3.10.2008 | 08:41
Er Davíð orðinn blóraböggull?
Mér varð illa kalt í morgun þar sem ég dormaði undir sænginni minni og hlustaði á fréttirnar. Landið kuð líklega verða olíulaust ef ekkertverður að gert. Nú er hamast á Davíð. Getur hugsast að menn noti hann sem blóraböggul vegna efnahagsástandsins eða er Davíð að fá í hausinn allt ráðríki sitt og það sem einhverjir kalla frekju eða ofríki? Eru sumir svona reiðir af því að þeir hafa misst megnið af kvótapeningunum sem þeir lögðu í Glitni en eru í raun sameign þjóðarinnar? Allt frá því að ég hitti Geir forsætisráðherra fyrst hefur hann virkað á mig sem ljúfmenni og í ljós hefur komið að fátt virðist hagga honum hvað jafnaðargeðið varðar. En hefur svona mjúkur maður einsog Geir kraft og þor til þess að grípa til þeirra aðgerða sem þarf? Skyldu of margir vinir hans vera í æðstu stöðum svo að erfitt sé fyrir hann að hrófla við þeim? Hefur dýralæknirinn fjármálaráðherrann þekkingu til þess að ryðjast fram á völlinn og skera upp fjármálakerfið? Eru hagsmunatengslin slík að enginn þorir að segja neitt til þess að eiga það á hættu að styggja einhvern eða særa annan því að allt eru þetta vinir í sterku hagsmunabandalagi? Hver þorir að reka Davíð? Eða er þörf á að reka hann? Og hver þorir að gera hvað? Mun Samfylkingin líða fyrir það að vera svona fylgispök í haldinu? Af hverju er ekki skorið upp í Glitni eign okkar allra síðan á mánudag og t. d. starfssamningar ofurlaunamanna gerðir ógildir? Og hvað með hina bankana? Ráðherrar ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjórar eru láglaunamenn í samanburði við þá sem hafa skammtað sér eða verið skammtað ofurfjármagn fyrir það eitt að mæta og stunda störf sín.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.