Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Andrarímur - lokaþáttur á rás 1 páskadag kl. 23:05

Um daginn var haldin mikil alþýðutónlistarhátíð á Kaffi Rósenberg í Reykjavík, Reykjavik folkfestival. Hljómsveitin Spaðar lauk hátíðinni með Guðmund Andra Thórsson í fararbroddi sem söngvara.
Þótt margir séu betri söngmenn en Guðmundur Andri hæfir hann þessari bráðskemmtilegu hljómsveit vel og gefur henni einstakan karakter sem afbragðs raulari.
Ég hitti Andra um nóttina og þá barst útvarpsþátturinn hans, Andrarímur í tal. Þá sagði Andri mér að lokaþátturinn yrði um páskana, sum sé nú á páskadag kl. 23.05, 4. apríl 2010 á rás 1.
Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að grýðarlegur niðurskurður er í dagskrá Ríkisútvarpsins vegna fjárskorts. Þá er gripið til þess ráðs því miður að segja upp lausráðnu dagskrárfólki sem hefur haldið Útvarpinu mikið til uppi um áratugaskeið með margvíslegri og fjölbreyttri dagskrárgerð.
Nær allir sem stunda slíka iðju gera það af hugsjónaástæðum því að launin eru lág. Sá sparnaður sem hlýst af slíkum uppsögnum er varla nema dropi í hafið hvað sparnað varðar. Hlaðið hefur verið undir yfirstjórn Ríkisútvarpsins sem er rándýr með útvarpsstjórann í fararbroddi, og dagskrárgerðarfólk þiggur brotabrot af þeim fjármunum sem fara í rekstur þessarar góðu stofnunar.
Þanga finnst mér og fleirum hafa verið plantað ýmsu fólki sem veit ekki hvað útvarp er, til hvers það er og hvert er hlutverk þess.
Og Guðmundur Andri verður látinn víkja með Andrarímurnar sínar og því miður fleira gott fólk.
Þetta er þyngra en tárum taki. Þetta er afrakstur framsóknarsoðningaríhaldsins, sem hefur unnið leint og ljóst að því að eyðileggja þessa góðu stofnun ásamt innviðum samfélagsins.
Ég samhryggist okkur öllum hvernig komið er og þakka Guðmundi Andra margar ljúfar stundir og frábæra þætti sem mér finnst eiga fáa sína líka.

Vera mátt góður. - Kristilegur bannaður útvarpsþáttur

Þegar útvarpsrekstur var gerður frjáls og óheftur hér á landi fyrir rúmum tveimur áratugum hófust einhverjir handa um að starfrækja kristilegt útvarp. Tilraunin fór út um þúfur. Það var svo ekki fyrr en að ágæt bandarísk hjón rak hér á fjörur og settu á stofn Lindina, sem leikur kristilega tónlist og boðar af miklum krafti fagnaðarerindið að það tókst að koma á fót sannkristilegri útvarpsstöð hér á landi. Tilgangur stöðvarinnar er að reyna að gera Íslendinga betur kristna enda er haft eftir mætum manni að Íslendingar hafi alltaf verið illa heiðnir eins og þeir héldu svo áfram að vera illa kristnir.
Ég hef stöku sinnum unnið fyrir þessa ágætu stöð Lindina. Gerði þætti frá Kotmóti hvítasunnumanna 2007.
Í framhaldi af því langaði mig að gera þátt með kristilegri tónlist og breikka tónlistarsvið Lindarinnar sem mér finnst frekar einhæft.
Þáttinn gerði ég og lá hann í salti þar um nokkurt skeið.
Svo fór að honum var hafnað af ´því að þau lög og ljóð sem ég valdi féllu ekki alveg í kristilega kramið.
Þessi höfnun hafði mikil og djúp áhrif á mig.
Ég gerðist verklítill og latur. Lagðist í drykkjuskap og þunglyndi og endaði á börum borgarinnar og loks í meðferð á Vogi.
Mér hefur gengið nokkuð vel að hanga þurr. En svo lést náinn vinur minn Plútó og þá helltist yfir mig sekt og sorg.
Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að iðrast þess að gera svona kristilegan þátt sem félli ekki í kramið eða hvort ég ætti að fyrirgefa þeim af því að þau vissu ekki hvað þau gjörðu með að hafna þættinum mínum sem mér finnst svo góður.
Ég fór að fá mér einn og einn bjór.
Eftir því sem bjórarnir urðu fleiri því meir sökk ég í sjálfsásökun og ákvað svo loks að binda enda á þetta allt saman.
En svo sá ég ljósið og fann hvað best væri að gera. Fara á fundi og hætta þessu bjórþambi enda kreppa og efnahagsástandið slæmt.
En það dugði alls ekki.
Til þess að létta af mér hugarangrinu og hjálpa mér að hanga þurrum set ég þáttinn í viðhengi við þessa síðu og dæmi nú hver sem vill er hlustar á hann hvort ég eigi að iðrast. Þátturinn verður hér fram yfir næsta Kotmót.
Og ég hef fyrirgefið þeim sem höfnuðu þættinum mínum af því að þau vissu ekki hvað þau voru að gjöra.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband