Skaftfellingur ve33 happaskip 100 ára

Skaftfellingur kom til landsins 6. maí 1918. Þetta efni er sett hér til þess að minnast aldarafmælis hans en Skaftfellingur er eina skipið sem eftir er af þeim fjórum skipum sem Íslendingar eignuðust í fyrra stríði.
Arnþór og Sigtryggur Helgasynir gáfu út bækling um Skaftfelling þar sem dreginn var saman mikill fróðleikur um skipið.
Sett saman úr nokkrum viðtölum og útvarpsþætti sem undirritaður gerði árið 1975.
Þátturinn var fluttur 18. júlí 1975 og viðtölin nokkru síðar.
Heildartími efnis: 1 klst. 58 mín.
Lesari var í þættinum Jón Múli Árnason, en hann las upp úr bók eftir Helga Lárusson á Klaustri.

1. Í upphafi þáttar flytur Magnús Þ. Jakobsson sem lengi bjó í Skuld í Vestmannaeyjum kvæði sitt Skaftfellska bjarta bygð.
Einar Erlensson, fyrrum kaupfélagsstjóri í Vík í Mýrdal segir frá samgöngum í Skaftafellssýslum, hugmyndum um að kaupa skip til vöruflutninga. fja´rsöfnun til kaupa á Skaftfellingi.
Páll Kristinn Maríusson, var í nokkur skipti á Skaftfellingi og var síðasti skipstjórinn á honum. Páll Kristinn segir frá ýmsum minningum af Skaftfellingi.

2. Jón Högnason skipstjóri fór til Svenborg í Danmörku að sækja Skaftfelling árið 1917. Hann ásamt fleirum þurfti að bíða eftir skipinu í um eitt og hálft ár þar sem það var ekki tilbúið.
Jón lýsir vel smíði skipsins og siglingunni heim. Skaftfellingur var fyrsta skipið sem Jón sigldi um ævina en þeir komu til Vestmannaeyja að morgni 6. maí 1918. Þess skal getið að meiginhluta leiðarinnar sigldu þeir á seglum einsog Jón orðaði það þar sem mjög erfitt var að fá olíu vegna fyrra stríðsins.

3. Sagt frá vöruflutningum Skaftfellings meðfram ströndinni, Páll Kristinn Maríusson segir frá uppskipun í Vík og Einar Erlendsson segir frá afgreiðslu skipsins. Sagt frá slitum hlutafélagsins sem átti Skaftfelling og kaupum Helga Benediktssonar á Skaftfellingi en þá urðu þáttaskil í sögu skipsins.

4. Andrés Gestsson segir frá siglingum í stríðinu, þ. á. m. samskiptum við bandaríska herinn.

5. Þá segir hann frá því þegar Skaftfellingur undir stjórn Páls Þorbjörnssonar skipstjóra bjargaði heilli skipshöfn af þýskum kafbáti árið 1942.

6. Frásögn Andrésar Gestssonar frá því þegar Skaftfellingur kom að línuveiðaranum Fróða skömmu eftir að gerð hafði verið árás á hann.
Skaftfellingur bjargaðist með undraverðum hætti enda átti hann það til að taka til sinna eigin ráða.

7. Einar Sveinn Jóhannsson sem var lengi skipstjóri á Lóðsinum varð skipstjóri á Skafta upp úr 1950, segir frá skipstjórn sinni á honum og taldi að hulinn verndarvættur væri um borð enda hlekktist Skaftfellingi aldrei á. Allir viðmælendur mínir höfðu slíkt á orði og dásömuðu Skaftfelling mjög.

8. Í lokin rekur Páll Kristinn Maríusson síðasti skipstjórinn á Skaftfellingi minningar sínar og segir frá síðasta túrnum á Skaftfellingi sem hefur líklega verið farinn um haustið 1962. en Skaftfellingur kom úr túrnum í ágúst það ár. Ég man þann dag vel þegar hann lagðist að bryggju í Friðarhöfn.
Fljótlega eftir það var honum lagt í Friðarhöfn og síðar árið 1963 um haustið settur í slipp í Vestmannaeyjum þar sem hann kúrði lengi. Endir þáttarins er dramatískur og hreyfði við mörgum sjómanninum þegar þátturinn var fluttur á sínum tíma.
Erfingjar Helga Benediktssonar athafnamanns í Vestmannaeyjum gáfu Sigrúnu Jónsdóttur listakonu Skaftfelling en hún vildi flytja það austur til Víkur í Mýrdal og varðveita hann þar. Það skilyrði fylgdi að Skaftfellingur skyldi fluttur og eigendur Slippsins gáfu eftir slippgjöldin af honum.
Ég minnist samtals föður míns í síma við einhvern og heyrði hann segja að ef Víkurbúar vildu gera Skaftfellingi eitthvað til góða og sýna honum sóma mættu ´þeir hirða hann. Hann lagði mikið á sig til þess að reyna að koma Skaftfellingi þangað þar sem h ann gæti nýst eða honum sómi sýndur.
Þegar Skaftfellingur var settur í slippinn skáhalt á móti Wosbúð og vestan við Eyjabúð og olíuportið sem var, var gengið vel frá honum eftir því sem menn höfðu vit á. En kannski voru verstu mistökin að slá´ekki úr honum hampinn.
Hann var tjargaður og málaður og hefur kannski verið klár til sjóferðar sem aldrei var farin. Síðar kom gos á Heimaey og Skaftfellingur leið mjög fyrir þær hamfarir og tímans tönn.
Gísli Helgason.

Meira efni um Skaftfelling:

https://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1022012/

Um Skaftfelling ve33 má lesa á eftirfarandi vef:
http://www.heimaslod.is/index.php/Skaftfellingur_VE-33

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sveitin milli sanda

Lag Magnúsar Blöndal Jóhannssonar Sveitin milli sanda hefur fylgt mér alveg frá því ég heyrði það fyrst 12 til 13 ára gamall. Það er hrein dásemd og fær mann til þess að líða óendanlega vel. Ég var svo heppinn að Labbi, Ólafur Þórarinsson löngum kenndur við hljómsveitirnar Mána og Karma útsetti það hér um árið og það kom út á diskinum mínum "Dagur" hér um árið.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smáforritið Be my eyes

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimsókn á Kópavogshæli - útvarpsþáttur 18. júlí 1974

Árið 1974 gerðum við Andrea Þórðardóttir útvarpsþátt, þar sem við fórum í heimsókn á Kópavogshælið og reyndum að birta mynd af því. Ræddum við stjórnendur og heimilisfólk ásamt nokkrum ungum þroskaþjálfum. Þessi þáttur vakti mikla athygli og hörð viðbrögð á báða bóga. Hann fylgir hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Afmælistónleikar til heiðurs syr Paul McCartney á mánudagskvöldið 18. júní í Eldborgarsal Hörpu


http://midi.is/tonleikar/15/253/

Er ég ofurviðkvæmur eða hvað?

Í gær var ég svo ljón heppinn að fara upp að Korpúlfsstöðum, en þar voru myndlistarmenn með opnar vinnustofur sínar.
Við í hljómsveitinni Hugsjónafólkið eða The Vissionaries spiluðum á hlöðulofti Thors Jensens. Þar er himinhátt til lofts og vítt til veggja. Hljómburðurinn undursamlegur.
Margt hef ég heyrt um stórhug Thors, en þvílíkar byggingar sem eru þarna upp frá. Thor var á sinni tíð ekki réttur maður í pólitíkinni á stundum enda tókst bændaliðinu að koma í veg fyrir að áform hans um stórbúskap næðu fram að ganga á Korpúlfsstöðum.
En byggingarnar bera vott um þann stórhug sem þar var að baki.
Það komu ýmsir að hlusta á okkur og takk fyrir það. Þar á meðal einn maður sem ég á að kannast við en gleymi alltaf jafn óðum hver er.
Þegar Halldór Rafnar komst til áhrifa í Blindrafélaginu fyrir um fjórum áratugum hóf hann mikinn áróður fyri því að láta ekki blint eða sjóndapurt fólk geta upp á því hver viðmælandi þess væri, heldur lagði áherslu á að menn kynntu sig. Þannig er það meðal allra siðmenntaðra þjóða.
Flestir hafa tekið þessu vel, en einn og einn eins og þessi alls ekki óleiðinlegi maður virðist fá eitthvað út úr því að særa þá sem ekki þekkja viðmælendur á andlitum. Leitt fyrir eitt bæjarfélag og heilt landshorn að hafa svona mann.
En veðrirð var fagurt í gær, hljómburðurinn frábær og við í stuði.
Það er alveg ótrúleg gróska sem er í starfi myndlistarfólks á Korpúlfsstöðum og mannbætandi að leggja leið sína þangað.
Takk fyrir mig og takk fyrir að mæta á tónleika The Vissionaries.

Sönghópur Átvr með tónleika 12. maí næst komanda. Tileinka höfundi þessarar síðu fyrri hluta tónleikanna


Vinir mínir í Sönghópi Átvr hafa sýnt mér þá einstöku vinsemd og heiður að tileinka mér fyrri hluta tónleika sem haldni verða 12. maí næst komanda.
Set fréttatilkynninguna hér fyrir neðan.
Sönghópur ÁtVR heldur tónleika í Reykjavík 12. maí.
Fyrri hluti tónleikanna tileinkaður Gísla Helgasyni í tilefni 60 ára afmælis hans 5. apríl sl.

Sönghópur Átthagafélags Vestmannaeyinga á Reykjavíkursvæðinu (ÁtVR) heldur tónleika í kirkju Óháða safnaðarins við Háteigsveg í Reykjavík, laugardaginn 12. maí kl. 15. Á efnisskránni eru Eyjalög og textar.
Stjórnandi er Hafsteinn G. Guðfinnsson.
Miðasala er við innganginn en aðgangseyrir er kr. 2000 og eru allir hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Þetta er í þriðja skiptið sem Sönghópurinn heldur vortónleika. Að þessu sinni leikur fimm manna hljómsveit með hópnum, (Föruneyti G. H.,
Árni Áskelsson á slagverk, Ársæll Másson á gítar, Gísli Helgason á blokkflautur, munnhörpur og fleira, Þórólfur Guðnason á bassa og Hafsteinn Guðfinnsson á gítar.

Í þetta sinn verður fyrri hluti tónleikanna tileinkaður lögum Gísla Helgasonar blokkflautuskálds og lagasmiðs í tilefni þess að hann varð nýlega 60 ára en Gísli er í sönghópnum.
Á seinni hluta tónleikanna verða flutt lög og textar úr Eyjum eftir ýmsa höfunda þar á meðal Oddgeir Kristjánsson. Upplýsingar um tónleikana eru á heimasíðu Átthagafélagsins: http://atvreyjar.123.is/

Sönghópurinn hefur verið starfandi í sjö ár og eru félagar um fjörtíu talsins. Æft er reglulega yfir vetrartímann í Kiwanishúsinu í Kópavogi. Með hópnum starfa þrír hljóðfæraleikarar að staðaldri. Aðalverkefni hópsins er að halda á loft lögum og textum úr Vestmannaeyjum en þar er af nógu að taka. Hópurinn hefur sungið víða á Reykjavíkursvæðinu síðustu árin við ýmis tilefni, haldið tónleika í Vestmanneyjum og Reykjavík og einu sinni farið í söngferð erlendis. Sönghópurinn hefur gefið út einn geisladisk með 15 lögum sem heitir â€œÍ æsku minnar spor” og hefur honum verið vel tekið. Diskurinn verður til sölu á tónleikunum.

Félagar í Sönghóp ÁtVR vonast til að sjá sem flesta, sem áhuga hafa á sönglist úr Vestmannaeyjum, á tónleikunum í kirkju Óháða safnaðarins þann 12. maí kl. 15.


Er velferðarráðherrann fallinn á prófinu?

Því miður virðist sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks léttvægur fundinn af úrskurðarnefnd í Velferðarráðuneytinu 20.5.2011 Yfirlýsing frá stjórn Blindrafélagsins í tiilefni úrskurðar úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í stjórnsýslukæru um ferðaþjónustu fyrir blindan einstakling hjá Kópavogsbæ. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála kvað þann 13. maí s.l. upp úrskurð sinn í máli nr. 1/2011. Í málinu var tekist á um rétt blinds einstaklings til að fá ferðaþjónustu frá Kópavogsbæ. Ágreiningur var á milli aðila um það hvort slík þjónusta þyrfti að taka mið af þörfum hans og miða að því að gera hann eins settan og ófatlaðan einstakling í sömu eða sambærilegri stöðu eða hvort það væri fullnægjandi að veita almenna þjónustu sem ekki næði því markmiði. Einnig var um það deilt hvort rannsóknarskylda hvíldi á Kópavogsbæ þannig að nauðsynlegt væri fyrir bæjarfélagið að meta þarfir hvers einstaklings og getu til þátttöku í samfélaginu. Í málinu reyndi einnig í fyrsta sinn á nýtt ákvæði laga um málefni fatlaðra þess efnis að við framkvæmd laganna skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Taldi kærandi málsins að það ákvæði leiddi til þess að m.a. ætti að horfa til 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra þar sem fjallað er um ferlimál einstaklinga, en þar kemur fram: að Aðildarríkin skuli gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðra í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því: a) að greiða fyrir því að fatlaðir geti farið allra sinnaferða með þeim hætti sem, og þegar, þeim hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi, Skemmt er frá því að segja að Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála staðfesti þann úrskurð Kópavogsbæjar að ekki þyrfti að huga að markmiðum laganna þess efnis að gera fötluðu fólki kleift að stunda atvinnu, nám og tómstundir með sambærilegum hætti og ófatlaðir. Þá var ekki fundið að því að Kópavogsbær kynnti sér hvorki þarfir kæranda né getu hans til að lifa eðlilegu lífi. Þá var ekkert tillit tekið til þeirra sjónarmiða sem koma fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Blindrafélagið telur þessa niðurstöðu bersýnilega ranga og óviðunandi með hliðsjón af mannréttindum fatlaðra. Þá telur félagið það ótækt að mál er varða réttindi fatlaðra fái aðra og óvandaðri stjórnsýslumeðferð en lög kveða á um. Félagið vinnur því að því að leggja fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna málsins. Niðurstaða þessa máls er sár vonbrigði fyrir þá sem bundið höfðu vonir við að innleiðing Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks myndi hafa í för með sér breytingar á stjórnsýslumeðferð málefna fatlaðra. Þá er einnig ljóst að loforð um að jafnræði skyldi vera meðal fatlaðra eftir að málefni þeirra voru flutt til sveitarfélaganna reyndust innihaldslaus. Þannig virtist ótti stjórnar Öryrkjabandalgsins umdir forystu Garðars Sverrissonar um yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna á rökum reistur. Þessi niðurstaða er dapurleg niðurstaða fyrir þann ágæta mann, Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og gera orð hans og yfirlýsingar marklausar eð öllu.

Um rafbækur og margt fleira skemmtilegt

Fyrir ör stuttu barst mér bráðskemmtilegur pistill eftir Birki Rúnar Gunnarsson. Hann fjallar um rafbækur og margt fleira skemmtilegt. Birkir starfar m. a. sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins og vinnur einnig að tölvumálum á Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, og daufblinda einstaklinga. Pistilinn má einnig skoða á www.midstod.is Njótið velkemur hér fyrst tæknimoli um rafbækur, og síðan tæknimoli um andlát Symbian stýrikerfisins, njótið vel og lifið heil (enda erfitt að lifa öðru vísi). -Birkir ------------------------------- Það er ekki allt á rafbókina lært, hver er framtíð bókarinnar? Ég var svo heppinn að fá að sækja eina helstu árlegu ráðstefnu um bækur og bókaútgáfu sem haldin var í síðustu viku í New York borg. Ráðstefnan nefnist O'Reilly Tools of Change og heimasíða hennar er www.toccon.com. Hátt í 800 manns frá 33 löndum sóttu ráðstefnuna og voru þar staddir fulltrúar frá öllum helstu bókaútgefendum veraldar. Sem gefur að skilja var framtíð bókarinnar eitt helsta umræðuefnið, og kastljósinu var beint að ýmsum kostum, göllum og vandamálum rafbókabyltingarinnar þ.á m. aðgengi. Það er svo sannarlega ekkert leyndarmál að draumur blindra notenda, og annarra sem ekki geta lesið venjulegan texta, er einfaldlega sá að geta keypt sér bók og farið að lesa hana, án þess að bíða eftir því að aðrir skanni bókina, lesi hana inn eða þurfi að gera aðrar kúnstir svo viðkomandi geti nýtt sér hana. Þetta hefur verið svo til óraunhæfur draumur meðan pappírsbókin hefur verið ráðandi, en nú, þegar bækur eru í auknum mæli að færast yfir á rafrænt form og breytast, er engin ástæða til þess að aðgengi allra sé ekki betur tryggt en gengur og gerist í dag. Sala rafbóka hefur aukist um nær 200% milli ára í Bandaríkjunum meðan stórar bókabúðakeðjur eins og Borders hafa orðið gjaldþrota, og bendir þetta allt til þess að prentbókin, eins og við eigum að venjast henni, sé að líða undir lok en enn er ekki alveg ljóst hvað kemur í staðinn. Ýmsar nýungar og hugmyndir voru kyntar á TOC-ráðstefnunni, t.d. bækur sem forrit á iPhone-símum, rafbækur þar sem staðanöfn breytast eftir því hvar notandinn er staddur, bækur sem breyta söguþræðinum eftir því í hvernig skapi lesandinn er (flest lestrartæki eru nú með myndavélar og geta skynjað andlitssvip lesanda), lestrartæki sem gera notanda kleift að setja setningar og tilvitnanir beint á samskiptavefi eins og Facebook og Twitter, eða tæki sem leyfa notanda að setja leslistann sinn beint inn á slíka vefi og tæki sem senda framleiðanda upplýsingar um hvenær og hvar notendur lesa bækur o.s.frv. Flest af þessu er nú þegar á tilraunastigi, sumt líklegra í náinni framtíð en annað, en það er greinilegt að bókin er að breytast og pappírsbókin eins og við þekkjum hana í dag mun ekki verða ráðandi miðill eftir nokkur ár. Það sem kemur okkur kannski einna helst við eru aðgengismál að bókum framtíðarinnar. Ekki er hægt að fjalla um aðgengi að rafbókum án þess að minnast á blindan herramann, George Kerscher að nafni. Hann er aðalritari Daisy-stofnunarinnar (ég veit ekki hvort um kommúnistastofnun er að ræða, en titillinn er þó "secretary general" sem getur ekki útlagst á annan hátt en aðalritari). George er jafnframt forseti Alþjóðlegs félags stafrænna útgefenda (International Digital Publishing Forum, IDPF). Stofnunin ber ábyrgð á stöðlun rafbóka í gegnum ePub-staðalinn en hann er skrásnið sem langflestir útgefendur nota til að framleiða rafbækur (með nokkrum undantekningum þó, t.d. Amazon). Hugsa má um ePub sem eins konar html-staðal sem geymir allar upplýsingar um rafbókina og úr honum má gera skrár sem hægt er að spila á flestum eða öllum lestækjum sem notendur geta keypt og notað til að hlaða niður bókum. Amazon, sem notar annað skrásnið, þarf að breyta bókum sem þeir fá úr ePub-staðlinum yfir á sitt eigið skráasnið áður en bækurnar spilast á Kindle-tækjunum. Þriðja útgáfa ePub-staðalsins, ePub 3,0, er á leiðinni (fyrsti uppdráttur var formlega settur á vefinn www.idpf.org þann 15. febrúar og opinberrar útgáfu staðalsins er að vænta um miðjan maímánuð). Það merkilegasta við þessa útgáfu er að fyrir tilstilli George Kerscher og annarra er gert ráð fyrir aðgengi fyrir skjálesara og önnur hjálparforrit að öllu efni og upplýsingum sem geymdar eru í ePub 3 bókum, og er áætlað að staðallinn taki við af Daisy eftir Daisy-útgáfu fjögur, sem kemur út nú í apríl. Þannig ættu rafbækur framtíðarinnar að vera jafn aðgengilegar og Daisy-bækur eru í dag, jafnvel strax undir lok þessa árs þó vissulega muni taka tíma fyrir útgefendur að færa sína framleiðslu yfir í nýja staðalinn. Bresku blindrasamtökin fylgjast einnig spennt með þróun mála og taka þátt í þróuninni, þá sérstaklega maður að nafni David Gunn, en ég hitti bæði hann og George Kerscher á ráðstefnunni. Það eru vissulega enn mörg ljón í veginum. Útgefendur hafa áhyggjur af þjófnaði og ólöglegu niðurhali rafbóka og loka oft á aðgang að efni þeirra, sem gerir skjálestrarforritum nær ókleift að lesa skrárnar. Þó ePub 3 staðallinn sjálfur geri ráð fyrir aðgengi þarf aðgengi einnig að vera til staðar á lestækjum sem bækur eru gefnar út á t.d. Amazon Kindle tækinu, iPhone- og iPad-símum (svokallað iBooks-form), Nook-tækinu frá Barnes and Noble, Digital Edition frá Adobe og fleirum. Flest þessara tækja keyra ekki Windows-stýrikerfið og því þarf að finna lausnir til að hægt sé að nota þau með tali og punktaletri, stækkuðu letri, undirstrikun o.s.frv. Les- og skrifréttindasamtök Bandaríkjanna (the Reading Rights Coalition) eru í mikilli áróðursherferð um þessi mál. Þau náðu að koma í veg fyrir að óaðgengilegir rafbókalesarar væru notaðir eingöngu í vissum háskólum og kúrsum í tilraunaskyni Lesa má um herferð samtakanna gegn Amazon Kindle á þessari síðu: http://www.readingrights.org/kindle-tts-issue Hluti baráttunnar snýst einnig um eignarrétt og höfundarétt bóka, en höfundasamtök vestanhafs halda því fram að ekki megi gera hljóðbók úr rituðu máli án þess að greiða þurfi höfundum aukalega fyrir það. Höfundar hafa farið varhluta af rafbókabyltingunni og fá minna í sinn hlut þegar um rafbækur er að ræða en af sölu almennra bóka, svo það er í sjálfu sér skiljanlegt að þeir hafi áhyggjur og berjist fyrir sínu. Einnig má nefna, þó ekki verði farið nánar út í það hér, hugmyndir og verkefni sem samtök og háskólar hafa hleypt af stokkunum um að gera ókeypis "open source" námsbækur sem nemendur geti notað að vild án endurgjalds. Þetta virkar einstaklega vel í klassísku námi, svo sem stærðfræði, sögu o.s.frv. Þetta kallast Open Educational Resources, eða OER á ensku og hefur Minnesota-fylki í Bandaríkjunum t.d. sett fjármagn í að búa til fjölda slíkra bóka sem nota á í fylkisháskólunum. Aðgengi rafbóka er einnig mál sem er að öðlast athygli í Evrópu og stór samtök á borð við bresku blindrasamtökin eru farin að láta til sín taka hvað varðar aðgengi félagsmanna að rafbókum og ritefni almennt. Í lokin má því segja að rafræn dreifing bóka, stöðlun í því sambandi, batnandi gæði talgervla ásamt aukinni samvinnu og auknum skilningi milli blindrasamtaka og útgefenda séu að bjóða upp á ný tækifæri fyrir blinda, sjónskerta og lesblinda notendur. Kannski eru einungis nokkur ár þar til blindir og sjónskertir einstaklingar geti loksins farið að kaupa sér bækur eins og aðrir, prentað þær út, lesið, sett á samskiptavefi og jafnvel fengið söguþræðinum breytt þegar þeir eru pirraðir. Þeir sem vilja skoða meira geta skoðað heimasíðu Tools of Change ráðstefnunnar á slóðinni http://www.toccon.com en þar má horfa á myndbandsupptökur og lesa yfir glærur frá mörgum helstu fyrirlestrum þ.á m. frá George Kerscher og Jim Fruchterman, en hann er forseti Bookshare sem er ein helsta Daisy-bókagerð Bandaríkjanna með hátt í 100.000 titla. Lesa má um Reading Rights Coalition hér: http://www.readingrights.org/ Lesa má fyrsta uppdrátt af ePub 3 staðli fyrir rafbækur hér: http://www.idpf.org Lesa má um aukna samvinnu Daisy og EDItEUR samtaka útgefenda hér: http://www.editeur.org/109/Enabling-Technologies-Framework/ --------------------------------------------------------- Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma. Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma. 11. febrúar síðastliðinn tilkynntu Nokia og Microsoft um stóraukna samvinnu á sviði farsíma. Windows Phone 7 stýrikerfið verður notað á símum frá Nokia í framtíðinni og Microsoft Market Place verður gert að miðstöð fyrir öll forrit sem hægt er að kaupa fyrir þessa síma. Úr tilkynningunni má lesa að Symbian-stýrikerfið, sem Nokia hefur notað í flesta sína síma á síðustu árum, sé liðið undir lok og á leið út úr hugbúnaðarheiminum. Þessi tilkynning kemur fáum sérfræðingum á óvart og búið var að spá þessari þróun strax á árinu 2009. Nokia hefur ekki tekist að gera símana sína spennandi og Apple og Google hafa tekið upp æ stærri hluta, bæði af símamarkaðnum og markaði fyrir forrit, leiki og annan hugbúnað, en stutt er síðan fjöldi forrita sem sótt voru í gegnum iTunes-vefsíðna náði 10 milljörðum. Bæði Nokia og Microsoft hefur mistekist allhrapalega að ná athygli fjöldans og því er eðlilegt að þessi tvö fyrirtæki sameinist og samnýti þekkingu og krafta sína, þekkingu Nokia á símum og þekkingu Microsoft á auglýsingum, leit og hugbúnaði. Eins og við fjölluðum um nýlega er frammistaða Microsoft hvað varðar aðgengi að Windows Phone 7 til háborinnar skammar og eru þetta því, a.m.k. í fljótu bragði, ekki góðar fréttir fyrir aðgengi blindra notenda að farsímum, en á móti kemur að CodeFactory, framleiðandi MobileSpeak, er þegar farið að gefa til kynna að áhersla verði lögð á Android-stýrikerfið og aðgengi að því og má búast við að annaðhvort komi góðar aðgengislausnir fyrir Android á markaðinn, eða Microsoft taki sig saman í andlitinu og standi sig í aðgengismálum eins og Apple hefur sýnt og sannað að hægt sé að gera. Þeim sem njóta þess að halda tólum frá Nokia í hendi sér vottum við samúð okkar og bendum á að hugbúnaðarskipti geta tekið nokkra mánuði og jafnvel nokkur ár, svo óþarfi er að henda símunum í ruslið alveg strax. En við vonumst til þess að aukin samkeppni milli færri framleiðenda leiði til betra aðgengis fyrir alla og að þessi frétt reynist jákvæð þegar til lengri tíma er litið þó vissulega valdi þetta ákveðnum áhyggjum. Meira má lesa um tilkynningu Nokia og Microsoft hér: http://www.intomobile.com/2011/02/11/nokia-and-microsoft-announce-partnership-to-bring-windows-phone-to-nokia-handsets/ Lesa má grein frá 2009 um vandræði Nokia hér: http://www.mobileindustryreview.com/2009/10/the-future-is-dire-for-nokia-symbian-applications-dead-by-2012.html _______________________________________________ Blindlist mailing list Blindlist@listar.ismennt.is http://listar.ismennt.is/mailman/listinfo/blindlist

Guðfinna Gyða Guðmundsdóttir tækniteiknari, Ninna - minning

Í gær var hringt til mín og sagt að hún Ninna hefði dáið mánudaginn 21. febrúar. Ninna starfaði alla tíð sem tækniteiknari og var mjög fær á því sviði.
Þegar ég var í þriðja bekk í M. R., ásamt tvíburabróður mínum, var eitt af þeim vandamálum sem þurfti að glýma við stærðfræði, flatarmálsfræðin.
Rósa Guðmundsdóttir, einn stofnenda Blindrafélagsins, systir Ninnu, bað hana að búa til upphleyptar myndir hand okkur tvíburum. Ninna gerði það og eftir það tókust góð kynni með okkur.
Ekki hittumst við oft, en samfundirnir og spjallið varð alltaf jafn innilegt og skemmtilegt. Ninna er einhver sú jákvæðasta og fordómalausasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún átti létt með að setja sig í spor annarra og gat séð spaugilegar hliðar á há alvarlegum málum.
Fyrir réttu ári, um það bil sem hún varð 85 ára, tók ég viðtal við hana fyrir hljóðtímarit Blindrafélagsins, Valdar greinar. Þar sagði Ninna frá æsku sinni og Rósu systur hennar, en þær voru alla tíð nánar og handgengnar hvor annarri. Ninna lýsir því á lifandi hátt hvernig þær gerðu margt saman, fóru í erfiðar gönguferðir og allt eftir því.
Í lok viðtalsins heyrist upptaka þar sem Rósa Guðmundsdóttir raular frumsamin brag um stofnun Blindrafélagsins. Braginn flutti hún á 40 ára afmælishófi félagsins, 19. ágúst 1979. Arnþór Helgason hljóðritaði.

Ég læt viðtalið við hana Ninnu, ásamt söng Rósu systur hennar fylgja hér og minnist þessarar góðu vinkonu minnar með hlýju og virðingu.
Rétt fyrir jólin síðustu hittumst við og þá sagði hún mér að hún ætti kannski hámark fimm mánuði ólfifaða. Mánuðirnir hérna megin urðu aðeins færri. Hún er nú horfin til annars heims og stendur vafalaust við það loforð sem hún gaf mér að svífa um sem léttfleygur engill og gæta að vinum sínum hérna megin.
Ég er viss um að við komu hennar mun glaðværðin í himnaskaranum aukast um 85% og Ninna mun smita glaðværð sinni og góðvild til allra.
Blessuð sé minningin um hana Ninnu.
Útförin fer fram frá Langholtskirkju fimmtudaginn 3. mars kl. 13.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband