðum bókum. Það eru ómæld menningarverðmæti fólgin í góðum upplestri og ég tala nú ekki um, ef lesararnir eru úr röðum höfundanna sjálfra.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband