Kosningar til stjórnlagaþings ólögmætar vegna mismununar þjóðfélagshópa

Í gær var dóms og mannréttindamálaráðherra, Ögmundi Jónassyni sent meðfylgjandi bréf, en í kosningum til stjórnlagaþings er hvergi gert ráð fyrir að blint eða sjónskert fólk geti notið kosningaréttar síns eins og lög mæla fyrir um. (Sjá heimasíðu Blindrafélagsins www.blind.is).
Bréfið frá lögmannsstofu Ragnars kemur hér.
Furðulegt er að enginn frá íslenskum fjölmiðlum hefur spurt Ögmund út í þetta.

Ögmundur Jónasson
Dóms- og mannréttindaráðuneytinu
Skuggasundi
150 Reykjavík

Reykjavík, 23. nóvember 2010

ÁRÍÐANDI

Efni: Framkvæmd kynningar á frambjóðendum til stjórnlagaþings og fyrirhuguð framkvæmd á kosningum til stjórnlagaþings

Til undirritaðs hafa leitað Gísli Helgason, kt. 050452-2399, Bauganesi 35, Reykjavík, Halldór Sævar Guðbergsson, kt. 110271-4179, Hólatún 24, Akureyri, Ágústa Gunnarsdóttir, kt. 120667-4839, Stigahlíð 43, Reykjavík, Friðgeir F. Jóhannesson, kt. 150847-2739, Yrsufelli 4, Reykjavík og Bergvin Oddsson, kt. 160486-2959, Skarðshlíð 6a, Reykjavík.

Þegar í upphafi bréfs þessa skal tekið fram að umbj.m. eru allir blindir eða sjónskertir. Hafa þeir falið mér að gæta hagsmuna sinna, þar sem þeir telja sig ekki sitja við sama borð og ófatlaðir einstaklingar þegar kemur að kynningu frambjóðenda, aðdraganda og fyrirhugaðri tilhögun á kosningum til stjórnlagaþings, sem fara munu fram 27. nóvember næstkomandi.

I. Kynning á frambjóðendum til stjórnlagaþings
Dóms- og mannréttindaráðuneytið hefur tekið að sér kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings, jafnt með rafrænum hætti á vefnum kosning.is og með útgáfu prentaðs kynningarbæklings sem sendur var á hvert heimili í landinu þriðjudaginn 16. nóvember 2010. Sú lágmarkskynning sem hefur átt sér stað á vegum dóms- og mannréttindaráðuneytisins hefur þó ekki náð til allra kjósenda til stjórnlagaþings, nánar tiltekið til blindra og sjónskertra.

Samkvæmt 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er íslenska ríkið skuldbundið til þess að halda frjálsar kosningar og gæta þess að þær fari fram við aðstæður er tryggja að almenningur hafi tækifæri til þess að láta í ljós álit sitt á frambjóðendum með frjálsum hætti. Grundvallarforsenda þess að maður fái notið raunverulegs kosningaréttar er að hann hafi fullnægjandi tækifæri til á að kynna sér þá kosti sem bjóðast í kosningum og stefnumál frambjóðenda. Sé kjósendum torvelt eða ekki gert unnt að kynna sér upplýsingar um frambjóðendur og stefnumál þeirra missa framangreind ákvæði alþjóðasamninga á sviði mannréttinda efnislegt inntak sitt.

Við framkvæmd á kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings ber að virða þá sjálfsögðu lýðræðisreglu, að öllum landsmönnum sé gert kleift að eiga aðgang að fá sér kynnt þá frambjóðendur sem í boði eru til þingsins. Taki ríkið eða stofnanir þess að sér það hlutverk að kynna kjósendum frambjóðendur og málefni þeirra í þágu frjálsra og lýðræðislegra kosninga, ber að gæta þess að slík kynning fari fram án manngreinarálits í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Umbj.m. gera þá kröfu að kynningarefni vegna framboðs til stjórnlagaþings verði gert þeim aðgengilegt með útgáfu þess á hljóðupptöku eða með útgáfu á Braillé-blindraletri. Ákvörðun ráðuneytisins um tilhögun við útgáfu kynningarefnis felur í sér að blindir og sjónskertir kjósendur sitja þar ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Sú tilhögun við útgáfu kynningarefnis, sem umbj.m. óska eftir er tæknilega vel framkvæmanleg. Varðar þetta mikilvæg réttindi, þ.e. þá kröfu að blindir og sjónskertir njóti á sama hátt og aðrir þeirrar þjónustu ríkisins, sem ætluð er til að auðvelda kjósendum val milli framboða í kosningum til stjórnlagaþings þann 27. nóvember næstkomandi.

II. Fyrirhuguð framkvæmd á kosningum til stjórnlagaþings
Það er grundvallarregla allra lýðræðisríkja að menn fái notið kosningaréttar síns við frjálsa kosningu og að þeir fái á kjörstað notið réttinda sinna til að kjósa fulltrúa sína með leynilegri kosningu, sbr. 3. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og 21. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur íslenska ríkið skuldbundið sig til þess að vernda rétt fatlaðra til þess að taka þátt í leynilegri kosningu, sbr. 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eru réttindi þessi forsenda þess að blindum og sjónskertum sé unnt að taka þátt í því virka og lýðræðislega stjórnarfari sem lögð er áhersla á hér á landi og í þeim ríkjum sem íslenska ríkið vill einna helst bera sig saman við.

Mikilvægi þess að allir menn fái notið réttar til að kjósa fulltrúa sinna leynilegri kosningu er gætt í lögum nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis. Þar er sérstaklega gætt að nefndum réttindum blindra og sjónskertra þannig að þeim skuli gefinn kostur á að kjósa í einrúmi og án aðstoðar, sbr. 2. mgr. 81. gr. laganna. Í venjulegum kosningum hefur sérstökum óskum blindra og sjónskertra því verið mætt á þann veg að útbúin eru sérstök blindraspjöld á borði í kjörklefanum, þannig að þeir sem kunna Braillé-blindraletrið geti sjálfir og einir síns liðs í kjörklefanum merkt við þann listabókstaf eða þann einstakling sem þeir greiða atkvæði sitt.

Ekki er gert ráð fyrir slíkri aðstöðu við kosningar til stjórnlagaþings. Vekur sérstaka athygli að hvergi er vikið að réttindum blindra og sjónskertra í lögum nr. 90/2010 um stjórnlagaþing. Hafa verið færð fyrir því þau rök að ekki sé unnt að útbúa blindraspjöld í kosningunum þar sem kjósendur eiga að rita fjögurra tölustafa auðkennisnúmer í minnst eina og mest 25 vallínur. Þá hefur ekkert komið fram um það af hálfu stjórnvalda að leitað hafi verið annarra úrræða til að gæta þess að blindir og sjónskertir fái notið réttar til leynilegrar kosningar. Þó hefur verið bent á það að leysa hefði mátt framkvæmdina að því er varðar blinda og sjónskerta, m.a. með notkun stimpla.

Segir á vef dóms- og mannréttindaráðuneytisins að komið sé til móts við þarfir þessa hóps með því að heimila blindum og sjónskertum kjósendum að hafa með sér aðstoðarmann að eigin vali, en auk þess sé talið nauðsynlegt að kjörstjóri eða annar af hálfu kjörstjórnar sé viðstaddur þegar seðillinn er fylltur út. Hið sama gildi við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Framkvæmd þeirri sem hér er lýst felur í sér að blindir og sjónskertir fá ekki notið réttar síns til að kjósa til stjórnlagaþings í einrúmi með leynilegri kosningu. Það sem verra er felur fyrirhuguð framkvæmd í sér að þessum hópi fólks, velji hann að nýta sér kosningarétt sinn, er þeim sá einn kostur nauðugur að kjósa undir eftirliti opinbers aðila.

Í 65. gr. stjórnarskrárinnar er boðið allir menn skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til stöðu þeirra, sbr. einnig 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Við framkvæmd laga ber stjórnvöldum að tryggja að borgarar fái notið mannréttinda án nokkurrar mismununar og ber að gæta þess sérstaklega þegar að málefnum einstaklinga með fötlun kemur. Má í þessum efnum m.a. benda á skýran vilja löggjafans sem kemur fram í markmiðum laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðra, sem ætlað er að tryggja einstaklingum með fötlun jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna.

Verður ekki hjá því komist að viðurkenna þegar aðstæður þær sem fyrirhugað er að blindum og sjónskertum verði búnar við kosningar til stjórnlagaþings eru metnar heildstætt, að ýmislegt hefur farið úrskeiðis. Verði ekki búið svo um að blindum og sjónskertum verði gert kleift að ganga til kjörklefa einir síns liðs og sitja þar við fullnægjandi aðstöðu munu stjórnvöld brjóta gegn mikilvægum mannréttindum þessa hóps fólks. Þau réttindi eru fólgin í rétti þeirra til þess að fá notið kosningaréttar síns, réttar þeirra til að kjósa í leynilegum kosningum og réttar þeirra til þess stjórnvöld sjái til þess að þau geti sem mest staðið jafnfætis ófötluðum borgurum landsins sem njóta kosningaréttar.

IV. Niðurlag
Ég fer þess vinsamlegast á leit, f.h. umbj.m., að háttvirtur dóms- og mannréttindaráðherra skýri þá stöðu sem nú er uppi hvað varðar réttindi blindra og sjónskertra til jafnra réttinda á við aðra borgara við aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings og þeirrar kynningar á frambjóðendum sem á undan hefur gengið og færi fram gild og málefnaleg rök til að réttlæta þá mismunun sem í framkvæmd kynningu á frambjóðendum til stjórnlagaþings felur í sér.

Þá gera umbj.m. þá kröfu að bætt verði úr fyrirhugaðri framkvæmd og gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að gera umbj.m. kleift að kjósa til stjórnlagaþings án nauðsynlegs atbeina aðstoðarmanns og yfirsetu kjörstjóra eða fulltrúa frá kjörstjórn.

Verði því ekki komið við er því mótmælt af hálfu umbj.m. að haft verði eftirlit með blindum og sjónskertum og aðstoðarmönnum þeirra í kjörklefa af hálfu kjörstjóra eða fulltrúa frá kjörstjórn.

Verði umbj.m. og öðrum sem eins er ástatt um ekki gert kleift að beita kosningarétti sínum með sambærilegum hætti og öðrum borgurum, þá er dregið í efa að kosning til stjórnlagaþings sé lögleg og umbj.m. áskilinn allur réttur í því samhengi.

Virðingarfyllst, f.h. Ragnars Aðalsteinssonar,

Björg Valgeirsdóttir
Lögmannsfulltrúi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband