Um ættfræði - Skyldi Duke Ellington vera Vestmannaeyingur?

Um daginn var haldin mögnuð tónlistarhátíð í Reykjavík, Reykjavik folkfestival sem þeir í Sáþ river band stóðu fyrir. Þetta var flott framtak og vonandi verður framhald þar á.
Ég var svo heppinn að koma þar fram með valinkunnum tónlistarmönnum og fór svo á eitt kvöldið til þess að njóta þess sem upp á var boðið.
Björn Thoroddsen gítarsnillingur kom fram með félögum sínum í Gitar Islansio og fór hamförum á gítarinn. Hann kynnti lag ef ég man rétt eftir Duke Ellington og færði rök fyrir því að Ellington væri af íslenskum ættum af því að einhverjir landar hefðu farið til Afríku árið 1635 og líklega væri Ellington komin af þeim.
Við fórum að velta þessu fyrir okkur nokkrir samlandar úr Eyjum.
Tyrkjaránið var framið í Vestmannaeyjum árið 1627 og var fólk flutt þaðan nauðungarflutningi til Algersborgar eftir því sem heimildir herma.
Ef Duke Ellington er undan því fólki má því til sanns vegar færa að hann sé Vestmannaeyingur og erum við Eyjamenn stoltir af þessum samlanda okkar. Rökstyðja má þessa tilgátu með því að jazzáhugi og hvers konar alþýðutónlistariðkun hefur jafnan verið mikil í Eyjum og má telja að Duke Ellington hafi erft þennan magnaða tónlistaráhuga úr Vestmannaeyjum sem blandast hefur áhrifum Afríkubúa.
Þá má þess geta að jazzáhugamaðurinn Vernharður Linnet sækir að öllum líkindum jazzáhuga sinn í þau gen sem þróuðust á meðal forfeðra hans sem voru langdvölum í Vestmannaeyjum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband