27.2.2011 | 14:05
Guðfinna Gyða Guðmundsdóttir tækniteiknari, Ninna - minning
Í gær var hringt til mín og sagt að hún Ninna hefði dáið mánudaginn 21. febrúar. Ninna starfaði alla tíð sem tækniteiknari og var mjög fær á því sviði.
Þegar ég var í þriðja bekk í M. R., ásamt tvíburabróður mínum, var eitt af þeim vandamálum sem þurfti að glýma við stærðfræði, flatarmálsfræðin.
Rósa Guðmundsdóttir, einn stofnenda Blindrafélagsins, systir Ninnu, bað hana að búa til upphleyptar myndir hand okkur tvíburum. Ninna gerði það og eftir það tókust góð kynni með okkur.
Ekki hittumst við oft, en samfundirnir og spjallið varð alltaf jafn innilegt og skemmtilegt. Ninna er einhver sú jákvæðasta og fordómalausasta manneskja sem ég hef kynnst. Hún átti létt með að setja sig í spor annarra og gat séð spaugilegar hliðar á há alvarlegum málum.
Fyrir réttu ári, um það bil sem hún varð 85 ára, tók ég viðtal við hana fyrir hljóðtímarit Blindrafélagsins, Valdar greinar. Þar sagði Ninna frá æsku sinni og Rósu systur hennar, en þær voru alla tíð nánar og handgengnar hvor annarri. Ninna lýsir því á lifandi hátt hvernig þær gerðu margt saman, fóru í erfiðar gönguferðir og allt eftir því.
Í lok viðtalsins heyrist upptaka þar sem Rósa Guðmundsdóttir raular frumsamin brag um stofnun Blindrafélagsins. Braginn flutti hún á 40 ára afmælishófi félagsins, 19. ágúst 1979. Arnþór Helgason hljóðritaði.
Ég læt viðtalið við hana Ninnu, ásamt söng Rósu systur hennar fylgja hér og minnist þessarar góðu vinkonu minnar með hlýju og virðingu.
Rétt fyrir jólin síðustu hittumst við og þá sagði hún mér að hún ætti kannski hámark fimm mánuði ólfifaða. Mánuðirnir hérna megin urðu aðeins færri. Hún er nú horfin til annars heims og stendur vafalaust við það loforð sem hún gaf mér að svífa um sem léttfleygur engill og gæta að vinum sínum hérna megin.
Ég er viss um að við komu hennar mun glaðværðin í himnaskaranum aukast um 85% og Ninna mun smita glaðværð sinni og góðvild til allra.
Blessuð sé minningin um hana Ninnu.
Útförin fer fram frá Langholtskirkju fimmtudaginn 3. mars kl. 13.
Athugasemdir
Mikið er gott að heyra fallegu röddina hennar Gyðu aftur. Ég efast ekki um að hún stendur við engla loforðið : ) Takk fyrir að deila þessu !
Lóa (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 23:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.