öryggi gangenda í henni Reykjavík

Fyrir einu eða tveimur árum var mér boðið á fund hjá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar. Ég veit ekki af hverju en tilefni fundarins var að kynna búnað fyrir gangbrautar og unferðarljós sem auðvelda átti fólki með skerta sjón að ganga um götur borgarinnar.
Sá sem sýndi þennan búnað var sænskur og virtist þaulhugsað hvernig svona búnaður væri sem best nýtanlegur.
Ég hef af og til spurst fyrir um hvað líði því að setja upp hljóðvita á umferðarljós borgarinnar en fremur dræm svör fengið.
Nú er það svo að umferðarljós og gangbrautarljós eru víða um borgina. Sum hljóðmerkt, sérstaklega gangbrautarljós, en umferðarljósin eru teljandi sem eru með slíka hljóðvita.
Fyrir mörgum árum voru hljóðvitar á umferðarljósum algengir en líklega hafa þeir gengið úr sér og lítið verið haldið við.
Þegar dregur nær gamla miðbænum eru umferðarljós til hreinnar fyrirmyndar hvað varðar það hversu ljósin sjást vel. Hljóðvitar eru nær engir nema kannski hjá Tryggingastofnun á horni Laugavegar og Snorrabrautar. En þegar gengið er svo að dæmi sé tekið, um austurhluta borgarinnar, t. d. Háaleitishverfið er mörgum ljósum þannig háttað að við viss birtuskilyrði sjást þau varla. Þetta skapar mikið óöryggi gangenda í umferðinni og það er fyrst og fremst að þakka mörgum þeim sem eru fyrirmyndar ökumenn að ekki skuli hljótast fleyri slys af en raun ber vitni.
Þegar ég geng yfir horn Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar sem er eitt svakalegasta horn bæjarins að mínu mati velti ég fyrir mér hvort ég muni lifa af gönguferðina yfir þessar götur.
Annað rosalegt horn er aðeins sunnar. Það eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það horn er nokkuð vel hljóðmerkt, enda hús Blindrafélagsins skammt undan og um að gera að hafa allt í toppstandi þar svo að fólk álykti að allt sé í góðu lagi hvað þessi mál varðar annars staðar í borginni.
Þegar sólin er lágt á lofti eða þegar hún rís í austri og morgungyðjan þeysist um á gullvagni sínum eru birtuskilyrðin þannig að maður tekur hreinlega sjensinn á gatnamótum einsog t. d. Háaleitisbrautar og Mringlumýarbrautar eða Nóatúns og Laugavegar þótt Fíladelfíusöfnuðurinn sé skammt undan með aðalstöðvar sínar. .
Nú hefur minnihluti meirihlutans sem er við völd í borginni stært sig af því að hafa hag fatlaðra í fyrirrúmi. Hann hefur svo sannarlega gert það á margan hátt og boðað t. d. ókeypis í strætó, en samt mega hundar ekki fara í strætó af því að hann sjálfur sem er borgarstjóri fer aldrei í strætó og veit ekki hvað það er að fara í strætó. Það væri verðugt verkefni að koma hljóðvitum á öll umferðar og göngubrautarljós í borginni og gera slíkan búnað að staðalbúnaði slíkra ljósa. þetta myndi hvetja marga til þess að nýta sér að ganga eða ferðast um á annan hátt en bíl og nýta sér gangstéttir borgarinnar.
Þá væri full þörf að taka hart á þeim umferðarsóðum sem eru því miður all margir í borginni, en þeir leggja bílum sínum þvers og kruss á gangstjéttum þannig að gangendur þurfa stundum að smokra sér út á götu til þess að ganga ekki í gegnum bílana. þetta væri verðugt verkefni væntanlegs nýs borgarstjóra ef sá sem er nú í því embætti skyldi ekki koma því í verk.
Það skal minnt á í lokin að allt sem fólki með fötlun er gert til góða kemur samfélaginu í heild vel.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

allt í lagi

Helgi Tómas Gíslason (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband