Færsluflokkur: Menning og listir

Er ég ofurviðkvæmur eða hvað?

Í gær var ég svo ljón heppinn að fara upp að Korpúlfsstöðum, en þar voru myndlistarmenn með opnar vinnustofur sínar.
Við í hljómsveitinni Hugsjónafólkið eða The Vissionaries spiluðum á hlöðulofti Thors Jensens. Þar er himinhátt til lofts og vítt til veggja. Hljómburðurinn undursamlegur.
Margt hef ég heyrt um stórhug Thors, en þvílíkar byggingar sem eru þarna upp frá. Thor var á sinni tíð ekki réttur maður í pólitíkinni á stundum enda tókst bændaliðinu að koma í veg fyrir að áform hans um stórbúskap næðu fram að ganga á Korpúlfsstöðum.
En byggingarnar bera vott um þann stórhug sem þar var að baki.
Það komu ýmsir að hlusta á okkur og takk fyrir það. Þar á meðal einn maður sem ég á að kannast við en gleymi alltaf jafn óðum hver er.
Þegar Halldór Rafnar komst til áhrifa í Blindrafélaginu fyrir um fjórum áratugum hóf hann mikinn áróður fyri því að láta ekki blint eða sjóndapurt fólk geta upp á því hver viðmælandi þess væri, heldur lagði áherslu á að menn kynntu sig. Þannig er það meðal allra siðmenntaðra þjóða.
Flestir hafa tekið þessu vel, en einn og einn eins og þessi alls ekki óleiðinlegi maður virðist fá eitthvað út úr því að særa þá sem ekki þekkja viðmælendur á andlitum. Leitt fyrir eitt bæjarfélag og heilt landshorn að hafa svona mann.
En veðrirð var fagurt í gær, hljómburðurinn frábær og við í stuði.
Það er alveg ótrúleg gróska sem er í starfi myndlistarfólks á Korpúlfsstöðum og mannbætandi að leggja leið sína þangað.
Takk fyrir mig og takk fyrir að mæta á tónleika The Vissionaries.

Vinátta - endurútgáfa Ástarjátningar

Þessa dagana finnst mér ég vera í afar skemmtilegum verkefnum með gólðu fólki.
Á næsta ári eru liðin 25 ár frá því að hljómplatan mín Ástarjátning kom út. Því vaknaði sú hugmynd að endurgera plötuna og endurspila nokkur þeirra laga sem eru á upprunalegu hljómplötunni.
Eftir að við Herdís fluttum Hljóðvinnsluna ehf. í Ármúlann, stofnuðum síðan Hljóðbók.is hef ég kynnst mörgu skemmtilegu fólki á þessu svæði.
Einn daginn rakst ég á Hilmar Sverrisson tónlistarmann sem á m. a. Blómastofu Friðfinns við Suðurlandsbraut 10 ásamt frúinu sínu, henni Jenný.
. Ég spurði Hilmar hvort hann væri í aðstöðu til þess að vinna með mér að verkefni sem þá var á fullu. Þá kom í ljós að þessi Skagfirðingur er með eigið hljóðver fyrir ofan plönturnar í búðinni þeirra hjóna.
Það er svo sum ekki að orðlengja að með okkur hefur tekist afar gott samstarf.
Hilmar á það til að vera alls ekki með óleiðinlegri mönnum annað kastið en tónlistargáfan bætir upp óskemmtilegheitin.
Nú er ætlunin að hljómplatan Ástarjátning komi aftur út endurbætt og unnin í vor. Ýmsir hafa lagt hönd þar á plóginn og eiga allir bestu þakkir skildar fyrir. Þar að auki erum við finn vinir að undirbúa tónleika á Kafé Rosenberg sem verða haldnir 20. maí, en meira um það síðar.

Sumt er varðveitt óvart í fórum Ríkisútvarpsins einsog t. d. kvöldsagan

Áður en ég kem mér að efninu langar mig að þakka þeim sem hafa sett sig í samband við mig og leiðbeint mér með þessa síðu. Það slæðast af og til inn ritvillur. Ég reyni að leiðrétta þær eftir föngum og bið ykkur að virða viljann fyrir verkið.
Um nokkurra ára skeið hefur verið flutt kvöldsaga í Ríkisútvarpið að sumarlagi. Hér fyrrum voru fluttar margar sögur á dag.
það var morgunsaga barnanna, miðdegissaga þegar sól rís hæst, útvarpssagan var á kvöldin og svo var það kvöldsagan sem var á svipuðum tíma og núverandi kvöldsaga.
Núna er verið að flytja Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Einhverja sérstæðustu sakamálasögu sem mér finnst hafa verið samin á hérlenda tungu. Og það er höfundurinn sem les. Gunnar var ekkert sérstakur lesari að mínu mati en það gefur sögunni óneytanlega sérstakan blæ að heyra hann lesa.
Einn tæknimaður hjá útvarpinu sem sá m. a. um að hljóðrita þessa sögu sagði mér að Gunnar hefði lesið söguna beint og bannað hljóðritun. En þeir tæknimenn á útsendingarvaktinni stálust til þess að hljóðrita lestur höfundarins og björguðu þannig menningarverðmætum. Tæknimenn voru kallaðir á þeim dögum magnaraverðir.
Þegar lestur útvarpssagna ber á góma í mín eyru minnast fjölmargir á þýðingu Helga Hjörvars og lestur hans á Bör Börson eftir Johan Falkberget. Lestur Helga þótti svo mikil snilld að götur tæmdust, fundum var frestað, beðið var með bíósýningar og kýrnar héldu í sér á meðan bændur og búalið hlustuðu á Helga. Því miður hefur sá lestur ekki varðveist en í óskalagaþætti Sjómanna frá árinu 1955 las Helgi brot úr sögunni um Bör og sú hljóðritun er til.
Fyrir 30 árum hljóðritaði ég söguna fyrir forvera Blindrabókasafnsins, en þá unnu Borgarbókasafn Reykjavíkur og Blindrafélagið sameiginlega að hljóðbókaútgáfu til útláns. Borgin stóð aðallega undir öllum kostnaði en Blindrafélagið lagði til hljóðverin og starfsmann. Þá las Kristinn Gíslason fyrrum kennari, bróðir Hjálmars Gíslasonar sem var þekktur skemmtikraftur og vann hjá skattinum söguna um Bör. Kristinn náði þessari makalausu hæðni sem er í bókinni að hrein unun var á að hlusta.
Svo var það fyrir 17 árum að ég hljóðritaði lestur Péturs Péturssonar á fyrrihluta bókarinnar um Bör. Rolf Johannsen kostaði upptökuna fyrir Aðalstöðina, en flutningur á lestri Péturs var bannaður.
Í fyrra stóð til að gefa út lestur valinkunns leikara á Bör. En því miður fékkst ekki leyfi til þess.
Því miður hafa margir útvarpslestrar farið í glatkistuna.
Mér er minnisstæður lestur Lárusar Pálssonar leikara á heljarslóðarorustu eftir Benedikt Gröndal sem er afskaplega fyndin og skemmtileg stríðsádeila. Lestur Lárusar sem fluttur var árið 1967 ef ég man rétt var þvílík snilld að það hálfa hefði verið nóg. Það er hugsanlegt að lesturinn sé til á gömlu segulbandi sem við Arnþór bróðir minn áttum en er nú í fórum Ríkisútvarpsins.
Ein af þeim perlum sem lesin hefur verið í útvarpið er Góði dátinn Svejk. Gísli Halldórsson las bókina af svo mikilli innlifun og snilld að fólk þreytist aldrei á að hlusta á hann aftur og aftur. Sem betur fer tókst að koma í veg fyrir að sá lestur yrði eyðilagður.
Reyndar las Gísli sögu eftir Gunnar Gunnarsson líklega í byrjun áttunda áratugarins sem heitir Vikivaki og byggir á þjóðtrú landsmanna um líf eftir dauðann. Ef sá lestur er til hjá útvarpinu mætti gjarnan endurtaka hann. En afrit er til hjá Blindrabókasafninu.
Annars hefur Ríkisútvarpinu verið legið á hálsi fyrir að eyða mörgu efni sem flutt hefur verið. Hér hefur líklega fyrrum ríkt það viðhorf að endurnýta segulböndin af því að fjármagnsskortur háði útvarpinu og sennilegaa hefur starfsmönnum verið uppálagt að spara að ósekju, en svo var smekkur sumra þannig að þeir geymdu aðeins það sem þeim þótti gott. Vonandi verður breyting á þessum viðhorfum eftir því sem tækni við geymslu fleygir fram. Fyrir nokkru heyrði ég viðtal við samlanda minn Pál Magnússon útvarpsstjóra. Hann sagði frá þeim draumi sínum um að gera allt efni segulbandasafn Ríkisútvarpsins aðgengilegt almenningi, bæði hljóð og myndefni. Þá mun renna upp gósentíð fyrir okkur grúskara, sem gætum þá valið úr þeim dýrmætu perlum sem í fórum Ríkisútvarpsins leynast.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband