Tókst fyrrum formanni bankaráðs Landsbankans að forða sér frá falli? Hvar er þjóðstjórnin?

Ég hef eitthvað fylgst með stjórnmálaumræðu liðinna vikna og finnst ég hafi minna og minna vit á því sem er að gerast. Ég skil ekkert hvað snýr norður eða niður. . Mér líður þannig að helst langar mig að stinga höfðinu undir sæng og leggjast undir feld fram til vors. En það lagar svo sum ekkert. Davíð virðist hafa einstakt lag á að hleypa mönnum upp. Ræðan hjá honum í morgun var vel flutt en Davíð þreytulegur óvenju þótti mér. Það var athyglisvert að hann leyfði fjölmiðlamönnum engar spurningar enda er það ekki hanns háttur. Hann virðist of upptekinn af því að halda sjálfum sér á þeim stalli sem honum þykir best að hreykja sér á.
Og nú er sannleikurinn um fjármálavafstrið og samtrygginguna að renna upp fyrir fólki og reiðin magnast og magnast. Þannig gæti orðið algjör múgæsing sem breyttist í alls herjar glundroða og byltingu sem fáir fengju rönd við reist. Því væri eina ráðið að mynda þjóðstjórn, rjúfa þing og efna til kosninga. Fá völdin í hendur mönnum sem eru utan pólitískrar undirokunar og hafa þekkingu á málum. En því miður skortir forseta lýðveldisins þor til slíks, enda hefur hann sleikt rjómann af útrásinni einsog vera ber. Hann er hafður að háði og spotti og tilefni aðhláturs sérstaklega á laugardagskvöldum. Skyldi nokkrum hafa dottið í hug að hæðast að fyrri forsetum vorum?
Þegar bankarnir féllu töpuðu sumir miklu, aðrir litlu. Sögur hafa gengið um að ýmsir hafi náð að forða fjármunum sínum. Öðrum tókst það ekki og sitja eftir með sárt ennið. Vinur minn sem tapaði öllu sagðist hafa tvær hendur og þær yrðu að duga sér þangað til annað kæmi í ljós.
Nú gengur sú saga fjöllunum hærra að Kjartan Gunnarsson sem var bankaráðsmaður í Landsbankanum og átti umtalsverðan hlut í bankanum eina 12 milljarða í hlutabréfum hafi getað forðað miklu af fé sínu. Sagt er að hann hafi fengið einn stjórnanda hjá Byr sparisjóði til þess að kaupa bréfin sín og hafi sá sparisjóðsstjórnandi fengið lán til þess hjá Landsbankanum. Jafn framt fylgir sögunni að Byr hafi lánað Jóni Ásgeiri fyrir hlutnum sem hann keypti í 365 miðlum.
Ég vona Kjartans vegna og Jóns Ásgeirs að þessi saga sé ekki sönn.
Ég vona einnig að þetta ásamt öllu öðru varðandi stóra slysið verði rannsakað.
Og ég vona svo sannarlega að Geir Haaarde sjái sinn vitjunartíma og haldi frekar áfram að syngja inn á hljómdiska með ómþýðri rödd sinni. Hann virðist of flæktur í allt sukkið til þess að geta setið á þeim stóli þar sem hann er nú. Hann er of grandvaralaus og góður í sér til þess að geta tekið á nokkrum manni.
Ég vona svo sannarlega að fólk fari á netið á www.kjosa.is og skrái nafn sitt á lista þar sem farið er fram á kosningar.
Ég vona svo sannarlega að forseti lýðveldisins hafi bein í nefinu til þess að stuðla að þingrofi og koma á þjóðstjórn.
En líklega hefur hann og við öll hin það of gott til þess að nokkuð gerist. Þannig fljótum við á meðan ekki sekkur. Og Davíð hættir sem formaður bankastjórnar seðlabankans og býður sig fram sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins.
Og samfylkingin engist nú í stjórnarsamstarfinu við íhaldið og þorir eða vill ekki slíta því af því að þeir hafa það svo gott.
En sólin fer senn að hækka á lofti og þá gæti landslagið hér stjórnmálalegt litið allt öðru vísi út en það gerir nú.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband