19.2.2011 | 21:45
Hljóðleiðsögn í strætó í Reykjavík - frábært?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2010 | 07:44
Kosningar til stjórnlagaþings ólögmætar vegna mismununar þjóðfélagshópa
Í gær var dóms og mannréttindamálaráðherra, Ögmundi Jónassyni sent meðfylgjandi bréf, en í kosningum til stjórnlagaþings er hvergi gert ráð fyrir að blint eða sjónskert fólk geti notið kosningaréttar síns eins og lög mæla fyrir um. (Sjá heimasíðu Blindrafélagsins www.blind.is).
Bréfið frá lögmannsstofu Ragnars kemur hér.
Furðulegt er að enginn frá íslenskum fjölmiðlum hefur spurt Ögmund út í þetta.
Ögmundur Jónasson
Dóms- og mannréttindaráðuneytinu
Skuggasundi
150 Reykjavík
Reykjavík, 23. nóvember 2010
ÁRÍÐANDI
Efni: Framkvæmd kynningar á frambjóðendum til stjórnlagaþings og fyrirhuguð framkvæmd á kosningum til stjórnlagaþings
Til undirritaðs hafa leitað Gísli Helgason, kt. 050452-2399, Bauganesi 35, Reykjavík, Halldór Sævar Guðbergsson, kt. 110271-4179, Hólatún 24, Akureyri, Ágústa Gunnarsdóttir, kt. 120667-4839, Stigahlíð 43, Reykjavík, Friðgeir F. Jóhannesson, kt. 150847-2739, Yrsufelli 4, Reykjavík og Bergvin Oddsson, kt. 160486-2959, Skarðshlíð 6a, Reykjavík.
Þegar í upphafi bréfs þessa skal tekið fram að umbj.m. eru allir blindir eða sjónskertir. Hafa þeir falið mér að gæta hagsmuna sinna, þar sem þeir telja sig ekki sitja við sama borð og ófatlaðir einstaklingar þegar kemur að kynningu frambjóðenda, aðdraganda og fyrirhugaðri tilhögun á kosningum til stjórnlagaþings, sem fara munu fram 27. nóvember næstkomandi.
I. Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings
Dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur tekið að sér kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings, jafnt með rafrænum hætti á vefnum kosning.is og með útgáfu prentaðs kynningarbæklings sem sendur var á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember 2010. Sú lágmarkskynning sem hefur átt sér stað á vegum dóms- og mannréttindaráðuneytisins hefur þó ekki náð til allra kjósenda til stjórnlagaþings, nánar tiltekið til blindra og sjónskertra.
Samkvæmt 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er íslenska ríkið skuldbundið til þess að halda frjálsar kosningar og gæta þess að þær fari fram við aðstæður er tryggja að almenningur hafi tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á frambjóðendum með frjálsum hætti. Grundvallarforsenda þess að maður fái notið raunverulegs kosningaréttar er að hann hafi fullnægjandi tækifæri til á að kynna sér þá kosti sem bjóðast í kosningum og stefnumál frambjóðenda. Sé kjósendum torvelt eða ekki gert unnt að kynna sér upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra missa framangreind ákvæði alþjóðasamninga á sviði mannréttinda efnislegt inntak sitt.
Við framkvæmd á kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings ber að virða þá sjálfsögðu lýðræðisreglu, að öllum landsmönnum sé gert kleift að eiga aðgang að fá sér kynnt þá frambjóðendur sem í boði eru til þingsins. Taki ríkið eða stofnanir þess að sér það hlutverk að kynna kjósendum frambjóðendur og málefni þeirra í þágu frjálsra og lýðræðislegra kosninga, ber að gæta þess að slík kynning fari fram án manngreinarálits í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Umbj.m. gera þá kröfu að kynningarefni vegna framboðs til stjórnlagaþings verði gert þeim aðgengilegt með útgáfu þess á hljóðupptöku eða með útgáfu á Braillé-blindraletri. Ákvörðun ráðuneytisins um tilhögun við útgáfu kynningarefnis felur í sér að blindir og sjónskertir kjósendur sitja þar ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Sú tilhögun við útgáfu kynningarefnis, sem umbj.m. óska eftir er tæknilega vel framkvæmanleg. Varðar þetta mikilvæg réttindi, þ.e. þá kröfu að blindir og sjónskertir njóti á sama hátt og aðrir þeirrar þjónustu ríkisins, sem ætluð er til að auðvelda kjósendum val milli framboða í kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember næstkomandi.
II. Fyrirhuguð framkvæmd á kosningum til stjórnlagaþings
Það er grundvallarregla allra lýðræðisríkja að menn fái notið kosningaréttar síns við frjálsa kosningu og að þeir fái á kjörstað notið réttinda sinna til að kjósa fulltrúa sína með leynilegri kosningu, sbr. 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til þess að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri kosningu, sbr. 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eru réttindi þessi forsenda þess að blindum og sjónskertum sé unnt að taka þátt í því virka og lýðræðislega stjórnarfari sem lögð er áhersla á hér á landi og í þeim ríkjum sem íslenska ríkið vill einna helst bera sig saman við.
Mikilvægi þess að allir menn fái notið réttar til að kjósa fulltrúa sinna leynilegri kosningu er gætt í lögum nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis. Þar er sérstaklega gætt að nefndum réttindum blindra og sjónskertra þannig að þeim skuli gefinn kostur á að kjósa í einrúmi og án aðstoðar, sbr. 2. mgr. 81. gr. laganna. Í venjulegum kosningum hefur sérstökum óskum blindra og sjónskertra því verið mætt á þann veg að útbúin eru sérstök blindraspjöld á borði í kjörklefanum, þannig að þeir sem kunna Braillé-blindraletrið geti sjálfir og einir síns liðs í kjörklefanum merkt við þann listabókstaf eða þann einstakling sem þeir greiða atkvæði sitt.
Ekki er gert ráð fyrir slíkri aðstöðu við kosningar til stjórnlagaþings. Vekur sérstaka athygli að hvergi er vikið að réttindum blindra og sjónskertra í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing. Hafa verið færð fyrir því þau rök að ekki sé unnt að útbúa blindraspjöld í kosningunum þar sem kjósendur eiga að rita fjögurra tölustafa auðkennisnúmer í minnst eina og mest 25 vallínur. Þá hefur ekkert komið fram um það af hálfu stjórnvalda að leitað hafi verið annarra úrræða til að gæta þess að blindir og sjónskertir fái notið réttar til leynilegrar kosningar. Þó hefur verið bent á það að leysa hefði mátt framkvæmdina að því er varðar blinda og sjónskerta, m.a. með notkun stimpla.
Segir á vef dóms- og mannréttindaráðuneytisins að komið sé til móts við þarfir þessa hóps með því að heimila blindum og sjónskertum kjósendum að hafa með sér aðstoðarmann að eigin vali, en auk þess sé talið nauðsynlegt að kjörstjóri eða annar af hálfu kjörstjórnar sé viðstaddur þegar seðillinn er fylltur út. Hið sama gildi við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Framkvæmd þeirri sem hér er lýst felur í sér að blindir og sjónskertir fá ekki notið réttar síns til að kjósa til stjórnlagaþings í einrúmi með leynilegri kosningu. Það sem verra er felur fyrirhuguð framkvæmd í sér að þessum hópi fólks, velji hann að nýta sér kosningarétt sinn, er þeim sá einn kostur nauðugur að kjósa undir eftirliti opinbers aðila.
Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er boðið allir menn skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu þeirra, sbr. einnig 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Við framkvæmd laga ber stjórnvöldum að tryggja að borgarar fái notið mannréttinda án nokkurrar mismununar og ber að gæta þess sérstaklega þegar að málefnum einstaklinga með fötlun kemur. Má í þessum efnum m.a. benda á skýran vilja löggjafans sem kemur fram í markmiðum laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, sem ætlað er að tryggja einstaklingum með fötlun jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna.
Verður ekki hjá því komist að viðurkenna þegar aðstæður þær sem fyrirhugað er að blindum og sjónskertum verði búnar við kosningar til stjórnlagaþings eru metnar heildstætt, að ýmislegt hefur farið úrskeiðis. Verði ekki búið svo um að blindum og sjónskertum verði gert kleift að ganga til kjörklefa einir síns liðs og sitja þar við fullnægjandi aðstöðu munu stjórnvöld brjóta gegn mikilvægum mannréttindum þessa hóps fólks. Þau réttindi eru fólgin í rétti þeirra til þess að fá notið kosningaréttar síns, réttar þeirra til að kjósa í leynilegum kosningum og réttar þeirra til þess stjórnvöld sjái til þess að þau geti sem mest staðið jafnfætis ófötluðum borgurum landsins sem njóta kosningaréttar.
IV. Niðurlag
Ég fer þess vinsamlegast á leit, f.h. umbj.m., að háttvirtur dóms- og mannréttindaráðherra skýri þá stöðu sem nú er uppi hvað varðar réttindi blindra og sjónskertra til jafnra réttinda á við aðra borgara við aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings og þeirrar kynningar á frambjóðendum sem á undan hefur gengið og færi fram gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunun sem í framkvæmd kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings felur í sér.
Þá gera umbj.m. þá kröfu að bætt verði úr fyrirhugaðri framkvæmd og gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að gera umbj.m. kleift að kjósa til stjórnlagaþings án nauðsynlegs atbeina aðstoðarmanns og yfirsetu kjörstjóra eða fulltrúa frá kjörstjórn.
Verði því ekki komið við er því mótmælt af hálfu umbj.m. að haft verði eftirlit með blindum og sjónskertum og aðstoðarmönnum þeirra í kjörklefa af hálfu kjörstjóra eða fulltrúa frá kjörstjórn.
Verði umbj.m. og öðrum sem eins er ástatt um ekki gert kleift að beita kosningarétti sínum með sambærilegum hætti og öðrum borgurum, þá er dregið í efa að kosning til stjórnlagaþings sé lögleg og umbj.m. áskilinn allur réttur í því samhengi.
Virðingarfyllst, f.h. Ragnars Aðalsteinssonar,
Björg Valgeirsdóttir
Lögmannsfulltrúi
Mannréttindi | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2010 | 23:32
Hugræn atferlismeðferð við þunglyndi skilar árangri
Í viðtalinu kom fram að bresk stjórnvöld hyggist bjóða allt að 900.000 manns slíka meðferð því að sannað er að hugræn atferlismeðferð getur hjálpað fólki sem á við þunglyndi að etja að ná áttum og komast aftur út á innumarkaðinn. Þá hyggjast bresk heilbrigðisyfirvöld fjölga slíkum meðferðarúrræðum upp í um 2.3 milljónir á næsta ári ef ég man rétt.
Í hugrænni atferlismeðferð eru lyf ekki notuð heldur er fólk aðstoðað til þess að takast á við mál sín.
Brynjar Halldórsson starfar sem klínískur sálfræðingur á Landspítalanum en er nú í tímabundnu leyfi í Bretlandi þar sem hann vinnur við hugræna atferlismeðferð við þunglyndi. En á Landspítalanum hefur slíkri meðferð verið beitt í nokkur ár.
Ég hitti Brynjarúti í Frakklandi um daginn og bað hann að segja mér frá hugrænni atferlismeðferðvið þunglyndi og fjalla um árangur hennar.
Viðtalið fylgir hér í hljóðskrá, en einnig má heyra það á Völdum greinum, hljóðtímariti Blindrafélagsins sem er á heimasíðu félagsins. www.blind.is Tengill á hljóðtímaritið fylgir hér. http://www.blind.is/valdar_greinar/nr/1163
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föruneyti Gísla Helgasonar verður með tónleika í Þjóðmenningarhúsinu
á menningarnótt, laugardaginn 20. ágúst. Hefjast þeir kl. 18:00
Föruneytið flytur frumsamið efni auk annarra laga t. d. úr Eyjum
og eftir Bítlana og fleiri.
Föruneytið skipa:
Gísli Helgason: blokkflautur, söngur og slagverk,
Hafsteinn G. Guðfinnsson: gítar og söngur,
Þórólfur Guðnason: bassi og söngur,
Ársæll Másson: gítar
og Árni Áskelsson: trommur.
Föruneyti G. H. kom m. a. fram á heimstónlistarhátíðinni Reykjavík Folkfestival í mars sl. og hlaut frábærar viðtökur.
Þetta verður vonandi sérstæð blanda af léttri og skemmtilegri tónlist.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2010 | 09:22
forsetabull og blaður
Í gær rak hann augun í blog sem sameiginlegur vinur okkar að vestan skrifaði þar sem segir að forsetinn sé fífl.
Mér fannst þetta furðuleg fullyrðing þar sem ég held að forsetinn sé ekki fífl. En hann blaðrar full mikið að mínum dómi.
Nú hræðir hann útlendinga með hugsanlega væntanlegu eldgosi úr Kötlu.
Hvað með Reykjaness svæðið. Gæti ekki eins farið að hitna undir þar í kring og á Bessastöðum?
Ég minni á að Helgafell á Heimaey eða umhverfið þar um kring var talin útkulnuð eldstöð. En að mörgum óvörum vaknaði hún til lífsins.
Eftir að núverandi forseti tók við embættinu hafa grínarar landsins keppst um að hæða embættið og það kannski að vonum. Engum datt þetta í hug í tíð frú Vigdísar eða Kristjáns Eldjárn svo að þau tvö séu nefnd, enda er frú Vigdís sönn landsmóðir sem allir virða og dá og gerir engan manna mun. ´Kristján var svipaður, góður landsfaðir og með afbrigðum skemmtilegur eins og Vigdís. Bæði áttu þau hug og hjörtu landsmanna.
Það væri líklega gott fyrir forsetann nú verandi að hafa í huga:
Að þegja er gull
að tala er silfur.
Þá mætti hann líka hafa í huga vísuna sem ungur maður, nú lands frægur kvað eitt sinn:
"Raupsamur ég oftast er.
All margi það segja.
Helst það myndi henta mér
heimskum manni að þegja".
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2010 | 09:33
Vinátta - endurútgáfa Ástarjátningar
Á næsta ári eru liðin 25 ár frá því að hljómplatan mín Ástarjátning kom út. Því vaknaði sú hugmynd að endurgera plötuna og endurspila nokkur þeirra laga sem eru á upprunalegu hljómplötunni.
Eftir að við Herdís fluttum Hljóðvinnsluna ehf. í Ármúlann, stofnuðum síðan Hljóðbók.is hef ég kynnst mörgu skemmtilegu fólki á þessu svæði.
Einn daginn rakst ég á Hilmar Sverrisson tónlistarmann sem á m. a. Blómastofu Friðfinns við Suðurlandsbraut 10 ásamt frúinu sínu, henni Jenný.
. Ég spurði Hilmar hvort hann væri í aðstöðu til þess að vinna með mér að verkefni sem þá var á fullu. Þá kom í ljós að þessi Skagfirðingur er með eigið hljóðver fyrir ofan plönturnar í búðinni þeirra hjóna.
Það er svo sum ekki að orðlengja að með okkur hefur tekist afar gott samstarf.
Hilmar á það til að vera alls ekki með óleiðinlegri mönnum annað kastið en tónlistargáfan bætir upp óskemmtilegheitin.
Nú er ætlunin að hljómplatan Ástarjátning komi aftur út endurbætt og unnin í vor. Ýmsir hafa lagt hönd þar á plóginn og eiga allir bestu þakkir skildar fyrir. Þar að auki erum við finn vinir að undirbúa tónleika á Kafé Rosenberg sem verða haldnir 20. maí, en meira um það síðar.
18.4.2010 | 20:19
Rafrænn upplestur úr 2. kafla rannsóknarskýrslunnar- Snorri les
Nú hefur Blindrafélagið hrundið af stað átaki til þess að fá gerðan nýjan talgervil fyrir íslenskt mál. Það væri gaman ef formaður félagsins myndi gera rækilega grein fyrir þessu verkefni.
Kær kveðja og njótið vel.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 20:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2010 | 18:08
Að loknum lestri Skýrslunnar
Nú hefur starfsfólk Borgarleikhússins lokið lestri skýrslunnar sem allir munu hafa beðið eftir.
Mér finnst ástæða til þess að þakka fyrir þennan lestur og framtakið sem er einstakt. Þetta verður vonandi til þess að yfirvöld sjá að sér á fleiri en einn hátt. Þetta verður vonandi til þess að stjórnvöldin sjái sig jafnt knúin til þess að koma upplýsingum á framfæri á þann hátt þannig að nær allir geti nálgast þær. Hefði verið til góður íslenskur talgervill myndi hann hafa dugað til þess að lesa skýrslunaa, en ólíkt er nú skemmtilegra áheyrnar að getað hlustað á lifandi lestur. Kærar þakkir Borgarleikhússfólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2010 | 00:11
Um ættfræði - Skyldi Duke Ellington vera Vestmannaeyingur?
Ég var svo heppinn að koma þar fram með valinkunnum tónlistarmönnum og fór svo á eitt kvöldið til þess að njóta þess sem upp á var boðið.
Björn Thoroddsen gítarsnillingur kom fram með félögum sínum í Gitar Islansio og fór hamförum á gítarinn. Hann kynnti lag ef ég man rétt eftir Duke Ellington og færði rök fyrir því að Ellington væri af íslenskum ættum af því að einhverjir landar hefðu farið til Afríku árið 1635 og líklega væri Ellington komin af þeim.
Við fórum að velta þessu fyrir okkur nokkrir samlandar úr Eyjum.
Tyrkjaránið var framið í Vestmannaeyjum árið 1627 og var fólk flutt þaðan nauðungarflutningi til Algersborgar eftir því sem heimildir herma.
Ef Duke Ellington er undan því fólki má því til sanns vegar færa að hann sé Vestmannaeyingur og erum við Eyjamenn stoltir af þessum samlanda okkar. Rökstyðja má þessa tilgátu með því að jazzáhugi og hvers konar alþýðutónlistariðkun hefur jafnan verið mikil í Eyjum og má telja að Duke Ellington hafi erft þennan magnaða tónlistaráhuga úr Vestmannaeyjum sem blandast hefur áhrifum Afríkubúa.
Þá má þess geta að jazzáhugamaðurinn Vernharður Linnet sækir að öllum líkindum jazzáhuga sinn í þau gen sem þróuðust á meðal forfeðra hans sem voru langdvölum í Vestmannaeyjum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2010 | 09:32
Sakamálaskýrsla lýðveldisins
Nokkru áður en skýrslan var tilbúin var haft samband við skrifstofu alþingis, forseta þingsins og fleiri og óskað eftir því að skýrslan yrði lesin inn á diska þannig að þeir sem erfitt eiga með venjulegt prentað mál geti kynnt sér skýrsluna. Því miður var ekki orðið við því, þannig að stjórnvöld þessa lands hafa þver brotið upplýsingalög og upplýsingaskylduna sem þau hreykja sér svo af.
Leikarar og annað starfsfólk Borgarleikhússins ákvað að lesa skýrsluna upp hátt í Borgarleikhúsinu og er lestrinum útvarrpað á netinu fyrir alla þá sem vilja hlusta. Þetta er stór gott framtak og hef ég nýtt mér það óspart.
Hinns vegar verður að segja sem er að lesturinn er ærið misjafn. Fólk sem les rekur miisjafnlega mikið í vörðurnar svo að stundum er harla erfitt að hlusta á upplsturinn. Þetta er eins og að afhenda þeim sem hlusta skýrsluna óprófarkalesna.
En starfsfólk Borgarleikhússins á heiður skilið fyrir framtakið.
Starfsmenn Blindrabókasafnsins gera það sem þeir geta til þess að vinna úr upplestrunum hljóðbækur og Ríkisútvarpið hleður þessu niður á hlaðvarpið sitt.
Allt er þetta hið besta mál.
Samtímis mega stjórnvöld þessa lands og þeir embættismenn sem geta ráðið málum skammast sín fyrir aðgerðaleysi sitt til þess að gera skýrsluna öllum aðgengilega.