Tókst fyrrum formanni bankaráðs Landsbankans að forða sér frá falli? Hvar er þjóðstjórnin?

Ég hef eitthvað fylgst með stjórnmálaumræðu liðinna vikna og finnst ég hafi minna og minna vit á því sem er að gerast. Ég skil ekkert hvað snýr norður eða niður. . Mér líður þannig að helst langar mig að stinga höfðinu undir sæng og leggjast undir feld fram til vors. En það lagar svo sum ekkert. Davíð virðist hafa einstakt lag á að hleypa mönnum upp. Ræðan hjá honum í morgun var vel flutt en Davíð þreytulegur óvenju þótti mér. Það var athyglisvert að hann leyfði fjölmiðlamönnum engar spurningar enda er það ekki hanns háttur. Hann virðist of upptekinn af því að halda sjálfum sér á þeim stalli sem honum þykir best að hreykja sér á.
Og nú er sannleikurinn um fjármálavafstrið og samtrygginguna að renna upp fyrir fólki og reiðin magnast og magnast. Þannig gæti orðið algjör múgæsing sem breyttist í alls herjar glundroða og byltingu sem fáir fengju rönd við reist. Því væri eina ráðið að mynda þjóðstjórn, rjúfa þing og efna til kosninga. Fá völdin í hendur mönnum sem eru utan pólitískrar undirokunar og hafa þekkingu á málum. En því miður skortir forseta lýðveldisins þor til slíks, enda hefur hann sleikt rjómann af útrásinni einsog vera ber. Hann er hafður að háði og spotti og tilefni aðhláturs sérstaklega á laugardagskvöldum. Skyldi nokkrum hafa dottið í hug að hæðast að fyrri forsetum vorum?
Þegar bankarnir féllu töpuðu sumir miklu, aðrir litlu. Sögur hafa gengið um að ýmsir hafi náð að forða fjármunum sínum. Öðrum tókst það ekki og sitja eftir með sárt ennið. Vinur minn sem tapaði öllu sagðist hafa tvær hendur og þær yrðu að duga sér þangað til annað kæmi í ljós.
Nú gengur sú saga fjöllunum hærra að Kjartan Gunnarsson sem var bankaráðsmaður í Landsbankanum og átti umtalsverðan hlut í bankanum eina 12 milljarða í hlutabréfum hafi getað forðað miklu af fé sínu. Sagt er að hann hafi fengið einn stjórnanda hjá Byr sparisjóði til þess að kaupa bréfin sín og hafi sá sparisjóðsstjórnandi fengið lán til þess hjá Landsbankanum. Jafn framt fylgir sögunni að Byr hafi lánað Jóni Ásgeiri fyrir hlutnum sem hann keypti í 365 miðlum.
Ég vona Kjartans vegna og Jóns Ásgeirs að þessi saga sé ekki sönn.
Ég vona einnig að þetta ásamt öllu öðru varðandi stóra slysið verði rannsakað.
Og ég vona svo sannarlega að Geir Haaarde sjái sinn vitjunartíma og haldi frekar áfram að syngja inn á hljómdiska með ómþýðri rödd sinni. Hann virðist of flæktur í allt sukkið til þess að geta setið á þeim stóli þar sem hann er nú. Hann er of grandvaralaus og góður í sér til þess að geta tekið á nokkrum manni.
Ég vona svo sannarlega að fólk fari á netið á www.kjosa.is og skrái nafn sitt á lista þar sem farið er fram á kosningar.
Ég vona svo sannarlega að forseti lýðveldisins hafi bein í nefinu til þess að stuðla að þingrofi og koma á þjóðstjórn.
En líklega hefur hann og við öll hin það of gott til þess að nokkuð gerist. Þannig fljótum við á meðan ekki sekkur. Og Davíð hættir sem formaður bankastjórnar seðlabankans og býður sig fram sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins.
Og samfylkingin engist nú í stjórnarsamstarfinu við íhaldið og þorir eða vill ekki slíta því af því að þeir hafa það svo gott.
En sólin fer senn að hækka á lofti og þá gæti landslagið hér stjórnmálalegt litið allt öðru vísi út en það gerir nú.

Norsk-íslenskt konungsríki og ofurlaun viðreisnarbankastjóra

Mig rámar í að fólk hér á landi hafi stundum fjargviðrast út í laun æðstu embættismanna ríkisins, ráðherra og alþingismenn. Þegar bankastjórar og formenn bankaráða fóru að skammta sér ofurlaun fyrir 4 til 5 árum þá fyrst ofbauð öllum.
Nú hefur þróunin orðið sú að bankastjórar viðreistu bankanna eru með brot af þeim launum sem strákarnir sem áður voru í bönkunum skömmtuðu sér vegna þeirra miklu ábyrgðar sem þeir báru en bera nú enga ábyrgð á.
Samt eru nýju viðreisnarbankastjórarnir á hærri launum en ráðherrar ríkisstjórnar lands vors og Guðs.
Þegar ég var formaður í Blindrafélaginu fyrir 5 árum gilti þar sú regla að enginn starfsmaður skyldi vera á hærri launum en framkvæmdastjóri eða formaður félagsins. Þessi regla er víða tíðkuð.
Hvernig stendur þá á því að ráðherrar landsins eru ekki með hæstu launin í ríkiskerfinu?
Ég hef stundum talað um að því er mér finnst ágæta framgöngu Geirs Haarde í málefnum okkar. En Ef Geir er með svona lág laun, hefur hann þá efni á að snupra og gera lítið úr sumum samráðherrum sínum sérstaklega ef þeir eru í Samfylkingunni? Getur Geir ekki snuprað félaga Davíð af því að þeir eru á svipuðum launum eða eru þeir of miklir vinir til þess?
Ætli sjóði ekki upp úr ef laun bankastjóranna verði ekki lækkuð. Þá þyrftu hugsanlega fleiri ríkisforstjórar að fylgja á eftir af því að nú er dýrt að vera Íslendingur, og vonandi fínt.
Nú hefur A.S.Í. samþykkt að stefnt skuli að inngöngu í Evrópusambandið. En á næsta ári eru merk tímamót.
Þá eru liðin 747 ár síðan Norðmenn föluðust eftir Grímsey til eignar. Skyldið landið ekki vera betur komið í norska ríkjasambandinu en Evrópusambandinu. Við hefðum sama kóng og Norðmenn, fengjum að halda tungu okkar samkvæmt norskum lögum og fengjum líklega að vera í friði með menningu okkar en þyrftum að lúta stjórn viturra aðhaldssamra Norðmanna á ýmsum sviðum.

Gamlar syndir. Ný hljóðbók

Fyrir nokkru hljóðritaði ég bók Flosa Ólafssonar sem kom út fyrir síðustu jól og Skrudda gaf út. Þetta er bókin gamlar syndir og Flosi les bókina sjálfur og fer á kostum. Nú er ég að vinna í því að klippa lestur Flosa. Læt hér fylgja kaflann um Union Camenbert sem fjallar um þörf karlmanna til þess að vera í alls kyns leynifélögum. Hljóðbókin mun koma út innan skamms.
www.hljodbok.is

Stefán Jónsson Stórval frá Möðrudal aldarminning

Á þessu ári er liðin öld frá fæðingu Stefáns Jónssonar Stórvals frá Möðrudal. Þegar ég flutti til Reykjavíkur var ég svo heppinn að kynnast ýmsum mönnum sem taldir voru dulítið skrýtnir eða réttara sagt nokkuð á skjön við það samfélag sem við lifum í. Má þar nefna Ljón norðursins, Pétur Hoffman Salómonsson og svo Stefán Jónsson frá Möðrudal. Ég hafði heyrt sögur um Stefán og kenningar um að hann færi ekki alveg alfaraleiðir í mannlegum samskiptum. Palli Steingríms kvikmyndagerðarmaður sagði okkur í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum frá því að eitt sinn hefði Stefán haldið málverkasýningu á Lækjartorgi. Sumar myndanna voru af hrossum sem voru að eðla sig og einhverjir kölluðu sýninguna eða eina myndina þar vorleik. Sýningin var bönnuð og tekin niður.
Einu sinni sótti Stefán um vinnu hjá Slippfélaginu í Reykjavík. Ætlaði að mála þar báta og skip. Hann átti að mæta snemma á morgnana, en tímaskyn Stefáns var líklega háttað einsog hjá indjánum. Hann mætti þegar hann gat og þurfti. Þegar Stefán kom eitt sinn sem oftar til vinnu kl. rúmlega hálf ellefu fyrir hádegi mætir verkstjórinn þungur á brún og rekur hann. Stefáni ku hafa sárnað mjög. Fór heim til sín og málaði mynd af verkstjóranum með sleggju reidda til höggs. Sjálfan sig málaði hann sem peð. Þegar Stefán horfði á myndina fannst honum að hún sé ekki alveg nógu góð. Breytir sleggjunni í stóran blómvönd. Og Stefán fullklárar myndina af verkstjóranum þar sem hann reiðir blómvöndinn til höggs og ætlar að berja peðið, lallar sér inn í Slipp og færir honum myndina.
Stefáni fannst alltaf að maður ætti að launa illt með góðu.
Þegar ég bjó á Fornhaga 11 í Reykjavík var á horni Suðurgötu og Hjarðarhaga sjoppa sem mig minnir að hafi verið kölluð Simma-eða Símonarsjoppa. Fremst var biðskýli og þar fyrir innan lúga þar sem viðskiptavinir fengu afgreiðslu. Við tveir félagar skruppum einu sinni að sumarlagi í sjoppuna við Suðurgötu að fá okkur eitthvað nammi, líklega kók og prins póló. Þar sem ég stend við afgreiðslugatið og bið stelpuna um það sem mig vanhagar um heyri ég að dyrnar opnast að baki mér. Afgreiðslustúlkan hörfar afturábak fórnar höndum og rekur upp öskur.
Þegar ég sný mér við þá er hálfur hestur kominn inn í sjoppuna og maður á baki. Ég vissi einsog skot hver var þarna á ferðinni. Stefán frá Möðrudal ríðandi á honum Snjalla sínum. Ég spyr hvað í ósköpunum hann sé að gera þarna inni á hestbaki. Stefán svarar og var nokkuð skrækróma af því að honum var mikið niðri fyrir:
"Þetta er hann Snjalli minn. Lögreglan er á eftir honum. Geturðu sagt mér hvar Hljómskálagarðurinn er? Ég ætla að fela hann þar á milli trjánna".
Ég segi Stefáni það og hann bakkar út úr sjoppunni á hestinum og ríður yfir Suðurgötuna og stefnir beint niður brekkuna hjá prófessorsbústöðunum. Ég kalla á eftir honum og spyr hvort hann ætli að ríða niður brekkuna. Stórval var þá mjög skrækur og svarar:
"Já já já já. Hann Snjalli minn er alvanur að ríða í klettum og klungri. Við félagarnir svíkjum ekki hvor annan".
Svo hurfu þeir félagarnir að prófesssorsbústöðunum í áttina að Hljómskálagarðinum en við vinirnir oftast á tveimur fótum héldum áfram að kaupa kókið og prins pólóið. Nú er búið að rífa þessa sjoppu og vel væri þess virði að reisa Stefáni Stórval minnisvarða þar sem hún stóð, en þar hefur ekki verið byggt enn.
Á þessum árum skömmu eftir 1970 og alveg fram undir 1980 tókum við okkur nokkrir til og fórum á milli sjúkrastofnana í Reykjavík og skemmtum fólki sem þar var. Stundum spiluðum við og sungum og stundum stóðum við fyrir bingói svo að eitthvað sé nefnt. Meðal þeirra sem tóku þátt í þessu voru Arnþór tvíburabróðir minn, Gunnar Kr. Guðmundsson harmónikuleikari og fyrrum símvörður hjá Sambandinu, Hannes Helgason trésmiður sem sá um bingó og Dagur Brynjúlfsson sem var afbraðs upplesari. Þá tóku þeir Árni Johnsen, Hjalti Jón Sveinsson og fleiri þátt í þessu. Oftar en ekki var Stefán frá Möðrudal í för, sagði sögur og var með harmónikuna en spilaði lítið, átti erfitt með að hitta á réttar nótur. En hann sagði sögur og raulaði gjarnan með okkur Árna Johnsen.
Ég tók eftir því einu sinni þegar við vorum á Hvítabandinusem var þá deild út frá geðdeild Borgarspítalans að einn sjúklingurinn, kona tók að hlæja í byrjun skemmtanar okkar. Og við færðumst auðvitað allir í aukana af því að okkur þótti svo gaman hvað við vorum skemmtilegir. Svo að skemmtan lokinni kvöddum við og fórum alsælir okkar leið.
Daginn eftir hringir hjúkrunarfræðingur frá Hvítabandinu og þakkar fyrir síðast og spyr hvort við ætlum nokkuð að koma aftur. Ég kvað það alveg sjálfsagt. Hjúkrunarfræðingurinnn bað mig sem lengstra orða að koma ekki aftur með félögum mínum. Hún sagði að ein konan hefði fengið hláturskrampa og það hafi orðið að sprauta hana niður þegar við vorum horfnir á braut. Eftir að við vöndum komur okkar af Hvítabandinu jukust batahorfur sjúklinga þar til muna.
Á þeim árum fór diskóið að verða allsráðandi. Ýmsir reyndu að sporna við því og stóðu fyrir uppákomum hér og þar, t. d. á Nýja kökuhúsinu við Austurvöll. Einu sinni var auglýst á sumarkvöldi að tveir trúbadorar, Alli og Örn myndu syngja og spila þar. Þetta hefur líklega verið í júlí 1977 á fimmtudegi og sjónvarpið í sumarfríi. Við tveir vinir brugðum okkur í bæinn og niður á Nýja kökuhús til þess að hlusta á þá Alla og Örn. Örn mætti ekki en Alli, sem reyndist vera Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson skáld og fyrrum formaður Rithöfundasambands Íslands kvað við raust eins og hans var vandi með sínum hætti.
Þá kemur til mín maður og heilsar mér alúðlega og kynnir sig. Það urðu fagnaðarkveðjur. Þar var þá kominn Stórval frá Möðrudal og hann sest hjá okkur félögum og fer að hlusta með okkur. Stefán vildi ekkert þiggja en naut þess að hlusta og sagði eina og eina sögu.
Allt í einu kemur maður stormandi eftir gólfinu, skellir mjólkurfernu á borðið og hreytir út úr sér:
"Geymdu þetta".
Stefán svaraði alúðlega, tók mjólkurfernuna og stakk í bekkinn hjá okkur. Svo segir hann hikandi og var mjög djúpraddaður:
"yrirgefðu. Fyrirgefðu. Hérna - sko æi, Þetta er nefnilega vinur minn. Þeir kalla hannn ljón norðursins. Hann heitir Leó. Leó Árnason. Leó Anton Árnason". Og þá var falsettan farin að gera vart við sig. Og svo segir hann í trúnaðarhárómi:
"Hann er svolítið klikkaður".
Ég kannaðist við Ljónið. Það hafði keypt bát af föður mínum og ef ég man rétt var Hildingur gerður út frá Selfossi.
Við Stefán frá Möðrudal og fleiri héldum áfram að skemmta á sjúkrahúsum borgarinnar í nokkur ár og vorum alltaf hjartanlega velkomnir sérstaklega á Grensásdeildina, enda fór ég þar í endurhæfingu nokkrum árum síðar.
Einu sinni þegar Stefán var í stuði á Grensás fórum við fram í eldhús að drekka kaffi í hléi. Þá segir Stefán, þegar við fengm kaffi og brauð,
"miekið er þetta gullfalleg stúlka og gott brauð. Þegar ég rak smurbrauðsstofu á Egilsstöðum með nokkrum öðrum, var engin svona falleg stúlka að smyrja fyerir okkur. Og einu sinni var svo miekið að gera að ég smurði rúmlega hundrað brauðsneiðar á einni klukkustund. Og hnífurinn hitnaði svo að það kviknaði í öllu draslinu". Og Stefán dillaði se´r af kátínu.
Mér er sagt að Þorvaldur í Síld og fisk hafi meðal annarra verið í þessum smurbrauðsstofurekstri með Stefáni og fleirum.
Nokkrum árum áður en þetta sem ég var að segja frá gerðist höfðum við móðir mín farið saman á Mokka að fá okkur kaffi og þá lentum við á málverkasýningu hjá Stefáni. Þá vék Stefán sér að mér og það var í fyrsta sinn sem við hittumst. Hann heilsaði mér og spurði hvort ég vildi ekki skoða myndirnar sínar. Ég sagði sem var að ég nyti þeirra ekki mjög af því að mig vantaði þrívíddina. Hann varð hugsi og sagði að það gerði ekkert til af því að menn skynjuðu myndirnar sínar svo misjafnlega. Svo væri það nú einu sinni þannig að menn væru ekki allir eins. Þannig væri það t. d. með kindurnar. Þær væru eins ólíkar og mennirnir. Eftir það urðum við vinir og hann gerði aldrei tilraun til þess að fá mig til að skoða myndir, tók mér eins og ég var.
Það hefur líklega verið skömmu eftir árið 1980. Þá vorum við Guðmundur Árnason vinur minn og síðar sóknarnefndarformaður á Akureyri að skipuleggja ferð til Svíþjóðar til þess að taka upp hljómplötu sem aldrei var gefin út. Við vorum á einhverju flandri á aðfangadag jóla og skruppum meðal annars út á Granda að fá okkur eitthvað í Kaffivagninum. Þegar við gengum þaðan kom Stefán frá Möðrudal í flasið á okkur og heilsaði okkur með virktum. Virtist jafn glöggur á menn og á fé.
Ég spurði hann eftir nokkurt spjall hvar hann myndi verða þá um kvöldið aðfangadags. Þá svaraði hann:
"Ég skal segja þér það góði að ég fer nefnilega alltaf niður á Her í jólaboðið hjá þeim góðu konunum í Vernd. Það er svo góður matur þar og svo spila ég fyrir þessa blessuðu einstæðinga sem þangað koma".
Þessi orð greyptust inn í mig og ég fékk kökk í hálsinn því að jólin voru mér svo erfiður tími á þeim árum.
Eftir því sem á ævina leið hittumst við Stefán sjaldnar. En alltaf urðu fagnaðarfundir. Honum fór að ganga vel í listinni og varð með tímanum viðurkenndur. Hann mokseldi stundum myndir og var annað kastið í vandræðum með peningana sína. Einu sinni sagði hann mér að í peningavandræðunum hafði hann gengið inn í Íslandsbanka við Lækjargötu, hitt svo fallega konu á bak við afgreiðsluborð að hann afhenti henni peningana og gerði sér alltaf ferð eftir það til hennar með fjármuni sína af því að honum fannst hún svo góð og falleg. Sú góða kona var stálheiðarleg, opnaði bankareikning í nafni Stórvals og ávaxtaði féð svo vel að hann gat keypt sér hús þar sem hann fékk nokkurn veginn að vera hann sjálfur í friði fyrir öðrum.
Þegar við Herdís mín vorum eitt sinn í bíl á leið niður Hallveigarstíg þá mætum við Stefáni. Ég renni niður rúðunni og heilsa. Þá segir Stórval:
"Heyrðuö" og bæði falsettan og flámælið var ráðandi.
";Ég er með svo miekið af peningum að ég veit ekkert hvað ég á að gera vieð þá. Geturðu sagt mér hvar ég finn opinn banka. Ég er búinn að selja svo miekið af myndum".
Við Herdís sögðum honum að nú væri sunnudagur og allir bankar lokaðir. Hann yrði að bíða til morguns. Vafalaust hefur Stefán farið í Íslandsbankann til vinkonu sinnar með fjármunina.
Einn tryggasti vinur Stefáns til margra ára var Sigmar Ó. Maríusson gullsmiður sem lengi hafði verkstæði á Hverfisgötunni, skáhallt á móti Þjóðleikhúsinu. Nú er morgunverðarstaðurinn Grái kötturinn þar. Stefán kom oft á dag til Sigmars sem naut þess að spjalla við hann. Sigmar gaf fyrir nokkrum árum út í örfáum eintökum geisladisk með sögum af Stefáni.
Einu sinni á ári hafði Sigmar það fyrir reglu að bjóða Stefáni til hátíðarverðar, á nýársdag. Þegar þeir höfðu etið og drukkið tilkynnti Sigmar Stórvali að nú færu þeir saman í bað. Stórval kvað það hinn mesta óþarfa og harðneitaði að fara í bað. Það skarst í odda með þeim vinunum og Sigmar brýndi raustina og tilkynnti Stórvali að hann hefði leyfi til þess að setja hann í bað samkvæmt lögum um böðun búfjár frá árinu 1903. Og það líkaði Stefáni og fór eftir það alltaf í bað á nýársdag, samkvæmt lögum um böðun búfjár frá árinu 1903.
Síðast þegar ég hitti Stefán frá Möðrudal var kominn vetur og fremur hráslagalegt og dimmt úti. Ég fór í tóbaksbúðina Björk í Bankastræti að kaupa mér í nefið. Þar stóð Stefán með kaskeitið sitt og heilsaði mér. Það lá illa á honum og það var auðfinnanlega dulítið síðan að hann hafði farið í heimsókn til vinar síns í bað. Ég spurði Stefán hvað amaði að. Og hann var lágmæltur og hnugginn í falsettunni sinni:
"Æi, þeir eru búnir að segja mér að ég verði að tæma geymslurnar sem ég hef uppi á Korpúlfsstöðum. Þeir eru búnir að lána þær einhverjum strák sem myndi ekki einu sinni gegna hundsnafni á Hólsfjöllum". Og svo hækkaði hann róminn: "Þeir kalla hann Erró".
Við Stefán hittumst ekki oftar. Nokkrum mánuðum síðar var hann allur. Mér er hann ógleymanlegur sérstaklega fyrir þá mannlegu hlýju sem hann átti til. Hann gerði öllum jafnt undir höfði og tók mönnum eins og þeir voru. Slíkt er mikill mannkostur.
Mér var sagt að Stefán hafi fengið að slá grasbletti borgarinnar og sást hann stundum hirða graseyjar hér og þar um borgina. Einu sinni fékk hann leyfi til þess að geyma heyið í garðinum hjá Flosa Ólafssyni og Lilju frú hans þar sem þau bjuggu á horni Skothúsvegar og Tjarnargötu. Lilja sagði mér að einu sinni hefði heysátan verið svo stór að nágrannar kvörtuðu og Stefán varð að finna sér meira geymslupláss. Þegar hann var við heyvinnuna raulaði hann oft vísukorn. Það fylgir hér með frásögn þessari í hljóðskrá.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Er afnám bindiskyldu bankanna hluti fjármálavandans

Í gær hitti ég mann sem kennir m. a. hagfræði í einum skóla borgarinnar. Fjármálavandinn er einsog gosið á Heimaey fér forðum. Nú ræða allir um fjármálaóveðrið.
Þessi ágæti maður ásamt fleirum hafa sagt að bindiskylda bankanna hafi verið ákveðið stjórntæki sem hægt var að beita og átti að koma m. a. í veg fyrir að illa færi ef eitthvað kæmi upp á.
Eitt sem barst í tal var að Davíð Oddsson seðlabankastjóri afnam bindiskyldu bankanna samkvæmt kröfum þeirra þegar útrásin hófst. . Bindiskyldan fólst í því að af tekjum bankanna voru 10% bundin í sjóð hjá seðlabankanum. Þessi bindiskylda var afnumin eftir beinkavæðingu bankanna.
Er hugsanlegt að þarna sé að leita hluta vandans sem nú er glýmt við?
Mér fannst Geir Haarde vera þreytulegur í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Hann sér fyrir sér himinháan stafla af skuldum sem aukast og aukast. Hann er ekki öfundsverður af aðstöðu sinni einsog við hin sem höfum týnt einhverjum fjármunum í óveðrinu.
Allt þetta minnir óneytanlega á ævintýri H. C. Andersens sem fjallaði um mann sem vildi eignast gull. Hann varð bilaður af öllu gullinu sem reyndist svo vera sölnuð trjálauf ef ég man rétt.
Geir sér nú fall frjálshyggjunnar svo að um munar.
Í dag héldum við frú mitt upp á 23 ára brúðkaupsafmæli okkar.
Frúið eldaði dýrindis grænmetisböku og hafði með grískt sallat.
Og nú styttist enn í að daginn hætti að styttast.

Norska leiðin út úr banka og fjármálavandanum

Ég held áfram að vitna í fréttamenn Ríkisútvarpsins.
Fyrir nokkrum árum stóðu Norðmenn frammi fyrir svipuðum vandamálum og nú eru hér á Fróni hvað banka og fjármálakerfið varðar. Málin voru leyst með handafli einsog Gísli Kristjánsson segir frá á Morgunvaktinni í gær 8. október. Ég set hljóðskrá hér með af því að mér finnst pistill Gísla lærdómsríkur.
Og nú hefur það gerst sem allir vonuðu að ekki myndi gerast.
Skyldi Bör Börsson hafa gengið aftur hér á landi?
Hvernig skyldu þeir, Börarnir fara að núna?
Bestu kveðjur og enn styttist í að sól fari að hækka á lofti.

Útrásin virðist ætla að skila okkur lakari lífskjörum

Undan farið hef Ég vitnað í menn sem hafa varað við þeirri ofsalegu þenslu sem orðið hefur á undanförnum árum.
Aftur ætla ég að vitna í Vilhjálm Bjarnason framkvæmdastjóra Félags fjárfesta. En þann 18. september lýsti hann á mjög greinargóðan hátt miklu sameiningarferli gamalgróinna fyrirtækja svo sem Flugleiða, Eimskipa og fleiri fyrirtækja í tímamótaviðtali við Gunnar Gunnarsson rithöfund og fréttamann hjá Ríkisútvarpinu. Viðtalið er hér í hljóðskrá úr Spegli Ríkisútvarpsins frá 18. september.
Og nú er einum degi styttra í að sólin fari að ´hækka á lofti.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þjóðin veit hverjir eru ábirgir fyrir fjármálaósköpunum!

Ég játa að Geir Haarde forsætisráðherra á virðingu mína alla fyrir það hvernig hann tilkynnti okkur um það mammonsóveður sem nú dynur á. Í dag hefur umræðuefnið vart verið annað en þetta óveður. En fólk spyr: Hver séu laun þessara hálaunuðu bankamanna sem hæst trjóna í launaskalanum? Margir hrylltu sig þegar Sigurður Einarsson starfandi stjórnarformaður Kaupþings mætti í kastljósi Sjónvarpsins til þess að gefa einhverl "landsföðurleg" ráð. Það dylst engum að Sigurður hefur staðið sig mjög vel með Kaupþing. En réttlætir það um þrítugföld laun hanns á við þokkalega launað fólk? Lækka launin hjá honum og öðrum ofurlaunumgum? Af hverju varpa fjölmiðlar þessa lands ekki ljósi á ofurlaun þessara manna? Af hverju eru þeir látnir halda áfram störfum sínum og ofurlaunum? Ef hækka ætti einhvern í launum, ætti þá ekki að fimmtugfalda laun ríkisstjórnarinnar vegna þess mikla álags sem öllu þessu fylgir? Í tónlistarbransanum tíðkast það stundum að hljómsveitarstjórar hafi tvö föld laun á við hina í hljómsveitinni. Geir Haarde er góður söngvari og ætti þau vafalaust skilið. Spyr sá sem ekki veit, enda kannski fjármálabjáni. Ég sagði frá viðtali við Vilhjálm Árnason framkvæmdastjóra Félags fjárfesta í norska sjónvarpinu í gær. Nú rétt áðan í Speglinum var viðtal við jhann ásamt Jóni þórissyni hjá VBS-fjárfestingabankanum. Ég læt hljóðskrá fylgja með þessum pistli. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða vonandi til þess að sökudólgar muni dregnir fyrir dóm. Það er álíka fáránlegt að gera það ekki einsog ef einhver dræpi mann þá yrði sagt að ekki skuli horfa aftur heldur til framtíðar. En það fer senn að birta, sólin hækkar á lofti eftir rúma tvo mánuði.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Efnahagsóveðrið hér er vegna græðgi fárra einstaklinga í íslenska fjármálakerfinu

Í dag var í norska sjónvarpinu birt viðtal við Vilhjálm Bjarnason sem er einhver fróðasti maður um íslenskt fjármálalíf.
Hann hélt því blákalt fram að allur glundroðinn sé vegna græðgi 20 til 30 manns í íslenska bankakerfinu.
Vilhjálmur er m. a. formaður félags fjárfesta ef ég man rétt. Hann útskýrði fyrir nokkrum dögum mjög vel í Spegli Ríkisútvarpsins hvernig þetta hefði allt saman undið upp á sig. Hver átti hvað, hver eignaðist það síðar og seldi og svo allar sameiningarnar og svo framvegis. Vafalaust má finna þennan spegil á vef Ríkisútvarpsins.
Nú þegar þetta er skrifað er verið að ræða neyðarlög á Alþingi þar sem rætt er um m. a. að ríkissjóðir yfirtaki þá banka sem fari í þrot. VErða þessir fjárgræðgismenn látnir sæta ábirgð gerða sinna?
Nú hefur sumum þeirra tekist að forða fjármunum sínum t. d. til Noregs. Eru þeir hultir þar?
Hvað verður gert til þess að koma böndum á þessa menn sem sumir hafa skapað sér árslaun fleiri hundruða fólks?
Það sem athyglisverðast er í öllu þessu að einkavæðingarstefnan hefur borið algjört skipbrot.
Nú er að taka á.

Er Davíð orðinn blóraböggull?

Mér varð illa kalt í morgun þar sem ég dormaði undir sænginni minni og hlustaði á fréttirnar. Landið kuð líklega verða olíulaust ef ekkertverður að gert. Nú er hamast á Davíð. Getur hugsast að menn noti hann sem blóraböggul vegna efnahagsástandsins eða er Davíð að fá í hausinn allt ráðríki sitt og það sem einhverjir kalla frekju eða ofríki? Eru sumir svona reiðir af því að þeir hafa misst megnið af kvótapeningunum sem þeir lögðu í Glitni en eru í raun sameign þjóðarinnar? Allt frá því að ég hitti Geir forsætisráðherra fyrst hefur hann virkað á mig sem ljúfmenni og í ljós hefur komið að fátt virðist hagga honum hvað jafnaðargeðið varðar. En hefur svona mjúkur maður einsog Geir kraft og þor til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þarf? Skyldu of margir vinir hans vera í æðstu stöðum svo að erfitt sé fyrir hann að hrófla við þeim? Hefur dýralæknirinn fjármálaráðherrann þekkingu til þess að ryðjast fram á völlinn og skera upp fjármálakerfið? Eru hagsmunatengslin slík að enginn þorir að segja neitt til þess að eiga það á hættu að styggja einhvern eða særa annan því að allt eru þetta vinir í sterku hagsmunabandalagi? Hver þorir að reka Davíð? Eða er þörf á að reka hann? Og hver þorir að gera hvað? Mun Samfylkingin líða fyrir það að vera svona fylgispök í haldinu? Af hverju er ekki skorið upp í Glitni eign okkar allra síðan á mánudag og t. d. starfssamningar ofurlaunamanna gerðir ógildir? Og hvað með hina bankana? Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjórar eru láglaunamenn í samanburði við þá sem hafa skammtað sér eða verið skammtað ofurfjármagn fyrir það eitt að mæta og stunda störf sín.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband