Af fermingunni minni

Um daginn áttum við ritstjóri Frétta í Vestmannaeyjum erindi hvor við annan. Því lyktaði ágætlega og dróst ég á að hripa niður nokkrar minningar um ferminguna mína.
Mig rámar í að ég hafi fermst 29. maí 1966 frá Landakirkju. Dagsetningin er á reiki hjá mér af því að á sálmabók sem ég fékk í fermingagjöf stendur 30. maí. Það var einhvert rugl í gangi með fermingardagsetninguna en við vorum svo mörg minnir mig fermingarsystkinin að það varð að ferma tvo daga í röð. Kannski er þetta vitleysa hjá mér.
Fermingarundirbúningurinn var nokkuð venjulegur. Tveir prestar í Eyjum, báðir ágætis menn, þeir séra Jóhann hlíðar, K.F.U.M. maður mikill og dulítill grallari í sér. Og svo séra Þorsteinn Lúter J'onsson sem var giftur stelpu frá Litlu Hólum, henni Júllu Matt systur Boga á Litlu Hólum. þau prestsjjónin, Þorsteinn og Júlía og foreldrar mínir voru miklir vinir og þau komu alltaf í mat á aðfangadagskvöld til okkar ásamt syni sínum honum Smára, en við vorum leikfélagar.
Mig rámar eitthvað í að þeir prestar fræddu okkur fermingarbörn um trúna og orðið og fóru í gegnum hitt og þetta úr Biblíunni. Annar prédikaði um líknsaman guð, hjá hinum var Guð dulítið strangari. Báðir settu fram mál sitt þannig að sum okkar tóku vel eftir og hugleiddu.
Ég var með þeim ósköpum gerður að vera latur við að læra sálma og vers og önnur kvæði. Séra Þorsteinn setti okkur fyrir að fara með eitt vers í hvert skipti sem við mættum til spurninga. Mönnum tókst yfirleitt vel upp og stelpurnar voru oft betri en við peyjarnir. Svo kom að mér að læra vers og fara með. Ég hafði þann háttinn á að byrja að læra versið daginn áður en spurningar hófust og náði því auðvitað engan veginn. Ég hugsaði ráð mitt.
Nú voru góð ráð dýr.
Í versinu kom fyrir orðið frost og funi. Ég byrjaði á að fara með versið, kunni fyrstu fjórar línurnar og sagði af ásettu ráði frost og eldur í staðinn fyrir frost og funa. Þegar það gerðist gerði ég mér upp fát og sagðist hafa mismælt mig og ætlaði að byrja aftur. Séra Þorsteinn stoppaði mig, hélt tölu um að þetta væri dæmi um hvernig fermingarbörn ættu að hugleiða það sem þeim væri sett fyrir og taldi þessi mismæli mín bera vott um skíra hugsun og þekkingu á orðsins list. Hann sagði að ég þyrfti ekki að klára versið og mikið varð ég feginn, en skammaðist mín ekki fyrr en mörgum árum síðar.
Þegar sjálf fermingi nálgaðist fórum við sum að velta því fyrir okkur hvað við þyrftum að borga prestunum í fermingartoll.
Ég spurði annan prestinn hvað ég og tvíburabróðir minn ættum að borga. Hann sagði að við myndum greiða eitt gjald, það væri vaninn þegar tveir fermdust frá sama heimili. Eitthvað var ég efins og spurði hinn prestinn. Hann btrást frekar illa við og sagði harrkalega að við borguðum eins og tveir einstaklingar. Ég hváði við og sagði hvað annar presturinn hefði sagt.
Þá varð hinn snakillur, hálf hvæsti á mig: "Hann getur þá hirt fermingartollinn ég þarf ekkert".
Þetta hafði djúp áhrif á mig og bætti svo ekki álit mitt á prestum þegar einn presta þjóðkirkjunnar vísaði mér og fleirum til andskotans í gosinu, sagði að allt sem frá mér og félögum mínum kæmi væri beint úr svartasta dýki helvítis.
Svo þegar viðð bræður komum upp í landakirkju að greiða fermingartollinn gerði ég það samkvæmt tillögu föður míns að hafa tvær greiðslur í lokuðu umslagi. Þegar við komum í kirkjuna, sat annar prestanna í miðjum kórnum með stóra skjóðu milli fóta sér, tók við fermingartollinum og stakk ofan í skjóðuna. Ég gekk til hans og rétti honum lokað umslagið. Fékk greiðslu fyrir eina fermingu þannig að vafamál er hvor borgaði, ég eða bróðir minn. Kannski erum við þá hálf fermdir eftir allt saman.
Fermingardagurinn rann upp með miklum spenningi og eftirvæntingu. Mig rámar í að á fermingardagsmorguninn hafi verið lágskýjað í Eyjum nema mikil nærsýni mín hafi skapað þessi ský. Tals vert af ættingjum höfðu komið úr Reykjavík og stórfj´ölskyldan hélt vel saman á þeim árum og aðal vettvangur hennar var að heimili foreldra minna að Heiðarvegi 20. Við vorum þrír frændur á sama aldri, við Arnþór og Helgi frændi okkar Guðmundssonk, sonur Muggs bróður míns sem er tæpum tveimur mánuðum eldri en við Arnþór. Við vorum uppi í herbergi og ákváðum að þrusa á segulbandstækið uppáhaldslaginu okkar allra, "I can get no satisfaction". Spiluðum þetta þrisvar og svo gengum við Arnþór upp í Landakirkju að skrýðast fermingarkirtlunum. Fermingarbörnum var raðað upp stigann í Landakirkjuturn eftir stafrófsröð. Við Arnþór gengum á eftir prestunum. Skömmu áður en orgelspilið hófst þá heyri ég að einn vinur minn mjög aftarlega í röðinni segir við þann sem var við hliðina á honum: "Jæja. Nú rekum við prestana og öll svínin á undan okkur. Félaginn sagði ha og þá endurtók fermingarpilturinn orð sín og með það gengum við inn í kirkjuna, prúð og stilt og flest falleg.
Ég man lítið eftir athöfninni sjálfri, það hafði lítil áhrif á mig að segja já. Veislan sem foreldrar mínir héldu var stórkostleg og gjafir og skeyti miklar. Það voru margir sem sendu okkur bræðrum kveðjur. og færðu okkur dýrindis gjafir.Áhrifamest þótti mér að ganga til altaris með móður minni daginn eftir. Þá skildi ég í rauninni hvað í þessari athöfn hófst og fermingarheitinu.
Fáum dögum síðar lögðum við Arnþór upp í tónleikaferðallag með Magnúsi Sigurðssyni skólastjóra Hlíðarskóla í Reykjavík að safna fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks sem Magnús hafði stofnað. En það er önnur saga.

Gísli Helgason blokkflautuskáld


"Góði" engillinn

Í morgun, 9. apríl birtist í fjölmiðlum mjög skemmtileg kreppufrétt.
Hún var á þá leið að einn útrásargvíkingurinn hygðist stefna skilanefnd Glitnis heitins vegna ærumeiðandi framsetningar á kæru ef ég hef skilið rétt. Skilanefndin hafði ekki haldið til haga broskalli sem átti að vera í tölvupóstskeyti sem útrásarvíkingurinn á að hafa sent. Í frétt fjölmiðlanna sagði að áðurnefndur víkingur hafi verið að grínast þegar hann hótaði að verða starfandi stjórnarformaður.
Mér er spurn: Er allt þetta kreppuvafstur bara óraunverulegt grín? Er verið að ofsækja útrásarvíkinginn fyrir að hygla sjálfum sér með einhverjum smá upphæðum, svosum milljárði eða gera eins og svo margir að skara eld að sinni köku?

Gerist nokkuð þegar skýrsla þingnefndarinnar um hrunið kemur út?

Nú bíður alþjóð í ofvæni eftir marg um ræddri skýrslu nefndarinnar sem Alþingi skipaði um orsakir hrunsins.
Til hvers að birta þessa skýrslu?
Mun eitthvað gerast?
Ég var í kaffi með nokkrum vinum mínum. Einn úr hópnum sem er marg reyndur prentari sagði að þegar menn byrjuðu að lesa hana þá myndi letrið dofna og eyðast.
Því verður ekkert að gert.
Þannig mun allt halda áfram eins og verið hefur.
Þannig munum við frétta enn meira af þeim sem rændu okkur og lifa í óhófi af því að þeir stofnuðu félög til þess að stofna félög sem keyptu eignir af félögum, sem enginn ber a´birgð á.

Andrarímur - lokaþáttur á rás 1 páskadag kl. 23:05

Um daginn var haldin mikil alþýðutónlistarhátíð á Kaffi Rósenberg í Reykjavík, Reykjavik folkfestival. Hljómsveitin Spaðar lauk hátíðinni með Guðmund Andra Thórsson í fararbroddi sem söngvara.
Þótt margir séu betri söngmenn en Guðmundur Andri hæfir hann þessari bráðskemmtilegu hljómsveit vel og gefur henni einstakan karakter sem afbragðs raulari.
Ég hitti Andra um nóttina og þá barst útvarpsþátturinn hans, Andrarímur í tal. Þá sagði Andri mér að lokaþátturinn yrði um páskana, sum sé nú á páskadag kl. 23.05, 4. apríl 2010 á rás 1.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að grýðarlegur niðurskurður er í dagskrá Ríkisútvarpsins vegna fjárskorts. Þá er gripið til þess ráðs því miður að segja upp lausráðnu dagskrárfólki sem hefur haldið Útvarpinu mikið til uppi um áratugaskeið með margvíslegri og fjölbreyttri dagskrárgerð.
Nær allir sem stunda slíka iðju gera það af hugsjónaástæðum því að launin eru lág. Sá sparnaður sem hlýst af slíkum uppsögnum er varla nema dropi í hafið hvað sparnað varðar. Hlaðið hefur verið undir yfirstjórn Ríkisútvarpsins sem er rándýr með útvarpsstjórann í fararbroddi, og dagskrárgerðarfólk þiggur brotabrot af þeim fjármunum sem fara í rekstur þessarar góðu stofnunar.
Þanga finnst mér og fleirum hafa verið plantað ýmsu fólki sem veit ekki hvað útvarp er, til hvers það er og hvert er hlutverk þess.
Og Guðmundur Andri verður látinn víkja með Andrarímurnar sínar og því miður fleira gott fólk.
Þetta er þyngra en tárum taki. Þetta er afrakstur framsóknarsoðningaríhaldsins, sem hefur unnið leint og ljóst að því að eyðileggja þessa góðu stofnun ásamt innviðum samfélagsins.
Ég samhryggist okkur öllum hvernig komið er og þakka Guðmundi Andra margar ljúfar stundir og frábæra þætti sem mér finnst eiga fáa sína líka.

Eldgosinu í Eyjafjallajökli mótmælt

Í dag verður farið í hópferð og eldgosinu í Eyjafjallajökli mótmælt.
Ástæðan er sú að eldgosið veldur ófyrirsjáanlegum spjöllum á helstu náttúruperlum landsins, svo sem Þórsmörk og Fimmvörðuhálsi.
Fararstjóri verður Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi sem er marg reyndur náttúruvinur.
Farið verður sem leið liggur upp að Einhyrningi og framinn gjörningur þar. Ólafur mun lesa upp magnað ákvæðisljóð sem hann hefur ort í tilefni fararinnar.
Þyrla verður til taks til þess að fólk fái að sjá gosið betur og náttúruspjöllin sem nú þegar hafa verið unnin. Notuð verður þyrla Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns en hann hefur góðfúslega lánað hana í þessum tilgangi.
Lagt verður af stað frá Umferðarmiðstöðinni stundvíslega kl. 12:50 og eru allir hjartanlega velkomnir.

Kvótakerfiðþjóðar eign og hrun bankanna

Nú er rétt bráðum ár síðan hið opinbera leysti til sín Landsbankann, Kaupþing og Glitni sem allir höfðu verið einkavæddir. Þeim sem áttu hlut í bönkunum var ekkert vorkennt þótt margir töpuðu miklum fjármunum.
Nú þegar rætt er um að innkalla kvóta þá sem soðningaríhaldið ásamt fleirum undir forystu Framsóknar hefur sölsað undir sig reka menn upp hávært kvein og tala um þjófnað og segja ekki hægt að innkalla kvóta.
Það er nokkð ljóst lagalega séð að fiskikvótinn er sameign okkar allra hér á landi og því miður staðreynd að fiskkvótinn er notaður í marg víslegum tilgangi.
Sumir nota hann til þess að þurfa ekki að míga í saltan sjó og hagnast á leigu hans.
Til þess að eitthvað rættist úr atvinnumálum voru standveiðar leyfðar og virtist það til góðs. Þó ku hafa verið einhver brögð að því að kvótaeigendur færu á strandveiðar á meðan þeir leigðu út kvótann sinn. Þetta heitir víst að kunna að hagnýta sér ástandið.
Nú er löngu tímabært að ríkið innleisi til sín allan fiskikvótann eins og hann leggur sig og leigi hann út. Þar með yrði þjóðarauðlindinni skilað aftur og allir högnuðust. Þeir sem voru svo vitlausir að kaupa kvóta af öðrum sem voru svo gráðugir að leigja hann frá sér myndu sitja eftir með sárt ennið eins svo sægreifarnir og margir eftir hrunið. Þannig kæmist á jöfnuður í samfélaginu þegar þjóðin hefði fengið sitt.
Þarna væri verðugt verk að vinna fyrir Guðjón vin minn Arnar og fleiri hugsandi embættismenn og sjávarútvegsráðherra sem er líka landbúnaðarráðherra.

Danir blanda sér í innanríkismál og skapa frekari ófrið innan Öryrkjabandalagsins

Í Morgunblaðinu í gær, 19. ÁGÚST, birtist frétt þess efnis að þeir Evald Krog og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félags Íslands, hefðu gengið á fund Sigursteins
Mássonar og skorað á hann að gefa kost á sér til formennsku í
Öryrkjabandalagi Íslands.

Sigursteinn var kjörinn formaður Öryrkjabandalagsins í október árið 2005.
Hófst þá mikill ófriðartími innan bandalagsins. Hver höndin var uppi á móti
annarri og kom hann engum málum fram sem hann ætlaði sér að aðalstjórnar og aðalfundum bandalagsins.

Sigursteinn stóð fyrir því að þáverandi framkvæmdastjóri var rekinn
fyrirvaralaust úr starfi. Látið var að því liggja að skipulagsbreytingar væru ástæða
brottrekstrarins. Þá var þess einnig getið að ávirðingar framkvæmdastjórans
væru slíkar að ekki borgaði sig að fara nánar út í þær til þess að maðurinn
héldi æru sinni.
Framganga Sigursteins var með þeim hætti að líkja má við mannorðsmorð þar sem rógur og dylgjur réðu ferðinni að hluta.
Nýr framkvæmdastjóri var ráðinn, Hafdís Gísladóttir.

Á fundi aðalstjórnar Öryrkjabandalags Íslands 11. janúar 2007 kom til
snarpra átaka vegna kosninga í stjórn Hússjóðs Öryrkjabandalagsins og beið
Sigursteinn lægri hlut. Sagði hann af sér formennskunni daginn eftir.
Þáverandi ramkvæmdastjóri lét þá einnig af störfum.

Ísland fékk heimastjórn 1. des. 1918 og hefur séð um innanríkismál sín síðan. Því er undarlegt að Evald Krog formaður danska MND-félagsins skuli blanda sér með þessum hætti í málefni Öryrkjabandalags Íslands.

Heimsókn þeirra félaga, Evalds og Guðjóns, er fjölmiðlaatburður sem
Sigursteinn hefur sett á svið, enda maðurinn þaulreyndur blaðamaður.
Svo undarlega vill til að atburð þennan ber upp á 70 ára afmælisdag Blindrafélagsins samtaka blindra og sjónskertra á Íslandi.

Kvíði hefur gripið um sig á meðal starfsmanna Öryrkjabandalags
Íslands vegna þessa máls. Vitað er að Guðmundur Magnússon, núverandi
varaformaður bandalagsins, íhugi nú framboð til formanns Öryrkjabandalagsins.


Brekkusöngur eða brekkugarg


Ég hef notið þess á margan hátt að hlusta á Ríkisútvarpið um verslunarmannahelgina og staðnæmdist stundum við rás 2.
Þar fór einn dagskrárgerðarmaðurinn, Guðni Már Henningsson mikinn um brekkusönginn í Eyjum og taldi þingmanninn sem raular fyrir Eyjamenn eða gargar af hjartans lyst upphafsmann brekkusöngsins.
Í viðtali sem ég átti við Ása í Bæ og flutt var 2. ágúst 1974 sagði Ási frá því að hann hefði á fjórða áratug liðinnar aldar efnt til svo kallaðs brekkusöjgs eins og hann kallaði það, þannig að Ási er upphafsmaður brekkusöngsins.
N nú eru ýmsir farnir að taka upp á þessum sið sem er annað hvort kallaður brekkusöngur eða bryggjusöngur. Í gærvkvöldi var á Stokkseyri bryggjusöngur sem Ólafur Þórarinsson sem löngum er kenndur við hljómsveitina Mána stóð fyrir. Ólafur eða Labbi er stór góður gítaristi og frábær söngvari.
Ég velti fyrir mér hvort útvarpsmenn séu að gera grín að okkur Vestmannaeyingum með því að útvarpa gargi þingmannsins úr Eyjum.
Ég hef verið að vinna í ævisögu Péturs Kristjánssonar söngvara sem lést um aldur fram. Ævisaga Péturs kemur senn út á hljóðbólk í snilldar lestri Gísla Rúnars Jónssonar leikara og rithöfundar.
Ein síðasta hljómsveitin sem Pétur var með kallaðist Gargið og pétur talaði um það að garga hitt og þetta yfir fólk. Pétur var einn besti söngvari sinnar tíðar, söng vel og gargaði af krafti. Þess vegna væri ástæða að tala um brekkugarg og bryggjusöng og útvarpsmenn mættu hafa í huga að ef fólkið í brekkunni í Herjólfsdal fengi að njóta sín meira í hljóðnemum Ríkisútvarpsins væri hægt að tala um brekku söng fremur en brekkugarg. En því verður ekki neitað að stemningin í brekkunni er óborganleg undir takmörkuðum gítarleik og stór miklu gargi þingmannnsins.

Verður gerð árás á Kaupþing og því rústað?

Nokkru áður en ósköpin dundu yfir í október á liðnu ári fjárfestum við hjón lítillega í bönkum þessa lands. Þar á meðal Kaupþingi. Upphæðin var ekki há, aðeins sjö stafa tala og það fremur lág miðað við allar þær stórtölur sem viðgengust.
Okkur var sagt að bankar væru einna öruggasta fjárfestingin.
Þetta er ekkert nýtt sem ég er að segja, í rauninni endurtekning af því sem þúsundir Íslendinga hafa að segja þessa dagana.
Nú kemur í ljós að þegar ég og þúsundir annarra hef tapað fjármunum mínulm hafði ég ekki hugmyndaflug til þess að fara fram á að bankinn lánaði mér fyrir andvirði hlutabréfanna og að ég myndi fá arð af því sem ég hefði hugsanlega aldrei greitt. Svo kom í ljós að þeir sem voru nógu stórtækir fengu felldar niður ábirðir af hlutafjárloforðum sínum þegar stjórnendur vissu að allt myndi hrynja.
Og síðustu fréttir benda til óhóflegrar spillingar, græðgisvæðingar og sukks.
Hvað gerist?
Hvenær grípur almenningur til sinna ráða og efnir til borgarastyrjaldar gegn þeim sem komu okkur á kaldan klaka?
Hvursu langt er langlundargeð okkar Frónbúanna?

Einföld lausn á greiðslu skulda íslenzku þjóðarinnar

Nú hefur komið í ljós að alþjóða gjaldeyrissjóðurinn frestar því að afgreiða lán til Íslendinga. Því er borið við m.a. ef ég skil rétt að ljúka þurfi þessu icesave-máli eða greiðslu klakavörslureikninganna.
Lausnin til greiðslu skuldanna er í rauninni sára einföld:
Nú er búið að setja handritin, þjóargersemar okkar á heimsmynjaskrá sem Danir varðveittu fyrir okkur. Búið er að marg ljósrita handritin og gera ljósritin þannig að auðvelt er að marg rannsaka handritin í gegnum þau eða hvernig svo sum þau hafa verið afrituð.
Kannski á eftir að rannsaka einn og einn blóðblett og hugsanlega verður í framtíðinni hægt að sýna fram á hverjir raunverulegir höfundar Íslendingasagnanna voru með dna-sýnum.
Því ekki að láta Breta og Hollendinga hafa handritin og þá er klakavörslureikningamálið dautt?
Mér skilst að núverandi hús Árnastofnunar sé nær ónýtt og reisa þurfi nýtt hús undir stofnuina.
Með þessum hætti myndu fræðimenn okkar halda áfram að fara erlendis til náms, sækja þangað aukna þekkingu og reynslu og miðla til okkar sem hér erum á skerinu.
Annars hefur það loðað við þetta bankahrun að í rauninni er aldrei allt sagt og helst kemur ekkert ærlegt fram nema að því sé lekið eins og nýjasta dæmið með lánabók Kaupþings sannar.
Því hefur verið haldi fram í mín eyru af mönnum sem til þekkja að rqaunverulega ástæðan fyrir frestun alþjóða gjaldeyrissjósins um mál Íslendinga sé sú að lífeyrissjóðirnir hafi afhent bönkum þessa lands sjóðina til þess að gambla með. Ef svo er þá erum við í enn dýpri skýt en áður og eins gott að leggjast á hnén og biðja norska kónginn um að innlima landið í norska konungsríkið eins og áður hefur verið lagt til á þessari síðu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband