Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Plútó - minning

Í dag 7. júlí lést besti vinur okkar hann Plútó 12 ára að aldri.
Hann var fæddur í Hveragerði líklega 4. mars 1997.
Plútó var einn af 7 hvolpum border collie, mest megnis íslenskur í aðra hvora ættina og sá eini sem var með litabrigði.
Hann var dökk grár, hvítur á fótum og með eins og móðir mín kallar það þjófaljós í hringaðri rófunni. Ofan á höfðinu sköpuðust ótrúlega fallega brúnir, svartir og hvítir litir og svo voru dökkar línur við augun.
Þegar við náðum í hann í Hveragerði höfðu verið teknir tveir hvolpar úr gotinu sem ég gat valið um. Þetta litla skinn var stuttfætt, kubbslaga, átta vikna gamalt og kom vaggandi á móti mér og gat vart staðið undir sjálfum sér. Við féllum hvor algjörlega fyrir öðrum sem og öll fjölskyldan. Skapgerðin var einstök. Hann var ljúfur og alltaf glaður. Hann átti það auðvitað til eins og svo margir hundar sem eru hálf íslenskir að vera óttalegur hávaðabelgur en mér tókst að venja hann af gelti þegar mig bar að garði heima. En stundum gleymdi hann sér og varð svo skelkaður þegar hann uppgötvaði hver var kominn að frú mín varð að fylgja honum til dyra.
Þegar Plútó kom til okkar bjuggum við á Skildingatanga 6 í Skerjafirði. Niðri við göngustíginn varð Plútó fljótt heimaríkur og taldi sig ráða yfir miklu landflæmi í Skerjafirðinum. Hann átti það til að sitja uppi á hól fyrir aftan húsið okkar, horfa yfir ríki sitt og dást að veldi sínu. Það fór ósegjanlega í taugarnar á honum ef bátur eða skip sem honum leist ekki á dirfðist að sigla eftir firðinum án samþykkis hans.
Svo átti hann það til að fá sér langar gönguferðir með hinum og þessum sem voru í gönguferð á stígnum. Stundum hvarf hann í 1 til 2 tíma af því að félagsskapurinn sem hann valdi sér var svo góður. Eða kannski þurfti hann að hitta lóðartík og fylgja henni alla leið úr Kópavogi yfir í ríki sitt.
Einn besti vinur Plútós af hundaættum var Kormákur Korfi en eigendur hans eiga sumarbústað í Skorradal. Þegar Plútó fór þangað æstist hann mjög við að eiga von á að hitta vin sinn. Saman fóru þeir í könnunarferðir. En ef Korfi var einn á ferð átti hann það til að koma ekki þegar kallað var á hann. En ef Plútó var með í för og kallað var á hann komu þeir vinirnir á harða spretti.
Eitt hafði Korfi fram yfir Plútó. Hann var afburða veiðihundur og hugaður með afbrigðum og þar að auki vel ættaður. En Plútó var frekar huglaus en í staðinn hafði hann þeim mun hærra og fældi frá óborðna gesti.
Þegar Plútó fór fyrst um Hvalfjarðargöngin varð hann svo hræddur að hann klöngraðist yfir heilan bíl framhjá alls konar dóti og fram í til mín þar sem hann tróð sér undir fætur mér.
Einu sinni vorum við á ferð á göngustígnum við Ægissíðu. Það var svo dimmt að ég sá ekki stíginn sem lá upp að húsinu okkar. Allt í einu tek ég eftir því að Plútó flaðrar upp um mig og ýtir við hægri fæti. Hann var að segja mér á sinn hátt að nú væri ég farinn fram hjá stígnum heim að húsinu okkar. Stundum fórum við út að hjóla saman. Fyrir 10 árum fékk ég smá blóðtappa í höfuðið og missti jafnvægið að hluta. Þegar ég reyndi að hjóla náði ég fáum beygjum og var ekki orðinn góður fyrr en ég komst á beina braut. Í fyrsta hjólatúrnum eftir þetta var Plútó með í för. Hann hljóp fram fyrir hjólið og sá til þess að ég færi ekki of hratt.
Þegar Herdís vann að plötunni sinni sem kom út fyrir 11 árum og var með trúarlegum söngvum, lá Plútó við fætur húsmóður sinnar og hlustaði á hana semja tónlistina. Herdís hélt því fram að þess vegna væri hundurinn frelsaður.
Eitt er víst að Plútó var einn af þeim fáu hundum sem hafa farið í kirkju í seinni tíð og ekki orðið sér til skammar á nokkurn hátt. Nema þá að hann sofnaði uppi við altarið og skildi eftir sig dálítið af hundahárum.
Fyrstu árin var eitthvað um kvartanir vegna Plútó. Ég braut allar samþykktir um hunda og leyfði honum stundum að ganga lausum. Ég þurfti reyndar að beita hann hörðu í uppeldi af því að hann rak burtu alla óþarfa hvíta bíla en við áttum þá hvítan bíl. Þetta var eins og gömlu sveitahundarnir sem eltu alla bíla með látum. En hann vandist þessu. Og fólkið í Skerjafirðinum vandist honum Plútó og þótti mörgum vænt um hann. Þegar við vorum saman á göngu heilsuðu honum fleiri en mér.
þá kom það fyrir að erlendir ferðamenn mynduðu hann í bak og fyrir og buðu mér fé ef þeir fengju hann keyptan. En auðvitað selur maður ekki vini sína. Stundum var Plútó notaður í sálfræðimeðferð. Tvisvar fékk tengdasonur okkar sem er sálfræðingur hann lánaðan til þess að hjálpa fólki sem þjáðist af hundafælni. Viðkomandi var smurður í framan með smjöri og Plútó sleikti svo framan úr viðkomandi og var svo ljómandi blíður og góður að sjúklingarnir bráðnuðu fyrir honum.
Þegar ellin fór að sækja að honum gerðist hann gleyminn og tók upp á alls konar barnabrekum. Þar á meðal tók hann aftur upp á því að reka burt hvíta bíla og ketti sem hann þoldi ekki nálægt sér. Þá var hann svo vanafastur að ef hann fékk morgunostinn sinn fyrst hjá Herdísi en ekki mér ruglaðist allt kerfið og hann taldi sig þurfa meira en venjulega af morgunostinum.
Síðustu árin gerði hann mannamun á heimilinu. Hann elskaði og dýrkaði Herdísi öllum framar. Ef hún fór eitthvað án hans um lengri eða skemmri veg beið hann. Hann gegndi mér best og virti strákinn okkar sem í rauninni var eigandi hans. Eitt var ófrávíkjanleg regla í samskiptum þeirra á milli. Þegar piltur gaf hundinum að éta varð hann að bíða þangað til drengurinn sagði matur og þá fékk ekkert stöðvað hann.
Dóttur okkar og tengdason mat hann mikils enda þegar pilturinn fór á skeljarnar og bað stúlkunnar var hann vottur og grét með þeim báðum þegar hún dóttirin játaðist verðandi manni sínum. Þá sjaldan að mannfagnaðir voru haldnir í okkar húsakynnum var Plútó alltaf með og var hrókur alls fagnaðar. Hann gætti þess vandlega að verða hvorki á vegi mínum né annarra úr fjölskyldunni til þess að eiga það ekki á hættu að vera lokaður inni. Eigandi labradorsins Kormáks Korfa sem er forseti hins íslenzka lymgvinafélags kenndi Plútó að dansa. Var hann svo leikinn í þessari íþrótt að Tómas Tómasson bassaleikari Stuðmanna bauð Plútó sérstaklega í fimmtugsafmæli sitt. Plútó færði Tomma dansatriði í afmælisgjöf sem Birna Þórðadóttir veislustjóri kynnti af stakri snilld. Okkur Herdísi var ekki boðið en tekið fram að við mættum vera fylgdarmenn Plútós. Slík var elska þeirra sem honum kynntust á hundinum.
Við fjölskyldan fórum á stórskemmtilega humarhátíð á Hornafirði um síðustu helgi. Plútó var með og naut sín til sins ýtrasta. Hann var nokkuð ern eftir aldri en orðinn hægfara af gikt og heyrnin var mjög farin að daprast. Hann fékk vel að smakka á bæði humri, nauta og svínakjöti. Á mánudaginn var lögðum við af stað suður en höfðum þá flutt okkur í Skaftafell. Þá var Plútó orðinn eitthvað daufur og kastaði upp. Þegar heim kom virtist hann fárveikur. Fékkst ekki inn í hús og var úti í alla nótt.
Í morgun þegar við vitjuðum hans lá hann á pallinum fyrir framan stofudyrnar. Við bárum hann inn en hann leitaði aftur út. Við röltum morgunhringinn hans og komumst tæplega einn fjórða vegalengdarinnar. Þá fann hann uppáhalds staðinn sinn og gerði stykki sín þar. Síðan röltum við heim og hann lagðist fyir. Þá kom í ljós að Plútó hafði fengið heilablóðfall. Kl. 15:00 í dag kom dýralæknir heim að vitja hans. Við vorum öll hjá honum fjölskyldan og tvær bestu vinkonur hans sem höfðu stundum gætt hans. Umvafinn hlýju og ást allra kvaddi hann þennan heim blessaður. Hann dillaði rófunni lítið eitt fyrir mig og teygði fram hægri framfótinn svo að ég gæti klórað honum. Herdís var hjá honum þegar hann fór. Það er tómlegt núna án Plútós. En vonandi hleypur hann um og stríðir einni og einni kanínu og rekur í burtu ketti sem verða á vegi hans í himnaríki, blessaður karlinn.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband