Skaftfellingur ve33 happaskip 100 ára

Skaftfellingur kom til landsins 6. maí 1918. Þetta efni er sett hér til þess að minnast aldarafmælis hans en Skaftfellingur er eina skipið sem eftir er af þeim fjórum skipum sem Íslendingar eignuðust í fyrra stríði.
Arnþór og Sigtryggur Helgasynir gáfu út bækling um Skaftfelling þar sem dreginn var saman mikill fróðleikur um skipið.
Sett saman úr nokkrum viðtölum og útvarpsþætti sem undirritaður gerði árið 1975.
Þátturinn var fluttur 18. júlí 1975 og viðtölin nokkru síðar.
Heildartími efnis: 1 klst. 58 mín.
Lesari var í þættinum Jón Múli Árnason, en hann las upp úr bók eftir Helga Lárusson á Klaustri.

1. Í upphafi þáttar flytur Magnús Þ. Jakobsson sem lengi bjó í Skuld í Vestmannaeyjum kvæði sitt Skaftfellska bjarta bygð.
Einar Erlensson, fyrrum kaupfélagsstjóri í Vík í Mýrdal segir frá samgöngum í Skaftafellssýslum, hugmyndum um að kaupa skip til vöruflutninga. fja´rsöfnun til kaupa á Skaftfellingi.
Páll Kristinn Maríusson, var í nokkur skipti á Skaftfellingi og var síðasti skipstjórinn á honum. Páll Kristinn segir frá ýmsum minningum af Skaftfellingi.

2. Jón Högnason skipstjóri fór til Svenborg í Danmörku að sækja Skaftfelling árið 1917. Hann ásamt fleirum þurfti að bíða eftir skipinu í um eitt og hálft ár þar sem það var ekki tilbúið.
Jón lýsir vel smíði skipsins og siglingunni heim. Skaftfellingur var fyrsta skipið sem Jón sigldi um ævina en þeir komu til Vestmannaeyja að morgni 6. maí 1918. Þess skal getið að meiginhluta leiðarinnar sigldu þeir á seglum einsog Jón orðaði það þar sem mjög erfitt var að fá olíu vegna fyrra stríðsins.

3. Sagt frá vöruflutningum Skaftfellings meðfram ströndinni, Páll Kristinn Maríusson segir frá uppskipun í Vík og Einar Erlendsson segir frá afgreiðslu skipsins. Sagt frá slitum hlutafélagsins sem átti Skaftfelling og kaupum Helga Benediktssonar á Skaftfellingi en þá urðu þáttaskil í sögu skipsins.

4. Andrés Gestsson segir frá siglingum í stríðinu, þ. á. m. samskiptum við bandaríska herinn.

5. Þá segir hann frá því þegar Skaftfellingur undir stjórn Páls Þorbjörnssonar skipstjóra bjargaði heilli skipshöfn af þýskum kafbáti árið 1942.

6. Frásögn Andrésar Gestssonar frá því þegar Skaftfellingur kom að línuveiðaranum Fróða skömmu eftir að gerð hafði verið árás á hann.
Skaftfellingur bjargaðist með undraverðum hætti enda átti hann það til að taka til sinna eigin ráða.

7. Einar Sveinn Jóhannsson sem var lengi skipstjóri á Lóðsinum varð skipstjóri á Skafta upp úr 1950, segir frá skipstjórn sinni á honum og taldi að hulinn verndarvættur væri um borð enda hlekktist Skaftfellingi aldrei á. Allir viðmælendur mínir höfðu slíkt á orði og dásömuðu Skaftfelling mjög.

8. Í lokin rekur Páll Kristinn Maríusson síðasti skipstjórinn á Skaftfellingi minningar sínar og segir frá síðasta túrnum á Skaftfellingi sem hefur líklega verið farinn um haustið 1962. en Skaftfellingur kom úr túrnum í ágúst það ár. Ég man þann dag vel þegar hann lagðist að bryggju í Friðarhöfn.
Fljótlega eftir það var honum lagt í Friðarhöfn og síðar árið 1963 um haustið settur í slipp í Vestmannaeyjum þar sem hann kúrði lengi. Endir þáttarins er dramatískur og hreyfði við mörgum sjómanninum þegar þátturinn var fluttur á sínum tíma.
Erfingjar Helga Benediktssonar athafnamanns í Vestmannaeyjum gáfu Sigrúnu Jónsdóttur listakonu Skaftfelling en hún vildi flytja það austur til Víkur í Mýrdal og varðveita hann þar. Það skilyrði fylgdi að Skaftfellingur skyldi fluttur og eigendur Slippsins gáfu eftir slippgjöldin af honum.
Ég minnist samtals föður míns í síma við einhvern og heyrði hann segja að ef Víkurbúar vildu gera Skaftfellingi eitthvað til góða og sýna honum sóma mættu ´þeir hirða hann. Hann lagði mikið á sig til þess að reyna að koma Skaftfellingi þangað þar sem h ann gæti nýst eða honum sómi sýndur.
Þegar Skaftfellingur var settur í slippinn skáhalt á móti Wosbúð og vestan við Eyjabúð og olíuportið sem var, var gengið vel frá honum eftir því sem menn höfðu vit á. En kannski voru verstu mistökin að slá´ekki úr honum hampinn.
Hann var tjargaður og málaður og hefur kannski verið klár til sjóferðar sem aldrei var farin. Síðar kom gos á Heimaey og Skaftfellingur leið mjög fyrir þær hamfarir og tímans tönn.
Gísli Helgason.

Meira efni um Skaftfelling:

https://hljod.blog.is/blog/hljod/entry/1022012/

Um Skaftfelling ve33 má lesa á eftirfarandi vef:
http://www.heimaslod.is/index.php/Skaftfellingur_VE-33

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband