Færsluflokkur: Dægurmál
31.7.2008 | 18:17
Hver dæmir þann sem dæmdur hefur verið?
Undanfarna daga hafa orðið miklar umræður vegna orða sem Agnes Bragadóttir blaðamaður lét falla í garð Árna Johnsens fyrrum blaðamanns og núverandi alþingismanns fyrir nokkru. Agnes sagði m. a. að Árni væri stórslys og dæmdur glæpamaður.
Það hefur tíðkast í mörg ár að hafa Árna að skotspæni enda virðist maðurinn gefa oft höggstað á sér. Nú er það staðreynd að hann fékk dóm fyrir að taka sér fé eða hluti ófrjálsri hendi. Slíkt kuð víst vera kallaður þjófnaður á mannamáli. En Árni hefur hamast við að vera borubrattur, sýna enga iðrun og kallaði hæsta rétt á opinberum vettvangi aula fyrir það hvernig hæstiréttur dæmdi hann.
Fyrir nokkrum árum, haustið 2003, vorum við tveir félagar og vinir að fara í gegnum gömul segulbönd með upptökum frá Vísnakvöldum sem haldin voru að Hótel Borg. Sem við erum að hlusta á upptöku frá Vísnakvöldi frá því í september 1979 rak okkur í roga stans. En þar mælti Ási í bæ fyrir nær fullum Gyltasalnum af áheyrendum:
Krakkar mínir. Eins og við öll vitum þá er Árni Johnsen fæddur glæpamaður. Við vinirnir sátum hljóðir nokkra stund yfir orðum Ása heitins í Bæ. Þegar þessi orð féllu var ekki búið að dæma Árna fyrir neinar sakir.
Nú kuð Árni ætla að lögsækja Agnesi Bragadóttur fyrir orð hennar á Bylgjunni. En hvað skyldi Árni hugsa þegar hann veit um orð þessa gamla kunningja síns úr Eyjum sem hann mælti við áheyrendur sína á Hótel Borg fyrir rúmum þrjátíu árum eða um aldarfjórðungi áður en ósköpin dundu á Árna? Ætlar hann að fá hann látinn mannin sviptan ærunni?
Dægurmál | Breytt 9.8.2008 kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2008 | 18:05
öryggi gangenda í henni Reykjavík
Sá sem sýndi þennan búnað var sænskur og virtist þaulhugsað hvernig svona búnaður væri sem best nýtanlegur.
Ég hef af og til spurst fyrir um hvað líði því að setja upp hljóðvita á umferðarljós borgarinnar en fremur dræm svör fengið.
Nú er það svo að umferðarljós og gangbrautarljós eru víða um borgina. Sum hljóðmerkt, sérstaklega gangbrautarljós, en umferðarljósin eru teljandi sem eru með slíka hljóðvita.
Fyrir mörgum árum voru hljóðvitar á umferðarljósum algengir en líklega hafa þeir gengið úr sér og lítið verið haldið við.
Þegar dregur nær gamla miðbænum eru umferðarljós til hreinnar fyrirmyndar hvað varðar það hversu ljósin sjást vel. Hljóðvitar eru nær engir nema kannski hjá Tryggingastofnun á horni Laugavegar og Snorrabrautar. En þegar gengið er svo að dæmi sé tekið, um austurhluta borgarinnar, t. d. Háaleitishverfið er mörgum ljósum þannig háttað að við viss birtuskilyrði sjást þau varla. Þetta skapar mikið óöryggi gangenda í umferðinni og það er fyrst og fremst að þakka mörgum þeim sem eru fyrirmyndar ökumenn að ekki skuli hljótast fleyri slys af en raun ber vitni.
Þegar ég geng yfir horn Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar sem er eitt svakalegasta horn bæjarins að mínu mati velti ég fyrir mér hvort ég muni lifa af gönguferðina yfir þessar götur.
Annað rosalegt horn er aðeins sunnar. Það eru gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það horn er nokkuð vel hljóðmerkt, enda hús Blindrafélagsins skammt undan og um að gera að hafa allt í toppstandi þar svo að fólk álykti að allt sé í góðu lagi hvað þessi mál varðar annars staðar í borginni.
Þegar sólin er lágt á lofti eða þegar hún rís í austri og morgungyðjan þeysist um á gullvagni sínum eru birtuskilyrðin þannig að maður tekur hreinlega sjensinn á gatnamótum einsog t. d. Háaleitisbrautar og Mringlumýarbrautar eða Nóatúns og Laugavegar þótt Fíladelfíusöfnuðurinn sé skammt undan með aðalstöðvar sínar. .
Nú hefur minnihluti meirihlutans sem er við völd í borginni stært sig af því að hafa hag fatlaðra í fyrirrúmi. Hann hefur svo sannarlega gert það á margan hátt og boðað t. d. ókeypis í strætó, en samt mega hundar ekki fara í strætó af því að hann sjálfur sem er borgarstjóri fer aldrei í strætó og veit ekki hvað það er að fara í strætó. Það væri verðugt verkefni að koma hljóðvitum á öll umferðar og göngubrautarljós í borginni og gera slíkan búnað að staðalbúnaði slíkra ljósa. þetta myndi hvetja marga til þess að nýta sér að ganga eða ferðast um á annan hátt en bíl og nýta sér gangstéttir borgarinnar.
Þá væri full þörf að taka hart á þeim umferðarsóðum sem eru því miður all margir í borginni, en þeir leggja bílum sínum þvers og kruss á gangstjéttum þannig að gangendur þurfa stundum að smokra sér út á götu til þess að ganga ekki í gegnum bílana. þetta væri verðugt verkefni væntanlegs nýs borgarstjóra ef sá sem er nú í því embætti skyldi ekki koma því í verk.
Það skal minnt á í lokin að allt sem fólki með fötlun er gert til góða kemur samfélaginu í heild vel.
Dægurmál | Breytt 10.8.2008 kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2008 | 22:32
Pílagrímsferð á bítlaslóðir
Tilgangur ferðarinnar var að fara á slóðir bítlanna, fara á tónleika í Kavernklúbbnum með Hljómum sem urðu lokahljómleikar þeirra.
Hápunktur ferðarinnar voru tónleikar með Paul McCartney, en þeir voru haldnir á Manfield road leikvanginum í Liverpool.
Ég ætla ekki að lýsa þessari ferð, en segja aðeins að hún var einstök upplifun. Jakob Frímann Magnússon var fararstjóri en FTT, Félag tónskálda og textahöfunda stóð fyrir þessari ferð. Þarna í för voru ýmsir fjölmiðlamenn. Þar á meðal Ólafur Páll Gunnarsson frá Rás 2. Hann gerði ferðinni góð skil í Rokklandinu sínu í dag. Þátturinn er vafalaust á síðu Ríkisútvarpsins og hvet ég alla bítlaaðdáendur til þess að hlusta á þennan stórgóða þátt og upplifa stemninnguna sem var ógleymanleg og einhver sú mesta upplifun sem ég og fleiri urðum vitni að. Þátturinnn verður á síðu útvarpsins næstu tvær vikurnar.
Þegar við ferðalangar flugum heim að kvöldi þess 2. júní sl. var tilkynnt að Hljómar hefðu slegið lokahljóm svinn í Kavernklúbbnum. Það setti óneitanlega mikinn trega að fólki. Allir þeir fjórmenningarnir, Eggert, Erlingur, Gunni og Rúni voru hetjur kvöldsins 31. maí í Kavernklúbbnum. Það verður að segja sem er að Gunni Þórðar gaf frá sér einhvern þann magnaðasta kraft sem ég hef orðið vitni að. Hann gaus einsog eldfjall og smitaði alla í kringum sig. Hljómatónleikarnir voru einstök upplifun ásamt tónleikum Pauls. Þarna hrönnuðust upp alls kyns minningar æskunnar og þeirra daga sem lifaðir hafa verið hér á Jörðu á ýmsan hátt. Ef það verður efnt til svona bítlaferðar aftur ætla ég að reyna að komast með og upplifa bítlaborgina í þriðja sinn.
Dægurmál | Breytt 10.8.2008 kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.6.2008 | 23:39
Höskuldur Kárason minning
Við Höskuldur kynntumst vel um miðjan áttunda áratug liðinnar aldar, en þá var hann sjúkraliði á Dvalarheimili Sjálfsbjargar að Hátúni 12 í Reykjavík. Þar var ég nokkuð tíður gestur á þeim árum. Þegar ég hitti Höskuld fyrst heilsaði hann mér eins og við hefðum þekkst alla ævi og hefðum síðast hisst í gær. Ég tók fljótt eftir því hvað hann var mikill vinur þeirra sem hann umgekkst og gerði allt sem hann gat til þess að leysa úr vanda fólks. Þá var maðurinn með afbrigðum lífsglaður, einstaklega hlýr og gefandi og smitaði út frá sér kátínunni og góðvildinni.
Leikar fóru svo að við Höskuldur urðum góðir vinir og brölluðum margt sem er geymt og alls ekki gleymt. Má t. d. nefna að við fórum ekki ófáar ferðir með Sjálfsbjargarfélögum hingað og þangað og þar lá Höskuldur aldrei á liði sínu ef hann þurfti að aðstoða einhvern.
Það hefur verið líklega árið 1975 sem ég var beðinn um að gera þátt fyrir Ríkisútvarpið sem skyldi fjalla um málefni fatlaðra. Þátturinn var gerður í tilefni alþjóðadags fatlaðra og fluttur ef ég man rétt í september þetta ár. Ég bað Höskuld um að gera þennan þátt með mér og þeir sem til þekktu, forsvarsmenn Sjálfsbjargar í Reykjavík og Sjálfsbjargar landsambands fatlaðra lögðu blessun sína yfir verkið ásamt fleirum.
Við Höskuldur vorum fljótir að átta okkur á efnistökum. Tókum hús á mörgum, ræddum við fjölda fólks og skoðuðum margt. Tókum m. a. út nokkrar byggingar með tilliti til þess hvernig þær hentuðu fötluðu fólki.
Ein þeirra bygginga sem við skoðuðum var stjórnarráðshúsið við Lækjargötu. Á þeim árum höfðu forseti Íslands og forsætisráðherra aðsetur sitt þar. Við gengum upp að stjórnarráðinu og Höskuldur lýsti tröppuganginum við húsið. Svo stóðum við fyrir framan dyrnar að stjórnarráðinu og komumst að því að þær væru svo mjóar að manneskja í hjólastól eða fötluð á einhvern annan hátt gæti ekki orðið forseti lýðveldisins. Eitthvað spurðist þetta tiltæki okkar út og það varð allt vitlaust og menn tóku að sverja af sér þáttinn og ábirgð sína á honum. En við gáfum okkur hvergi og þátturinn var fluttur.
Við vinirnir glöddumst svo innilega yfir öllum símhringingunum sem dundu á okkur og hlógum okkur máttlausa yfir þeim sem skömmuðu okkur.
Fljótlega veitti ég því athygli að Höskuldur var farinn að tala mikið um Vestmannaeyjar. Það dróst svo upp úr honum að hann hafði kynnst henni Leifu sem var þaðan. Leikar fóru svo að árið eftir þennan þátt eða sama ár áttum við leið á Þjóðhátíð og það urðu miklir fagnaðarfundir á Umferðarmiðstöðinni. Ég hafði byrjað eitthvert forskot á Þjóðhátíðina og við Höskuldur nálguðumst hátíðina af hæfilegum krafti. Þegar svo til Þorlákshafnar kom og í borð í Herjólf leið sjóferðin óvenju fljótt og við fréttum síðar að all flestir hefðu verið sjóveikir nema við. En eftir þetta fór Höskuldur varla úr Eyjum enda giftist hann elskunni sinni, eignaðist með henni börn og buru og tók mikinn þátt í félagslífinu þar.
Fráfall Höskuldar bar skyndilega að á laugardaginn 31. maí. Þá var ég staddur á bítlaslóðum í Liverpool og hugsaði til hans og annarrra vina minna. Með Höskuldi Kárasyni er genginn góður drengur og einstakur. Væru slíkir fleiri til þyrftu t. d. fatlaðir ekki að þurfa að heija stöðuga baráttu fyrir jafnrétti og tilverurétti í þjóðfélagi samtímans. Ég sendi Sigurleifu og afkomendum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þess góða drengs Höskuldar Kárasonar.
Dægurmál | Breytt 10.8.2008 kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2007 | 21:33
Um útgáfu hljóðbóka fyrir jólin
Þá hefur Dimma, bókaforlag staðið sig með eindæmum vel í útgáfu hljóðbóka. Hörpuútgáfan var nokkuð öflug á þessu sviði en nú hefur þeirri útgáfu verið hætt, eða hún sameinuð öðru forlagi.
Þá kom Ormstunga skemmtilega inn í þessa útgáfu á þessu ári, en Stefán Sigurkarlsson lyfjafræðingur hefur sent frá sér nokkrar stórgóðar bækur. Má þar nefna Handan við regnbogann, uppvaxtarsögu manns í Reykjavík, sem var uppi á seinni stríðsárunum. Þessa bók las Stefán sjálfur auk bókar, sem heitir Hólmanespistlar og geymir safn smásagna og pistla sem gætu gerst hvar sem er.
Þá hyggst Hið íslenska bókmenntafélag fara út í útgáfu hljóðbóka og alla vega veit ég um tvær bækur. SZadig eftir Woltari er komin út í lestri Hjalta Rögnvaldssonar og von er á Birtingi í þýðingu Halldórs Laxness. Það er skemmtilegt þegar hljóðbókum á almennum markaði fjölgar. Þá verður úrvalið meira og fólk nýtur bókanna á annan hátt en að lesa þær.
Hjá okkur í Hljóðbók.is nefni ég nokkrar bækur.
Auk tveggja útvarpsleikrita, Mæju spæju og Skugga-Sveins kemur Aldingarðurinn eftir Ólaf Jóhann Ólafsson út í snilldar lestri Hallmars Sigurðssonar.
Þá er að koma út bók Jóns Kalmanns Stefánssonar Sumarljós og svo kemur nóttin. Þá bók les Hjalti Rögnvaldsson leikari.
Þá hefur JPV útgáfan hafið útgáfu hljóðbóka og nýtir sér aðstöðu Blindrabókasafns Íslands, þannig að eiginlega má tala um ríkisútgáfu hljóðbóka, séu þessar stofnanir í samvinnu við gerð þeirra. Allt er þetta vel. En það væri full ástæða til þess að hvetja útgefendur til þess að gefa út hljóðbækur samtímis prentuðum bókum. Það eru ómæld menningarverðmæti fólgin í góðum upplestri og ég tala nú ekki um, ef lesararnir eru úr röðum höfundanna sjálfra.
Dægurmál | Breytt 10.8.2008 kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2007 | 16:41
stórmarkaðavæðing íslendinga
Svo að ég kynni mig aðeins, þá er ég ættaður úr Vestmannaeyjum og hef þaðan mjög margt mér til ágætis.
Þar sem ég bý nú er hálfgildings þorp innan Reykjavíkur. Stóri Skerjafjörður. Þar hefur verið starfrækt verslun svo lengi sem elstu menn muna. Þegar ég flutti í hverfið var verslunin blómleg og all oft hefur afgreiðslufólkið sinnt sínum störfum með ágætum. Nú er svo komið að nýlega er búið að loka þessari búð, sem hét Skerjaver. Þetta hefst af stórmarkaðsvæðingu íslenska þjóðfélagsins.
Nú verða allir að eiga bíl með tilheyrandi kostnaði. Nú þurfa flest allir að aka út í búð til þess að ná í nauðsynjar. Hver skyldi sparnaðurinn verða af þessu, lægra vöruverð, en aukin bílaeign.
Dægurmál | Breytt 10.8.2008 kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)