10.4.2010 | 15:45
Af fermingunni minni
Um daginn áttum við ritstjóri Frétta í Vestmannaeyjum erindi hvor við annan. Því lyktaði ágætlega og dróst ég á að hripa niður nokkrar minningar um ferminguna mína.
Mig rámar í að ég hafi fermst 29. maí 1966 frá Landakirkju. Dagsetningin er á reiki hjá mér af því að á sálmabók sem ég fékk í fermingagjöf stendur 30. maí. Það var einhvert rugl í gangi með fermingardagsetninguna en við vorum svo mörg minnir mig fermingarsystkinin að það varð að ferma tvo daga í röð. Kannski er þetta vitleysa hjá mér.
Fermingarundirbúningurinn var nokkuð venjulegur. Tveir prestar í Eyjum, báðir ágætis menn, þeir séra Jóhann hlíðar, K.F.U.M. maður mikill og dulítill grallari í sér. Og svo séra Þorsteinn Lúter J'onsson sem var giftur stelpu frá Litlu Hólum, henni Júllu Matt systur Boga á Litlu Hólum. þau prestsjjónin, Þorsteinn og Júlía og foreldrar mínir voru miklir vinir og þau komu alltaf í mat á aðfangadagskvöld til okkar ásamt syni sínum honum Smára, en við vorum leikfélagar.
Mig rámar eitthvað í að þeir prestar fræddu okkur fermingarbörn um trúna og orðið og fóru í gegnum hitt og þetta úr Biblíunni. Annar prédikaði um líknsaman guð, hjá hinum var Guð dulítið strangari. Báðir settu fram mál sitt þannig að sum okkar tóku vel eftir og hugleiddu.
Ég var með þeim ósköpum gerður að vera latur við að læra sálma og vers og önnur kvæði. Séra Þorsteinn setti okkur fyrir að fara með eitt vers í hvert skipti sem við mættum til spurninga. Mönnum tókst yfirleitt vel upp og stelpurnar voru oft betri en við peyjarnir. Svo kom að mér að læra vers og fara með. Ég hafði þann háttinn á að byrja að læra versið daginn áður en spurningar hófust og náði því auðvitað engan veginn. Ég hugsaði ráð mitt.
Nú voru góð ráð dýr.
Í versinu kom fyrir orðið frost og funi. Ég byrjaði á að fara með versið, kunni fyrstu fjórar línurnar og sagði af ásettu ráði frost og eldur í staðinn fyrir frost og funa. Þegar það gerðist gerði ég mér upp fát og sagðist hafa mismælt mig og ætlaði að byrja aftur. Séra Þorsteinn stoppaði mig, hélt tölu um að þetta væri dæmi um hvernig fermingarbörn ættu að hugleiða það sem þeim væri sett fyrir og taldi þessi mismæli mín bera vott um skíra hugsun og þekkingu á orðsins list. Hann sagði að ég þyrfti ekki að klára versið og mikið varð ég feginn, en skammaðist mín ekki fyrr en mörgum árum síðar.
Þegar sjálf fermingi nálgaðist fórum við sum að velta því fyrir okkur hvað við þyrftum að borga prestunum í fermingartoll.
Ég spurði annan prestinn hvað ég og tvíburabróðir minn ættum að borga. Hann sagði að við myndum greiða eitt gjald, það væri vaninn þegar tveir fermdust frá sama heimili. Eitthvað var ég efins og spurði hinn prestinn. Hann btrást frekar illa við og sagði harrkalega að við borguðum eins og tveir einstaklingar. Ég hváði við og sagði hvað annar presturinn hefði sagt.
Þá varð hinn snakillur, hálf hvæsti á mig: "Hann getur þá hirt fermingartollinn ég þarf ekkert".
Þetta hafði djúp áhrif á mig og bætti svo ekki álit mitt á prestum þegar einn presta þjóðkirkjunnar vísaði mér og fleirum til andskotans í gosinu, sagði að allt sem frá mér og félögum mínum kæmi væri beint úr svartasta dýki helvítis.
Svo þegar viðð bræður komum upp í landakirkju að greiða fermingartollinn gerði ég það samkvæmt tillögu föður míns að hafa tvær greiðslur í lokuðu umslagi. Þegar við komum í kirkjuna, sat annar prestanna í miðjum kórnum með stóra skjóðu milli fóta sér, tók við fermingartollinum og stakk ofan í skjóðuna. Ég gekk til hans og rétti honum lokað umslagið. Fékk greiðslu fyrir eina fermingu þannig að vafamál er hvor borgaði, ég eða bróðir minn. Kannski erum við þá hálf fermdir eftir allt saman.
Fermingardagurinn rann upp með miklum spenningi og eftirvæntingu. Mig rámar í að á fermingardagsmorguninn hafi verið lágskýjað í Eyjum nema mikil nærsýni mín hafi skapað þessi ský. Tals vert af ættingjum höfðu komið úr Reykjavík og stórfj´ölskyldan hélt vel saman á þeim árum og aðal vettvangur hennar var að heimili foreldra minna að Heiðarvegi 20. Við vorum þrír frændur á sama aldri, við Arnþór og Helgi frændi okkar Guðmundssonk, sonur Muggs bróður míns sem er tæpum tveimur mánuðum eldri en við Arnþór. Við vorum uppi í herbergi og ákváðum að þrusa á segulbandstækið uppáhaldslaginu okkar allra, "I can get no satisfaction". Spiluðum þetta þrisvar og svo gengum við Arnþór upp í Landakirkju að skrýðast fermingarkirtlunum. Fermingarbörnum var raðað upp stigann í Landakirkjuturn eftir stafrófsröð. Við Arnþór gengum á eftir prestunum. Skömmu áður en orgelspilið hófst þá heyri ég að einn vinur minn mjög aftarlega í röðinni segir við þann sem var við hliðina á honum: "Jæja. Nú rekum við prestana og öll svínin á undan okkur. Félaginn sagði ha og þá endurtók fermingarpilturinn orð sín og með það gengum við inn í kirkjuna, prúð og stilt og flest falleg.
Ég man lítið eftir athöfninni sjálfri, það hafði lítil áhrif á mig að segja já. Veislan sem foreldrar mínir héldu var stórkostleg og gjafir og skeyti miklar. Það voru margir sem sendu okkur bræðrum kveðjur. og færðu okkur dýrindis gjafir.Áhrifamest þótti mér að ganga til altaris með móður minni daginn eftir. Þá skildi ég í rauninni hvað í þessari athöfn hófst og fermingarheitinu.
Fáum dögum síðar lögðum við Arnþór upp í tónleikaferðallag með Magnúsi Sigurðssyni skólastjóra Hlíðarskóla í Reykjavík að safna fé fyrir Hjálparsjóð æskufólks sem Magnús hafði stofnað. En það er önnur saga.
Gísli Helgason blokkflautuskáld
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.