27.7.2009 | 23:53
Vera mátt góður. - Kristilegur bannaður útvarpsþáttur
Ég hef stöku sinnum unnið fyrir þessa ágætu stöð Lindina. Gerði þætti frá Kotmóti hvítasunnumanna 2007.
Í framhaldi af því langaði mig að gera þátt með kristilegri tónlist og breikka tónlistarsvið Lindarinnar sem mér finnst frekar einhæft.
Þáttinn gerði ég og lá hann í salti þar um nokkurt skeið.
Svo fór að honum var hafnað af ´því að þau lög og ljóð sem ég valdi féllu ekki alveg í kristilega kramið.
Þessi höfnun hafði mikil og djúp áhrif á mig.
Ég gerðist verklítill og latur. Lagðist í drykkjuskap og þunglyndi og endaði á börum borgarinnar og loks í meðferð á Vogi.
Mér hefur gengið nokkuð vel að hanga þurr. En svo lést náinn vinur minn Plútó og þá helltist yfir mig sekt og sorg.
Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að iðrast þess að gera svona kristilegan þátt sem félli ekki í kramið eða hvort ég ætti að fyrirgefa þeim af því að þau vissu ekki hvað þau gjörðu með að hafna þættinum mínum sem mér finnst svo góður.
Ég fór að fá mér einn og einn bjór.
Eftir því sem bjórarnir urðu fleiri því meir sökk ég í sjálfsásökun og ákvað svo loks að binda enda á þetta allt saman.
En svo sá ég ljósið og fann hvað best væri að gera. Fara á fundi og hætta þessu bjórþambi enda kreppa og efnahagsástandið slæmt.
En það dugði alls ekki.
Til þess að létta af mér hugarangrinu og hjálpa mér að hanga þurrum set ég þáttinn í viðhengi við þessa síðu og dæmi nú hver sem vill er hlustar á hann hvort ég eigi að iðrast. Þátturinn verður hér fram yfir næsta Kotmót.
Og ég hef fyrirgefið þeim sem höfnuðu þættinum mínum af því að þau vissu ekki hvað þau voru að gjöra.
26.7.2009 | 21:56
Stórskemmtileg sölvaferð við Reykjanesvita
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009 | 19:43
Nokkur orð um auglýsingar
Upp á síðkastið hef ég velt fyrir mér málfarinu á auglýsingunum. Ég hef hugsað um hvort að íslenskt mál sé að breytast og að ég fylgist ekki með eða hvort einhverjir nýbúar sjái um að gera texta auglýsinganna, en nú er víst búið að skera niður við trog íslenskukennslu þeim til handa.
Ein tilkynning, auglýsing vakti athygli mína. Það var svo kallaður gliðis-leikur. Mig rak í rogastans. Hélt að orðið gleði væri í eignarfalli gleiði án stafsins s og því væri hér slæm málvilla á ferðinni. Ekki í anda þess ágæta manns sem stofnaði umrætt fyrirtæki, Ásbjörn Ólafsson hf.. sem flytur inn þjóðarréttinn prins polo.
En í kvöld rann upp fyrir mér ljós.
Þetta átti auðvitað að vera gleði-sleikur.
Auglýsingin hvatti til erotískra athafna. Sum sé eftir að maður hefur neytt prins pólós er upplagt að fara í sleik við elskuna sína.
Svona snilld hlýtur að vera komin frá einhverjum útlendingi sem hefur hugmyndaflugið í lagi og auðgar íslenska tungu og menningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.7.2009 | 23:07
Plútó - minning
Hann var fæddur í Hveragerði líklega 4. mars 1997.
Plútó var einn af 7 hvolpum border collie, mest megnis íslenskur í aðra hvora ættina og sá eini sem var með litabrigði.
Hann var dökk grár, hvítur á fótum og með eins og móðir mín kallar það þjófaljós í hringaðri rófunni. Ofan á höfðinu sköpuðust ótrúlega fallega brúnir, svartir og hvítir litir og svo voru dökkar línur við augun.
Þegar við náðum í hann í Hveragerði höfðu verið teknir tveir hvolpar úr gotinu sem ég gat valið um. Þetta litla skinn var stuttfætt, kubbslaga, átta vikna gamalt og kom vaggandi á móti mér og gat vart staðið undir sjálfum sér. Við féllum hvor algjörlega fyrir öðrum sem og öll fjölskyldan. Skapgerðin var einstök. Hann var ljúfur og alltaf glaður. Hann átti það auðvitað til eins og svo margir hundar sem eru hálf íslenskir að vera óttalegur hávaðabelgur en mér tókst að venja hann af gelti þegar mig bar að garði heima. En stundum gleymdi hann sér og varð svo skelkaður þegar hann uppgötvaði hver var kominn að frú mín varð að fylgja honum til dyra.
Þegar Plútó kom til okkar bjuggum við á Skildingatanga 6 í Skerjafirði. Niðri við göngustíginn varð Plútó fljótt heimaríkur og taldi sig ráða yfir miklu landflæmi í Skerjafirðinum. Hann átti það til að sitja uppi á hól fyrir aftan húsið okkar, horfa yfir ríki sitt og dást að veldi sínu. Það fór ósegjanlega í taugarnar á honum ef bátur eða skip sem honum leist ekki á dirfðist að sigla eftir firðinum án samþykkis hans.
Svo átti hann það til að fá sér langar gönguferðir með hinum og þessum sem voru í gönguferð á stígnum. Stundum hvarf hann í 1 til 2 tíma af því að félagsskapurinn sem hann valdi sér var svo góður. Eða kannski þurfti hann að hitta lóðartík og fylgja henni alla leið úr Kópavogi yfir í ríki sitt.
Einn besti vinur Plútós af hundaættum var Kormákur Korfi en eigendur hans eiga sumarbústað í Skorradal. Þegar Plútó fór þangað æstist hann mjög við að eiga von á að hitta vin sinn. Saman fóru þeir í könnunarferðir. En ef Korfi var einn á ferð átti hann það til að koma ekki þegar kallað var á hann. En ef Plútó var með í för og kallað var á hann komu þeir vinirnir á harða spretti.
Eitt hafði Korfi fram yfir Plútó. Hann var afburða veiðihundur og hugaður með afbrigðum og þar að auki vel ættaður. En Plútó var frekar huglaus en í staðinn hafði hann þeim mun hærra og fældi frá óborðna gesti.
Þegar Plútó fór fyrst um Hvalfjarðargöngin varð hann svo hræddur að hann klöngraðist yfir heilan bíl framhjá alls konar dóti og fram í til mín þar sem hann tróð sér undir fætur mér.
Einu sinni vorum við á ferð á göngustígnum við Ægissíðu. Það var svo dimmt að ég sá ekki stíginn sem lá upp að húsinu okkar. Allt í einu tek ég eftir því að Plútó flaðrar upp um mig og ýtir við hægri fæti. Hann var að segja mér á sinn hátt að nú væri ég farinn fram hjá stígnum heim að húsinu okkar. Stundum fórum við út að hjóla saman. Fyrir 10 árum fékk ég smá blóðtappa í höfuðið og missti jafnvægið að hluta. Þegar ég reyndi að hjóla náði ég fáum beygjum og var ekki orðinn góður fyrr en ég komst á beina braut. Í fyrsta hjólatúrnum eftir þetta var Plútó með í för. Hann hljóp fram fyrir hjólið og sá til þess að ég færi ekki of hratt.
Þegar Herdís vann að plötunni sinni sem kom út fyrir 11 árum og var með trúarlegum söngvum, lá Plútó við fætur húsmóður sinnar og hlustaði á hana semja tónlistina. Herdís hélt því fram að þess vegna væri hundurinn frelsaður.
Eitt er víst að Plútó var einn af þeim fáu hundum sem hafa farið í kirkju í seinni tíð og ekki orðið sér til skammar á nokkurn hátt. Nema þá að hann sofnaði uppi við altarið og skildi eftir sig dálítið af hundahárum.
Fyrstu árin var eitthvað um kvartanir vegna Plútó. Ég braut allar samþykktir um hunda og leyfði honum stundum að ganga lausum. Ég þurfti reyndar að beita hann hörðu í uppeldi af því að hann rak burtu alla óþarfa hvíta bíla en við áttum þá hvítan bíl. Þetta var eins og gömlu sveitahundarnir sem eltu alla bíla með látum. En hann vandist þessu. Og fólkið í Skerjafirðinum vandist honum Plútó og þótti mörgum vænt um hann. Þegar við vorum saman á göngu heilsuðu honum fleiri en mér.
þá kom það fyrir að erlendir ferðamenn mynduðu hann í bak og fyrir og buðu mér fé ef þeir fengju hann keyptan. En auðvitað selur maður ekki vini sína. Stundum var Plútó notaður í sálfræðimeðferð. Tvisvar fékk tengdasonur okkar sem er sálfræðingur hann lánaðan til þess að hjálpa fólki sem þjáðist af hundafælni. Viðkomandi var smurður í framan með smjöri og Plútó sleikti svo framan úr viðkomandi og var svo ljómandi blíður og góður að sjúklingarnir bráðnuðu fyrir honum.
Þegar ellin fór að sækja að honum gerðist hann gleyminn og tók upp á alls konar barnabrekum. Þar á meðal tók hann aftur upp á því að reka burt hvíta bíla og ketti sem hann þoldi ekki nálægt sér. Þá var hann svo vanafastur að ef hann fékk morgunostinn sinn fyrst hjá Herdísi en ekki mér ruglaðist allt kerfið og hann taldi sig þurfa meira en venjulega af morgunostinum.
Síðustu árin gerði hann mannamun á heimilinu. Hann elskaði og dýrkaði Herdísi öllum framar. Ef hún fór eitthvað án hans um lengri eða skemmri veg beið hann. Hann gegndi mér best og virti strákinn okkar sem í rauninni var eigandi hans. Eitt var ófrávíkjanleg regla í samskiptum þeirra á milli. Þegar piltur gaf hundinum að éta varð hann að bíða þangað til drengurinn sagði matur og þá fékk ekkert stöðvað hann.
Dóttur okkar og tengdason mat hann mikils enda þegar pilturinn fór á skeljarnar og bað stúlkunnar var hann vottur og grét með þeim báðum þegar hún dóttirin játaðist verðandi manni sínum. Þá sjaldan að mannfagnaðir voru haldnir í okkar húsakynnum var Plútó alltaf með og var hrókur alls fagnaðar. Hann gætti þess vandlega að verða hvorki á vegi mínum né annarra úr fjölskyldunni til þess að eiga það ekki á hættu að vera lokaður inni. Eigandi labradorsins Kormáks Korfa sem er forseti hins íslenzka lymgvinafélags kenndi Plútó að dansa. Var hann svo leikinn í þessari íþrótt að Tómas Tómasson bassaleikari Stuðmanna bauð Plútó sérstaklega í fimmtugsafmæli sitt. Plútó færði Tomma dansatriði í afmælisgjöf sem Birna Þórðadóttir veislustjóri kynnti af stakri snilld. Okkur Herdísi var ekki boðið en tekið fram að við mættum vera fylgdarmenn Plútós. Slík var elska þeirra sem honum kynntust á hundinum.
Við fjölskyldan fórum á stórskemmtilega humarhátíð á Hornafirði um síðustu helgi. Plútó var með og naut sín til sins ýtrasta. Hann var nokkuð ern eftir aldri en orðinn hægfara af gikt og heyrnin var mjög farin að daprast. Hann fékk vel að smakka á bæði humri, nauta og svínakjöti. Á mánudaginn var lögðum við af stað suður en höfðum þá flutt okkur í Skaftafell. Þá var Plútó orðinn eitthvað daufur og kastaði upp. Þegar heim kom virtist hann fárveikur. Fékkst ekki inn í hús og var úti í alla nótt.
Í morgun þegar við vitjuðum hans lá hann á pallinum fyrir framan stofudyrnar. Við bárum hann inn en hann leitaði aftur út. Við röltum morgunhringinn hans og komumst tæplega einn fjórða vegalengdarinnar. Þá fann hann uppáhalds staðinn sinn og gerði stykki sín þar. Síðan röltum við heim og hann lagðist fyir. Þá kom í ljós að Plútó hafði fengið heilablóðfall. Kl. 15:00 í dag kom dýralæknir heim að vitja hans. Við vorum öll hjá honum fjölskyldan og tvær bestu vinkonur hans sem höfðu stundum gætt hans. Umvafinn hlýju og ást allra kvaddi hann þennan heim blessaður. Hann dillaði rófunni lítið eitt fyrir mig og teygði fram hægri framfótinn svo að ég gæti klórað honum. Herdís var hjá honum þegar hann fór. Það er tómlegt núna án Plútós. En vonandi hleypur hann um og stríðir einni og einni kanínu og rekur í burtu ketti sem verða á vegi hans í himnaríki, blessaður karlinn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2009 | 21:11
Klakavörzlureikninga-samkomulagi og reiðin í samfélaginu
Þá verður loks hægt að auka við fangelsi landsins þegar sumarhöll Sigurðar Einarssonar í Borgarfirði hefur verið þjóðnýtt sem fangelsi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2009 | 23:19
Örlátur Þráinn á þing
En ég hresstist yfir að lesa að Þráinn Bertelson fyrrum framsóknarfrömuður hygðist velta því fyrir sér hvort hann ætti ekki að afsala sér heiðurslaunum sem hann hlaut sem rithöfundur á meðan hann var í Framsóknarflokknum nú þegar hann sest á þing með miklu hærra kaup.
Þar sem Þráinn er að mínu viti vel gerður og skemmtilegur myndi hann njóta ævarandi þjóðarhylli ef hann afsalaði sér þingmannskaupi en héldi áfram að vera heiðursrithöfundur á launum. Þannig sýndi hann gott fordæmi. Gleðileg úrslit!
21.4.2009 | 23:21
Margt býr í þokunni. Fyndinn sakamálaleikur
Það er óhætt að hvetja fólk til þess að bregða sér á þessa leiksýningu í Félagsheimili Seltjarnarness. Þarna er ágæt skemmtan sem kitlar hláturtaugarnar og er um leið spennandi og góð. Sýningar verða á fimmtudaginn, þriðjudag og fimmtudag í næstu viku kl. 20 og svo lýkur sýningunum kl. 14 sunnudaginn 10. maí. Ég og frúið skemmtum okkur og þökkum kærlegaf fyrir ánægjulegt kvöld.
19.4.2009 | 22:59
Hver á Ísland?
Í gær byrjuðum við að undirbúa hljóðritun geisladisks. Og í dag fór ég á tvenna tónleika. Þeir fyrri vorum eð Nordic affect ef ég skrifa nafnið rétt í Þjóðmenningarhúsinu. Tónleikarnir voru haldnir í tilefni 250 ára ártíðar Hendels og voru gargandisnilld. Sérstaklega síðasta verkið sem mér fannst vera gamaldags nútíma poppútsetning á einni svítunni úr Vatnatónlist tónskáldsins sem Hugi Guðmundsson samdi.
Hinir tónleikarnir voru tónleikar Íslenska flautukórsins haldnir í Neskirkju. 19 konur og einn karl. Blístrandi ffalllegt.
Þrátt fyfir alla þessa menningarneyslu sækja á mig áhyggjur vegna næsta laugardags. Ég er í vandræðum hvað ég muni kjósa.
Lýðræðishreyfing Ástþórs finnst mér sógun á almannafé. Forsprakkinn hagar sér eins og angi uppfullur af frekju og ofstopa þykir mér. Kallar mann og annan glæpamann. Hvernig skyldi þjóðfélagið verða ef slíkir menn kæmust til valda sem mér virðast fulllir af vænisýki sem mér er sagt að flokkist undir eina tegund geðsýki?
Í Frjálslynda flokknum á ég ágæta vini. En flokkurinn hefur verið óheppinn á margan hátt. Mér virðist að sá sem kalla mætti ofstopamann verði ekki til þess að laða fólk að flokknum í Reykjavík.
Borgarahreyfingin hefur margt sér til ágætis. Sérstaklega Þráin Bertelsson. Framsókn er alltaf til í slaginn og opinn í alla enda. íhaldið hef ég ekkert um að segja.
Þá eru það Vinstri grænir og samfylkingin. Það kemur í ljós á hvorn bókstafinn ég hitti næsta laugardag.
En hugurinn reikar víða og ég velti fyrir mér hverjir eigi Ísland. Eigum við landi?
Samkvæmt kenningu Gyðinga sem halda því fram að Guð hafi gefið þeim Ísrael ættu Írar að búa hér nema að Ísland sé gjöf Guðs til okkar. . Segir ekki Ari fróði frá því í Íslendigabók að hér hafi búið papar, írskir einsetumenn? Þeir voru kristnir en forfeður okkar hund heiðnir. Hvort gaf Guð þeim landið eða Írunum? Ætli þeir hafi engar kerlingar haft sér til ráðuneytis? En ef þeir hefðu fengið að vera í friði fyrir forfeðrum okkar er eins víst að þjóðflutningar hefðu byrjað frá Írlandi og hingað þannig að Ísland er í rauninni hjálenda Íra og við eigum margt sameeiginlegt með þeim t. d. þessa makalausu sönghefð sem blómstrar einna best í Vestmannaeyjum. Eru þá nútíma Ísraelsmenn ekki innrásarmenn á land Palestínumanna en reyndar segir í þeirri helgu bók að Guð hafi gefið þeim landið. En glutruðu þeir ekki landinu fyrir einhvern óskunda? Hví skyldi Guð ekki hafa haldið yfir þeim verndarhendi svo að þeir hefðu þá haldeið landinu? Spyr sá sem ekki veit um hver eigi hvaða land.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.4.2009 kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2009 | 22:42
Gunnar Þórðarson og gítarinn - þjóðargersemi
Gunni var einn með gítarinn og lék nokkur af rúmlega 500 tónverkum sínum, raulaði með gítarnum og sagði frá tilurð sumra laganna.
Tónleikarnir eru sérstakir fyrir það að í fyrsta sinn á 45 ára ferli sínum kemur Gunnar einn fram með gítarinn sinn og flytur nokkur laga sinna.
Ég naut þessa í botn. Hljóðritun Ríkisútvarpsins var lifandi og skemmtileg og dagskrárgerð Óla Palla var snilld.
Nokkrum sinnum hef ég átt þess kost að vinna með Gunna Þórðar á sviði og að leika inn á hljómplötur þar sem hann hefur stjórnað upptökum. Agaðri vinnuþjarki hef ég vart kynnst.
Gunnar er meistari sem hefur áunnið sér virðingu þjóðarinnar með snilld sinni sem tónskáld, einhver besti gítaristi landsins og hugljúfur raulari. Rás 2 og Óli Palli eiga mikinn heiður fyrir frábæra stund sem okkur var veitt með Gunna Þórðar í dag páskadag.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009 | 20:36
Hver verður krossfestur eða grefur sér gröf?
Þeir Sjálfstæðismenn hreyktu sér af því að hafa staðið að lagasetningu sem kvað á um hámarks framlög til stjórnmálaflokkanna. Jafn framt því sem hámarksframlög fyrirtækja og einstaklinga voru minnkuð þeim mun hærri varð ríkisstyrkurinn sem stjórnmálaflokkunum var úthlutað.
Ég ætla ekki að rekja söguna sem allir vita nú hvernig er, sum sé að Sjálfstæðismenn notuðu tækifærið, rökuðu inn milljónum einum 80 skömmu fyrirr gildistöku laganna og þágu þar að auki ríkisframlagið.
Ég hef aldrei heyrt Sjálfstæðismenn skammast sín eins mikið og þeir virðast gera núna ef þeir meina þá nokkuð með því. Það hefur verið sjaldan eða aldrei komið upp um annað eins siðleysi í íslenskum stjórnmálum nú í seinni tíð. Menn hafa sjaldan orðið vitni að eins mikilli spillingu og vanvirðu við óbreytta kjósendur.
Vonandi fær þjóðin frið fyrir íhaldinu næstu árin. Réttara væri að það skammaðist sín og dragi sig í hlé í stað þess að blóðmjólka þjóðina eins og hverjar aðrar vampírur.
Í kvöldfréttum Sjónvarpsins sagðist Bjarni Benediktsson mundu gefa upp hverjir stóðu að því að ná í fjármuni frá Fl-grúpp og Landsbankanum. Geir Haarde hefur tekið á sig alla ábirgð en eitthvað virðist það velkjast fyrir mönnum hvort hann eigi einn þar sök á.
Hverjum er Bjarni að hlífa?
Eru hagsmunatengslin slík að sannleikurinn þoli ekki dagsljósið?
Ætla þeir Sjálfstæðismennirnir að detta ofan í sömu gröf og Framsóknarmenn að halda áfram að sveipa alla hluti dulúð með nýja formanninn sinn, sem virðist sterk ríkur og veigrar sér við að gera grein fyrir fjármálum sínum og hvernig sá auður skapaðist, hugsanlega með vafasömum hætti þegar formannsfaðirinn var þingmaður og hafði tök á að skara eld að sinni köku? Hversu djúp verður framsóknargröfin að verða til þess að rúma alla þá fjármálaspillingu og fjármuni sem sá flokkur hefur rakað til sín og sinna í valdatíð sinni ásamt Sjálfstæðisflokknum?
Komið hefur í ljós að Framsóknarflokkurinn hafi þegið um 30 milljónir króna árið 1986. Af tryggð við styrkveitendur vilja þeir ekki upplýsa þjóðina um hverjir veittu styrki til flokksins.
Skyldu þá koma í ljós ef framsóknarbókhaldið yrði opnað ýmsir þeir fjármunir sem hafa horfið meðal annars úr sjóðum fyrrum Sambandsfyrirtækjanna eins og t. d. Samvinnutrygginga sem var einn skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef unnið á.
Iðrun Sjálfstæðismanna verður aldrei nein eða á nokkurn hátt sannfærandi. Þeir reyna sjálf sagt að krossfesta einhvern eða nota sem blóraböggul. Skyldu þeir skila fjármununum með vöxtum og verðbótum? Ef svo er þá væru þeir menn af meiri.
En hið jákvæða við þetta allt saman er að nú rætist vonandi gamall draumur um fall íhaldsins og Framsókn flýtur ekki lengur ofan á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.4.2009 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)