Ágætis frí í Bandaríkjunum

Í vetur skrapp ég með henni frú Herdísi minni til Bandaríkjanna. Leiðin lá upp í fjöllin, til Marylandfylkis og þar dvöldum við á hóteli þar sem hægt er að stunda alls kyns útiveru í grenndinni, þar á meðal fara á skíði, stunda gönguferðir, fara á sleða niður bekkur, ferðast upp á fjallstopp með kláfi eða þeytast niður fjallið með rússíbana svo að eitthvað sé nefnt. Fylki þetta er í Appalachiafjöllunum.
Leikar fóru svo að við hrifumst svo af svæðinu og fólkinu þar að við festum kaup á helmingi af nýju parhúsi í bæ sem heitir Accident. Okkar hluti er 150 fermetrar að meðtöldum bílskúr og þar hefur aldrei okkur lifandi maður búið fyrr en við nú. Í húsinu eru 3 svefnherbergi, ágætis stofa, fullkomið eldhús og þvottaherbergi og tvö baðherbergi.
Nágrannarnir eru ágætir, þar á meðal ein gömul kona sem býr á bóndabæ, næsta húsi við okkur. Þar ræktar hún alls konar grænmeti og í garðinum hjá henni er heimsins stærsta eplatré. Konan kom og heilsaði upp á okkur og færði okkur nýbakað brauð. Í gær kom hún svo færandi hendi með eplamauk hið mesta lostæti sem hún hafði gert og sagði okkur velkomið að tína epli af trénu.
Það er stórgottt að vera hér og fátt sem truflar. Nú erum við komin með nettengingu og 75 sjónvarpsrásir, þar sem ekki var hægt að kaupa færri ef við vildum háhraðanettengingu.
Hér verður aldrei of heitt, hitinn fer vart upp fyrir 30 stig á celsius og yfirleitt er gola eða andvari sem sér um að halda hitanum í skefjum.
Á veturna eru staðviðri meiri en í henni Reykjavík, en snjóþyngsli geta orðið allnokkur, allt að þriggja metra skaflar. Seinna meir skal ég kynna mér betur allar staðreyndir og upplýsa nánar um veðurfar og gróður og fleira ásamt því að setja myndir af húsinu inn á þessa síðu.
En það er furðuleg að hægt sé að kaupa svo stórt og fullkomið sumarhús eða frístundahús fyrir um 185 þúsund dali þegar margfalt minni frístundabústaðir kosta á Fróni miklu meira. En tilfinningin að koma hingað og í sitt eigið er ólýsanleg. En við heyrum af fellibyl sem er að skella á strönd Mexiko-flóa og kemur til með að valda miklum usla. Við finnum ekki mikið fyrir honum hér nema þá hér kemur skýfall öðru hvoru og stundum blæs dálítið hressilega.
Nú velta Bandaríkjamenn fyrir sér forsetakosningunum. Margir dá núverandi forseta og telja honum meðal annars það til gildis að hann skuli vera kristinn. Aðrir hafa allt á móti honum. Það vakti mikla athygli sem þið hafið eflaust heyrt þegar forsetaframbjóðandinn John McCain valdi sér unga og nær óþekkta konu í stjórnmálum. Sú hefur tekið þátt í stjórnmálum í Alaska og vann sér það til frægðar að standa uppi í hárinu á karlaveldinu þar. Einn annað hvort þingmaður eða ríkisstjóri hafði til afnota einkaþþotu. Varaforsetaefnið sú hin unga kona barðist mjög á móti þessu og vann svo þingmanninn eða ríkisstjórann í kosningu og erfði þar af leiðandi þotuna. Hún losaði sig við hana til þess að spara og seldi hana á Ebay.
Hvenær skyldu stjórnmálamenn vorir gera slíkt?
en En Obama valdi sér reynslubolta í stjórnmálum og aðal umræðan gengur út á það að Obama hafi svo litla þekkingu og reynslu í stjórnmálum að það muni há honum. Hann hafi verið 4 ár í pólitík og þar af notað þrjú ár til þess að berjast fyrir frama sínum.
Þá virðist enn lítið lát á húsnæðiskreppunni hér og sumt fólk hefur fyllst svo mikilli örvæntingu að það gengur út úr húsum sínum og skilur allt eftir, t. d. persónuskilríki og leikföng barna sinna og lætur sig hverfa. En veðurspáin er góð og vonandi eykst bjartsýni fólks hér og geta innan skamms.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband