9.3.2011 | 20:33
Um rafbækur og margt fleira skemmtilegt
Fyrir ör stuttu barst mér bráðskemmtilegur pistill eftir Birki Rúnar Gunnarsson. Hann fjallar um rafbækur og margt fleira skemmtilegt. Birkir starfar m. a. sem aðgengisfulltrúi Blindrafélagsins og vinnur einnig að tölvumálum á Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta, og daufblinda einstaklinga. Pistilinn má einnig skoða á www.midstod.is Njótið velkemur hér fyrst tæknimoli um rafbækur, og síðan tæknimoli um andlát Symbian stýrikerfisins, njótið vel og lifið heil (enda erfitt að lifa öðru vísi). -Birkir ------------------------------- Það er ekki allt á rafbókina lært, hver er framtíð bókarinnar? Ég var svo heppinn að fá að sækja eina helstu árlegu ráðstefnu um bækur og bókaútgáfu sem haldin var í síðustu viku í New York borg. Ráðstefnan nefnist O'Reilly Tools of Change og heimasíða hennar er www.toccon.com. Hátt í 800 manns frá 33 löndum sóttu ráðstefnuna og voru þar staddir fulltrúar frá öllum helstu bókaútgefendum veraldar. Sem gefur að skilja var framtíð bókarinnar eitt helsta umræðuefnið, og kastljósinu var beint að ýmsum kostum, göllum og vandamálum rafbókabyltingarinnar þ.á m. aðgengi. Það er svo sannarlega ekkert leyndarmál að draumur blindra notenda, og annarra sem ekki geta lesið venjulegan texta, er einfaldlega sá að geta keypt sér bók og farið að lesa hana, án þess að bíða eftir því að aðrir skanni bókina, lesi hana inn eða þurfi að gera aðrar kúnstir svo viðkomandi geti nýtt sér hana. Þetta hefur verið svo til óraunhæfur draumur meðan pappírsbókin hefur verið ráðandi, en nú, þegar bækur eru í auknum mæli að færast yfir á rafrænt form og breytast, er engin ástæða til þess að aðgengi allra sé ekki betur tryggt en gengur og gerist í dag. Sala rafbóka hefur aukist um nær 200% milli ára í Bandaríkjunum meðan stórar bókabúðakeðjur eins og Borders hafa orðið gjaldþrota, og bendir þetta allt til þess að prentbókin, eins og við eigum að venjast henni, sé að líða undir lok en enn er ekki alveg ljóst hvað kemur í staðinn. Ýmsar nýungar og hugmyndir voru kyntar á TOC-ráðstefnunni, t.d. bækur sem forrit á iPhone-símum, rafbækur þar sem staðanöfn breytast eftir því hvar notandinn er staddur, bækur sem breyta söguþræðinum eftir því í hvernig skapi lesandinn er (flest lestrartæki eru nú með myndavélar og geta skynjað andlitssvip lesanda), lestrartæki sem gera notanda kleift að setja setningar og tilvitnanir beint á samskiptavefi eins og Facebook og Twitter, eða tæki sem leyfa notanda að setja leslistann sinn beint inn á slíka vefi og tæki sem senda framleiðanda upplýsingar um hvenær og hvar notendur lesa bækur o.s.frv. Flest af þessu er nú þegar á tilraunastigi, sumt líklegra í náinni framtíð en annað, en það er greinilegt að bókin er að breytast og pappírsbókin eins og við þekkjum hana í dag mun ekki verða ráðandi miðill eftir nokkur ár. Það sem kemur okkur kannski einna helst við eru aðgengismál að bókum framtíðarinnar. Ekki er hægt að fjalla um aðgengi að rafbókum án þess að minnast á blindan herramann, George Kerscher að nafni. Hann er aðalritari Daisy-stofnunarinnar (ég veit ekki hvort um kommúnistastofnun er að ræða, en titillinn er þó "secretary general" sem getur ekki útlagst á annan hátt en aðalritari). George er jafnframt forseti Alþjóðlegs félags stafrænna útgefenda (International Digital Publishing Forum, IDPF). Stofnunin ber ábyrgð á stöðlun rafbóka í gegnum ePub-staðalinn en hann er skrásnið sem langflestir útgefendur nota til að framleiða rafbækur (með nokkrum undantekningum þó, t.d. Amazon). Hugsa má um ePub sem eins konar html-staðal sem geymir allar upplýsingar um rafbókina og úr honum má gera skrár sem hægt er að spila á flestum eða öllum lestækjum sem notendur geta keypt og notað til að hlaða niður bókum. Amazon, sem notar annað skrásnið, þarf að breyta bókum sem þeir fá úr ePub-staðlinum yfir á sitt eigið skráasnið áður en bækurnar spilast á Kindle-tækjunum. Þriðja útgáfa ePub-staðalsins, ePub 3,0, er á leiðinni (fyrsti uppdráttur var formlega settur á vefinn www.idpf.org þann 15. febrúar og opinberrar útgáfu staðalsins er að vænta um miðjan maímánuð). Það merkilegasta við þessa útgáfu er að fyrir tilstilli George Kerscher og annarra er gert ráð fyrir aðgengi fyrir skjálesara og önnur hjálparforrit að öllu efni og upplýsingum sem geymdar eru í ePub 3 bókum, og er áætlað að staðallinn taki við af Daisy eftir Daisy-útgáfu fjögur, sem kemur út nú í apríl. Þannig ættu rafbækur framtíðarinnar að vera jafn aðgengilegar og Daisy-bækur eru í dag, jafnvel strax undir lok þessa árs þó vissulega muni taka tíma fyrir útgefendur að færa sína framleiðslu yfir í nýja staðalinn. Bresku blindrasamtökin fylgjast einnig spennt með þróun mála og taka þátt í þróuninni, þá sérstaklega maður að nafni David Gunn, en ég hitti bæði hann og George Kerscher á ráðstefnunni. Það eru vissulega enn mörg ljón í veginum. Útgefendur hafa áhyggjur af þjófnaði og ólöglegu niðurhali rafbóka og loka oft á aðgang að efni þeirra, sem gerir skjálestrarforritum nær ókleift að lesa skrárnar. Þó ePub 3 staðallinn sjálfur geri ráð fyrir aðgengi þarf aðgengi einnig að vera til staðar á lestækjum sem bækur eru gefnar út á t.d. Amazon Kindle tækinu, iPhone- og iPad-símum (svokallað iBooks-form), Nook-tækinu frá Barnes and Noble, Digital Edition frá Adobe og fleirum. Flest þessara tækja keyra ekki Windows-stýrikerfið og því þarf að finna lausnir til að hægt sé að nota þau með tali og punktaletri, stækkuðu letri, undirstrikun o.s.frv. Les- og skrifréttindasamtök Bandaríkjanna (the Reading Rights Coalition) eru í mikilli áróðursherferð um þessi mál. Þau náðu að koma í veg fyrir að óaðgengilegir rafbókalesarar væru notaðir eingöngu í vissum háskólum og kúrsum í tilraunaskyni Lesa má um herferð samtakanna gegn Amazon Kindle á þessari síðu: http://www.readingrights.org/kindle-tts-issue Hluti baráttunnar snýst einnig um eignarrétt og höfundarétt bóka, en höfundasamtök vestanhafs halda því fram að ekki megi gera hljóðbók úr rituðu máli án þess að greiða þurfi höfundum aukalega fyrir það. Höfundar hafa farið varhluta af rafbókabyltingunni og fá minna í sinn hlut þegar um rafbækur er að ræða en af sölu almennra bóka, svo það er í sjálfu sér skiljanlegt að þeir hafi áhyggjur og berjist fyrir sínu. Einnig má nefna, þó ekki verði farið nánar út í það hér, hugmyndir og verkefni sem samtök og háskólar hafa hleypt af stokkunum um að gera ókeypis "open source" námsbækur sem nemendur geti notað að vild án endurgjalds. Þetta virkar einstaklega vel í klassísku námi, svo sem stærðfræði, sögu o.s.frv. Þetta kallast Open Educational Resources, eða OER á ensku og hefur Minnesota-fylki í Bandaríkjunum t.d. sett fjármagn í að búa til fjölda slíkra bóka sem nota á í fylkisháskólunum. Aðgengi rafbóka er einnig mál sem er að öðlast athygli í Evrópu og stór samtök á borð við bresku blindrasamtökin eru farin að láta til sín taka hvað varðar aðgengi félagsmanna að rafbókum og ritefni almennt. Í lokin má því segja að rafræn dreifing bóka, stöðlun í því sambandi, batnandi gæði talgervla ásamt aukinni samvinnu og auknum skilningi milli blindrasamtaka og útgefenda séu að bjóða upp á ný tækifæri fyrir blinda, sjónskerta og lesblinda notendur. Kannski eru einungis nokkur ár þar til blindir og sjónskertir einstaklingar geti loksins farið að kaupa sér bækur eins og aðrir, prentað þær út, lesið, sett á samskiptavefi og jafnvel fengið söguþræðinum breytt þegar þeir eru pirraðir. Þeir sem vilja skoða meira geta skoðað heimasíðu Tools of Change ráðstefnunnar á slóðinni http://www.toccon.com en þar má horfa á myndbandsupptökur og lesa yfir glærur frá mörgum helstu fyrirlestrum þ.á m. frá George Kerscher og Jim Fruchterman, en hann er forseti Bookshare sem er ein helsta Daisy-bókagerð Bandaríkjanna með hátt í 100.000 titla. Lesa má um Reading Rights Coalition hér: http://www.readingrights.org/ Lesa má fyrsta uppdrátt af ePub 3 staðli fyrir rafbækur hér: http://www.idpf.org Lesa má um aukna samvinnu Daisy og EDItEUR samtaka útgefenda hér: http://www.editeur.org/109/Enabling-Technologies-Framework/ --------------------------------------------------------- Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma. Symbian-stýrikerfið er að hverfa á brott, Nokia og Microsoft gera samkomulag um að nota Microsoft-stýrikerfi á Nokia-síma. 11. febrúar síðastliðinn tilkynntu Nokia og Microsoft um stóraukna samvinnu á sviði farsíma. Windows Phone 7 stýrikerfið verður notað á símum frá Nokia í framtíðinni og Microsoft Market Place verður gert að miðstöð fyrir öll forrit sem hægt er að kaupa fyrir þessa síma. Úr tilkynningunni má lesa að Symbian-stýrikerfið, sem Nokia hefur notað í flesta sína síma á síðustu árum, sé liðið undir lok og á leið út úr hugbúnaðarheiminum. Þessi tilkynning kemur fáum sérfræðingum á óvart og búið var að spá þessari þróun strax á árinu 2009. Nokia hefur ekki tekist að gera símana sína spennandi og Apple og Google hafa tekið upp æ stærri hluta, bæði af símamarkaðnum og markaði fyrir forrit, leiki og annan hugbúnað, en stutt er síðan fjöldi forrita sem sótt voru í gegnum iTunes-vefsíðna náði 10 milljörðum. Bæði Nokia og Microsoft hefur mistekist allhrapalega að ná athygli fjöldans og því er eðlilegt að þessi tvö fyrirtæki sameinist og samnýti þekkingu og krafta sína, þekkingu Nokia á símum og þekkingu Microsoft á auglýsingum, leit og hugbúnaði. Eins og við fjölluðum um nýlega er frammistaða Microsoft hvað varðar aðgengi að Windows Phone 7 til háborinnar skammar og eru þetta því, a.m.k. í fljótu bragði, ekki góðar fréttir fyrir aðgengi blindra notenda að farsímum, en á móti kemur að CodeFactory, framleiðandi MobileSpeak, er þegar farið að gefa til kynna að áhersla verði lögð á Android-stýrikerfið og aðgengi að því og má búast við að annaðhvort komi góðar aðgengislausnir fyrir Android á markaðinn, eða Microsoft taki sig saman í andlitinu og standi sig í aðgengismálum eins og Apple hefur sýnt og sannað að hægt sé að gera. Þeim sem njóta þess að halda tólum frá Nokia í hendi sér vottum við samúð okkar og bendum á að hugbúnaðarskipti geta tekið nokkra mánuði og jafnvel nokkur ár, svo óþarfi er að henda símunum í ruslið alveg strax. En við vonumst til þess að aukin samkeppni milli færri framleiðenda leiði til betra aðgengis fyrir alla og að þessi frétt reynist jákvæð þegar til lengri tíma er litið þó vissulega valdi þetta ákveðnum áhyggjum. Meira má lesa um tilkynningu Nokia og Microsoft hér: http://www.intomobile.com/2011/02/11/nokia-and-microsoft-announce-partnership-to-bring-windows-phone-to-nokia-handsets/ Lesa má grein frá 2009 um vandræði Nokia hér: http://www.mobileindustryreview.com/2009/10/the-future-is-dire-for-nokia-symbian-applications-dead-by-2012.html _______________________________________________ Blindlist mailing list Blindlist@listar.ismennt.is http://listar.ismennt.is/mailman/listinfo/blindlist
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.